Gæludýrin sem eru ekki „gæludýr“

Nú get ég víst sagt að ég sé búin að koma mér í vandræði, alvarleg vandræði. Bara með því einu að láta ALLT eftir þessum blessuðu börnum. Gæludýr hafa oft og mörgum sinnum verið rædd hér á heimilinu og alltaf hef ég getað rökstutt það að fá okkur ekki gæludýr… „en mamma, það er hollt fyrir öll börn að umgangast dýr…“ já já… hollt og hollt. Auðvitað er það hollt. Og auðvitað er hollt að hafa gæludýr. En málið er bara að einn meðlimurinn í hússtandinum er með ofnæmi fyrir gæludýrum… púnktur! Þessvegna ekki gæludýr… púnktur!

„En mamma, það er engin með ofnæmi fyrir fiskum, fuglum og nagdýrum…“

„Kæru börn, fiskar, fuglar og nagdýr eru ekki gæludýr!!!“

Svo kom stundin… stundin þar sem ég fór ekki varlega og sagði ekki þvert nei. Núna er húsið að springa utan af nagdýrum. Og ég í tómu tjóni. Það var verið að bjarga dýrum úr húsum hér í Sönderborg. Í húsunum var ekki talað við gæludýrin og það átti að senda þau í sláturhúsið… Aldís er öflugur stuðningsmaður dýravelferðar í tali og því hjólaði hún og sótti lítið broddótt marsvín með búri og öllu í gær. Í dag þurfti ég að fara á bílnum og sækja risamarsvínahlúnk niður í miðbæ… með búri og 2 hekturum af heyi.

Skepnunum var sleppt lausum í garðinn og á innan við mínutum var garðurinn orðin eins og skíthús… Aukþess er búið að þvo 2svar utan af rúmminu hennar Aldísar því það varð „óhapp“ eða „óhöpp“.

Aldís hefur fengið það verkefni að fara á netið og fræðast um marsvín… afhverju hristast þau ALLTAF… hvernig heldur maður hægðunum þeirra í skefjum og er í lagi að hella ÖLLUM matarafgöngum oní búrið til þeirra? Og ekki síðast en síst… geta þau haft samfarir??? Þetta er víst karl og kona, en konan er eins og stærðar kartaffla og karlinn eins og hangikjötslæri. Það yrði hrikalegt ef til samfara kæmi.

Við erum ósammála með nöfn… það endaði með því að Aldís sagði að það væri í lagi að við kölluðum þau bara það sem við vildum… þau gegna hvorteðer ekki nafni.

Stelpurnar spyrja í sífellu hvort ég vilji halda á dýrunum… nei, ég vil ekki halda á dýrunum. Nágrannabarnið flissar bara og spyr hvort ég sé hrædd… Nei, ég er ekki hrædd… sé bara engan tilgang með að vera burðast með þetta hingað og þangað.

Semsagt, heimilisástandið er katastofalt… ég veit ekki hvað til bragðs á að taka! Ég er komin með ofnæmi svei mér þá.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *