Lokaorð í Austurglugganum í oktober 2017. Um Írlandsferðina.
(Lokaorð þessi birtust í Austurglugganum í oktober. Þetta var áður en ég skrifaði allar Írlandsfærslurnar).
Við hjónin brugðum okkur af bæ um daginn og fórum í 8 daga haustferð til Írlands. Þetta var mín fyrsta ferð til þangað en önnur ferð Fúsa. Við leigðum okkur bíl og dugði ekkert minna en ágætlega breiður jepplingur þar sem við ætluðum um fjöll og firnindi öfugu meginn. Hvorugt okkar hafði keyrt í vinstri umferð áður en það gat varla verið mikið mál fyrir Austlendinga eins og okkur sem vorum flestu vön hérna í denn og krúsum eftir hraðbrautum Evrópu eins og ekkert sé.
Leiðin frá flugvellinum í Dublin til fyrsta áfangastaðar lá yfir heiðar eftir gömlum hervegi. Ég hafði orð á hversu fallegar þessar heiðar væru og var Fúsi sammála mér, en bætti samt við rogginn að Fellaheiðin væri eiginlega fallegri og ætlaði að fara að bæta við einhverjum lofsöng um Fellin. þegar fyrsti vörubíllinn kom á móti okkur á hvínandi siglingu, að okkur fannst, eftir rétt rúmlega einbreiðum, hlykkjóttum veginum með grjótagarða til beggja hliða. Ég lokaði augunum og beið eftir að mér yrði smurt utan í grjótið mín meginn en einhvernveginn mættumst bílarnir án slyss né skrámu. Eiginlega kom strax í ljós að vinstri umferðin var minnsta málið, heldur voru það þrengslin og hraðinn á örmjóum vegunum sem ullu okkur örlitlum vandræðum svona til að byrja með. Við hlógum mikið að því að við vorum orðnir „lestarstjórar“ þarna í Írlandi en hugsa að bílstjórunum á eftir okkur hafi ekki verið hlátur í huga. Frekar að þeir hafi bölvað þessum túristum sem kunnu ekkert að keyra og í þokkabót á jeppa.
Margt var brallað á Írlandi, við borðuðum á óteljandi veitingastöðum og skoðuðum hinar ýmsu fornminjar. M.a. voru um 17 katedralar og kirkjur heimsóttar, 12 kastalar og 7 munkaklausturrústir, ásamt nokkrum hellum og grafhýsum. Á tímabili var ég komin með nóg af gömlu stöffi og var farin að svipast um eftir nýlistasafni. Einnig fórum við til náttúruperlunnar Cliffs of Moher þar sem hífandi rok og ringing tók á móti okkur á þessum hættulega stað en við létum það ekki aftra okkur, heldur lögðumst við á klettasyllurnar og virtum fyrir okkur ólgandi Atlandshafið, 200 metrum fyrir neðan okkur. „Vitlausu túristar“, hafa líklega einhverjir muldrað.
Það sem okkur þótti þó merkilegast var að það var bara eins og sjálfur geirfuglinn væri mættur á svæðið þegar við birtumst. Spurningin: „Where are you from guys?“ hljómaði aftur og aftur. Veitingastaðirnir höfðu aldrei fengið Íslendinga í mat til sín áður, söfnin höfðu heldur ekki selt Íslendingum aðgangsmiða og gististaðirnir höfðu aldrei haft Íslendinga í gistingu. Ein konan átti þó tengdason sem hafði millilent á Íslandi og sagði okkur stolt frá því. Með okkur í morgunmatnum voru nánast eingöngu Kanar og Ástralir. Þeim þóttu við líka mjög framandi og vildu vita sem allra mest um fjárhagsstöðu Íslands og skoðun okkar á Bobby Fisher. Þarna sat ég og hugsaði með mér að það tæki tæpa þrjá tíma að fljúga á milli Íslands og Írlands en heilan dag til Ástralíu. Þannig að þau væri framandi en ekki við.
Síðasta deginum vörðum við í Dublin og þar fór glansinn af að vera Íslendingur . Vorum ekki lengur sjaldséðnir fuglar og urðum við strax vör við það í morgunmatnum á hótelinu. Sex íslenskar konur voru þarna líka og reyndu að finna sér bestu sætin. Urðu þær viðskilja og voru komnar í sitthvorn enda salarins en því var kippt í liðinn á augabragði þegar ein hrópaði eins hátt og hún gat: Auuuðuuur“, yfir 300 fermetra stóran salinn. „Það er betra sæti hérnaaa“. En þá var búið að tína Katrínu, „Hvar er Katrín? Kaaatrííín“. Við Íslendingar virðumst sjáum um að eftir okkur sé tekið, alltaf á einhvern hátt.