Jólagjafaóskalistinn 2017

Hér situr maður svo og heklar og heklar. Afköstin eru við það að vera dramatísk. Síðan á föstudaginn síðasta hef ég heklað tvær dúllur. Það er hlutfallslega meira en meðalmanneskjan áorkar (ef hún kann ekki að hekla). Svona mikið hef ég ekki heklað á stuttum tíma síðan í mars þegar ég lærði að hekla (færsla um það hér).

Þegar maður er á annarri dúllunni á örfáum dögum, er færnin orðin svo mikil að það er hægt að hugsa um annað en stuðla, loft og svikalykkjur á meðan heklað er. Ég fór að hugsa um áðan hvað mig langar í jólagjöf. Mig langar í svo margt.

En mest langar mig í sultu. Heimagerða úr íslenskum berjum. Helst hrútaberjum eða bláberjum.

Ég fæ nefnilega senda hrútaberjasultu haust eftir haust, ágætlega stóra krukku en hún endist bara í u.þ.b. í 4 máltíðir. Sem er sorglega lítil ending. Samt hef ég ekki gefið með mér. Fúsi spurði um daginn við eitt morgunverðarborðið hvernig þessi sulta væri. Ég svaraði honum að hún væri gjörsamlega óæt. Hann skyldi passa sig að koma ekki nálægt henni því hann myndi bara kúgast og kúgast. Hann skildi sneiðina og lét sér nægja skraufaþurra brauðsneiðina með smá vegansmjörklípu.

Síðan langar mig í bækur, engin eru jólin án bóka. Vissuð þið að þegar ég var ellefu ára, fékk ég ellefu bækur í jólagjöf? Nei… en það fékk ég.

Mig langar í:

  • Vígroða og Blóðuga jörð eftir Vilborgu Davíðsdóttur
  • Eyland eftir Sigríði Hagalín
  • Skurði í rigningu eftir Jón Kalman

Svo langar mig svolítið í jeppa til að hafa á Íslandi, þarf ekki að vera splúnkunýr en verður þó að hanga saman og fara í gang þegar ég starta honum.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *