Með Fúsa á Írlandi – 3.kafli. Maturinn

Við Fúsi fórum í 8 daga ferð til Írlands um daginn. Hversvegna til Írlands? Vegna þess að Fúsa hefur alltaf langað til Írlands og hann mátti ráða. Þá sjaldan. Til að ferðin gleymist ekki, ætla ég að blogga um hana. Írlandsfærslurnar verða kaflaskiptar og algerlega óvíst hversu margir kaflar verða.Willoughby’s

1.kafli Gististaðirnir (linkur á bakvið).

2.kafli Flug og bíll (linkur á bakvið).

3. kafli Maturinn (linkur á bakvið). 

4. kafli Og hvað var svo gert? (linkur á bakvið). 

Fúsi segir stundum að ég sé veitingastaðasjúk. Hann segir að það sé ekki hægt að fara með mig út fyrir dyrnar heima því að ég hugsi bara um mat… Það sem hann getur bullað stundum.

Ég var annars alveg græn hvað írskan mat varðaði áður en við fórum af stað. Hafði einu sinni eldað írska kjötsúpu sem var allt í lagi.

Í síðustu Írlandsfærslu sagði ég frá því að við hefðum hafið ferðina á því að keyra eftir gamla hermannaveginum í gegnum Wicklow Mountains Nationalpark. Þegar niður af heiðunum er komið, kemur maður niður í Glendalough dalinn sem er mjög fallegur.  Það var komin seinnipartur og við orðin kaffiþyrst og svolítið svöng. Við stoppuðum því í fyrstu sjoppunni sem við sáum þegar við keyrðum inn í þorpið en sú sjoppa reyndist selja allt en samt ekkert. Aðallega kexpakka og pastaskrúfur. Og ekki vildi hún selja okkur kaffi því hún var að loka. Við spurðum því hvaða veitingarstað hún mælti með og benti hún niður götuna. Við fórum þangað. Þegar inn var komið, litum við Fúsi á hvort annað sigri hrósandi. Við höfðum dottið í lukkupottinn. Þarna sat lókallinn. Þetta var svipað og að koma inn á Álfakaffi á Borgarfirði Eystri utan ferðamannatímans. Þegar lókallinn er þar í mat. Nema hvað á Álfakaffi er allt í björtu. Á Írlandi eru innréttingarnar dökk, massiv eik, dúkarnir á borðunum eru köfflóttir og gamalt dót frá miðöldum hangir í loftinu og safnar ryki. Okkur fannst við vera í paradís. Við pöntuðum okkur rétt dagsins sem var einhver steiktur hvítur fiskur. Hnýsa minnir mig. Þetta kom svo eftir skamma stund og svo mikið var á disknum af fiski og kartöflum að útaf flæddi. „Vel útilátið“, hefðu einhverjir sagt. Við Fúsi tókum til matarins, smjöttuðum og sögðum: „mmm“ hvað eftir annað. Við vorum loksins komin til Írlands og vorum að bragða á menningu sem við þekktum lítið til. Létum sem allt væri æðislegt, skrifuðum stelpunum og áttum erfitt með að finna orð til að dásama þetta allt saman. Ég gat bara borðað helminginn og Fúsa rak í rosastans: „Hva ætlarðu ekki að klára? Nei, svaraði ég, ég þarf ekki meira. Borguðum svo og fórum. Þegar út var komið, var fátt sagt, þangað til annað okkar braut ísinn og sagði að þetta hefði nú kannski ekki verið neitt spes… Nei, aldeilis ekki. En ódýrt var þetta. Og vel útilátið.

Í fyrsta kafla útlistaði ég gaumgæfilega hrifningu minni á morgunmatnum á B&B stöðunum svo fleiri orð um hann ætla ég ekki að hafa.

Daginn eftir vorum við í Kilkenny og alveg óumbeðin, mælti B&B eigandinn með nokkrum veitingastöðum. Við höfðum þá á bakvið eyrun. Það er einnig ágætis þumalputtaregla að halda sig við staði þar sem lókallinn borðar, en það getur verið heiglum hent að þekkja muninn á lókalnum og ferðamönnum þegar stærsti hluti ferðamanna á Írlandi eru Írar sjálfir. Einnig er enginn stórkostlegur útlitslegur munur á lókölskum Íra né Kana, né Ástrala, né Íslendingi. Því er nánast ómögulegt að finna staðina þar sem lókallinn borðar. Allavega, í Kilkenny vorum við í einn heilan dag og ef ég man rétt, fórum við bara á þrjú kaffihús og eða veitingarstaði.

Þarna sést Fúsi á Willoughby’s, staðnum sem bjó til gott kaffi og frábæra súpu með heimabökuðu hollustu brauði. Og skammtarnir voru svo passlegir að ég kláraði.

Síðan um kvöldið fórum við á ítalskan stað sem heitir Rinuccini þar sem annað var uppi á teningnum en á kránni daginn áður. Allt annað. Ég krafðist þriggja rétta. Fúsi lét undan. Við erum nefnilega frekar ólík hvað mat varðar. Fúsi borðar til að deyja ekki, ég borða til að smakka. Ég vil smakka og smakka. Og allt á þessum stað smakkaðist vel, allt frá próseccóinu til eftirréttarins. Og skammtarnir voru passlegir og ég kláraði.

Daginn eftir borðuðum við í Dingle, á Murphey’s þar sem íturvaxinn kona á aldur við Fúsa, þjónaði okkur. Meira man ég ekki frá staðnum nema hvað ég varð að fá mér óáfengan bjór, Fúsa til samlætis. Við áttum eftir að keyra svolítinn spöl. Jú og svo man ég að ég kláraði ekki matinn minn og Fúsi átti bara ekki til aukatekið orð.

(Þarna vorum við orðin frekar þreytt á hvort öðru enda búin að vera límd upp við hvort annað í þrjá daga og höfðum ekkert meira að tala um. Þess vegna fór ég bara að leika mér með myndavélina á meðan við biðum eftir matnum)

Það er sagt að Írar séu hrikalegir drykkjuhrútar, sem við urðum ekkert sérstaklega vör við það, en þeir passa þó upp á þá sem velja ekki að drekka. Allsstaðar var hægt að fá óáfengjan bjór og á fínni stöðunum var Erdinger í boði en það er uppáhalds óáfengi bjórinn okkar Fúsa. Mest Fúsa. Annað var í Kaupmannahöfn um daginn. Við vorum þar í einn og hálfan dag og fórum á þrjá veitingarstaði og hvergi var hægt að fá óáfengan bjór.

Þegar við komum til Galway, rennandi blaut og veðurbarin, byrjuðum við á að tékka okkur inn á B&B og skipta um föt. Fórum síðan út að borða. Afþví að við vorum svo veðurbarin, áttum við, að mínu mati, skilið þriggja rétta. Og Fúsi átti skilið Erdinger. Enn einu sinni kláraði ég ekki aðalréttinn enda hafði ég ekki brennt neinu gífurlegu þennan dag frekar en hina dagana. Fúsa fannst það algerlega ótækt. Sko að ég kláraði ekki matinn, um brennsluna hafði hann engin orð.

Daginn eftir gengum við um götur Galway. Ég hef skrifað  í kalanderbókina mína þennan dag:

  • Galway
  • Katedralur – brúðkaup
  • Áin
  • Ömurlegur göngutúr að „kjarnorkuveri“
  • Pissaði í kamar ætluðum maraþonhlaupurum 🙁 (Eftir maraþonhlaupið…)
  • Latínuhverfið
  • Mörg kaffihús (5-6)
  • Seafoodstaður 🙂

5-6 kaffihús… á einum degi. Og einn sjávarréttastaður. Djöfull hefur þetta verið vel af sér vikið! Við höfum ábyggilega klappað hvort öðru á öxlina í lok dags. En svona er að vera í latínuhverfi, það eru freistingar bæði til hægri og vinstri. Sjávarréttastaðurinn var besti staðurinn sem við borðuðum á í ferðinni og heitir hann The Seafood Bar at Kirwan’s.  Allt var gott og passlega útilátið. Við smökkuðum ostrur í fyrsta skipti, já komin á fimmtugsaldurinn og því ekki seinna vænna. Sumir reyndar að detta í sextugsaldurinn og því var tíminn að verða naumur (#LífiðErAðFjaraÚt).

Frá Galway ókum við til Dublin með viðkomu í Malahide til vinarfólks okkar sem við höfðum eignast í gegnum Snapchat, hvort sem þið trúið því eður ei. Það er svo margt jákvætt við snappið. Stundum sakna ég þess, stundum ekki. Ég dreg til baka að sjávarréttastaðurinn í Galway hafi verið bestur því besti maturinn í ferðinni var í Malahide og ókeypis í þokkabót. Eitt það versta við að hafa hætt á snappinu er að geta ekki tjáð mig í formi myndbandsbrota við Ingunni í Malahide um stórmál líðandi stundar.

Síðan er það síðasti dagur ferðarinnar og í sjálfri höfuðborginni. Þeir sem þekkja til Dublin, láta sér ekki koma á óvart að okkar fyrsta máltíð hafi verið í Temple Bar hverfinu. Við römbuðum inn á stað sem heitir Bad Bobs Temple Bar og voru hamborgararnir þar mjög góðir (við vorum búin að borða svolítið mikinn fisk í ferðinni) og staðurinn rosalega skemmtilega innréttaður. En ég gat ekki klárað. Og Fúsa kom það verulega á óvart. Og sagði að það væri ekki hægt að fara með mér út á meðal fólks, ég kláraði aldrei matinn minn.

Nei, það geri ég ekki ef ég skammta mér ekki sjálf og er ekki nógu svöng til að klára. Ég brenni nefnilega ekki svo miklu, sérstaklega á svona dögum eins og á Írlandi, þar sem ég sat í bíl eða gekk í hægðum mínum að skoða menningu Íra mestmegnis af deginum. Þá þarf ég ekki að borða á mig gat, enda ef ég gerði það, kæmi allmikið ójafnvægi í framboð og eftirspurn. Hugtakið „vel útilátið“ er útrunnið, vegna þess að flest okkar lifum rólyndis lífi, sitjandi á rassinum eða gangandi í hægðum okkar. Einn og einn þjóðfélagsþegn er að grafa skurð. Það er af sem áður var, þegar katedralarnir voru byggðir og þeir sem byggðu þá voru með allt of lágt BMI (já það var mælt árið 1250) og þurftu að bera efniviðinn (níðþungt grjótið) á bakinu fleiri fleiri kílómetra. Þá átti hugtakið „vel útilátið“ fullkomnlega rétt á sér. En ekki í dag. Í dag þarf þorri þjóðarinnar ekki að borða á sig gat.

Og hana nú.

Síðasta kvöldið í Dublin, helliringdi, við höfðum hvergi pantað borð og flúðum eiginlega inn úr rigningunni inn á stað sem var litlu betri matarlega séð en sá fyrsti sem við fórum á. En Fúsi fékk sinn Erdinger og ég fékk mitt próseccó. Við vorum sátt.

Ef þú lesandi góður ferð einhverntímann til Írlands á okkar slóðir, er þér óhætt að styðjast við þessa linka sem ég setti á bakvið nöfnin á veitingarstöðunum.

 

 

 

Trackbacks & Pings

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *