Nick Cave og við Fúsi í Kaupmannahöfn.
Þegar við Fúsi byrjuðum saman þarna um árið, kynnti hann mig fyrir Nick Cave og ég kynnti hann fyrir Leonard Cohen. Mér fannst Nick Cave stórskrítinn en lærði samt að meta hann upp að vissu marki. Mjög margt er gott, sumt er ekki hlustandi á. Fúsa fannst Leonard Cohen ekkert spes en ég brá á það ráð að setja Leonard bara á repeat (endurtekningu) frá árinu 1993 og þar til núna, hann er enn á repeat, enda kann Fúsi að meta hann í dag.
Ég var bara 17 ára þegar við byrjuðum saman, Fúsi og ég. Ég var 16 þegar ég hóf samband mitt við Leonard. Mömmu leyst lítið á þessa ráðagerð okkar Fúsa, hann var mikið eldri en lítið þroskaðri en ég og svo kunni hann sama og ekkert að elda. Hann sauð allt. Bjúgu, fiskibollur, kjötbollur, saltkjöt, nýtt kjöt, fisk, pulsur og fiskibúðing. Og með þessu sauð hann kartöflur. Ég var í grennra lagi á þessum árum og mátti ekki við að leggja af, en maturinn hans Fúsa var nánast óætur. Því var ég á símalínunni út í Tókastaði til mömmu um hvernig ætti að elda hitt og þetta. Þá var ekki google. Eða mamma var google.
En aftur að Nick Cave, mér fannst hann ekki álitlegur í byrjun og því lét Fúsi mig byrja á rólegu og dramatísku nótunum. Hann kynntist nefnilega strax þeirri hlið á mér. Ég held að ég hafi ekki sagt honum frá henni og allra síst að ég hafi næstum drekkt sjálfri mér í tárum, hlustandi á Love hurts med Nazareth, vegna ímyndaðrar ástarsorgar útaf Seyðfirðing þarna rúmlega ári áður. Love hurts lagið svínvirkaði þegar það þurfti að gráta strákana. To take a lot of pain, take a lot of pain…Ooh, love hurts, ooh.
Jú Fúsi lærði fljótt inn á mig og vissi hvað til þurfti. Hann byrjaði því blíðlega og setti Where the wild roses grow á fóninn.
Ég heyrði strax að melódían hentaði mér og að þetta væri eitthvað gott drama. Mikil ást, mikil rómantík og mikil fegurð.
Fúsi hafði einmitt sagt við mig að ég væri það fallegasta sem hann hafði séð. Ég trúði honum. Enda ástfangin og allt á fullu í tilhugalífinu.
Lagið með Nick Cave spilaðist og í lok lagsins drepur hann stelpuna með því að lemja hana í hausinn með steini. Og segir: „Öll fegurð verður að deyja“. Síðan stingur hann rauðri rós upp í hana. Þetta lag var mikið spilað á fyrsta heimilinu okkar í Lágafellinu. Þarna runnu á mig tvær grímur og var ég hreinlega ekki viss um að ég myndi lifa þetta af. Þetta hvað? Nú bara lífið. Ef Fúsa finndist ég virkilega svona falleg og ef hann væri svona rosalega hrifinn af Nick, þá myndi hann kannski bara fara með mig niður að Fljóti, ganga frá mér með steini og stinga upp í mig njóla (það vaxa engar rósir á fljótsbakkanum). En dagarnir liðu, Fúsi gerði mér ekki flugumein og lagið var bara lag.
Í maí síðastliðnum kom hann heim einn daginn og tilkynnti að hann ætti tvo miða á Nick Cave and The Bad Seeds í Royal Arena. Hvort ég vildi með eða hvort hann ætti að bjóða einhverjum öðrum með?
Auðvitað vildi ég með. Nick hefur öðlast svolítið pláss í hjarta mínu þar sem hann minnir mig á tilhugalífið með Fúsa í lok 20tugustu aldar.
Á fimmtudaginn síðasta hittumst við á Kastrup, Fúsi kom fljúgandi frá Sönderborg og lenti kl. 17:15 og ég kom fljúgandi frá Stavanger og lenti kl. 17.00. Ef við eigum að ræða skipulagningu, getum við auðveldlega gert það í annarri færslu 😉
Daginn eftir fórum við niður í Kaupmannahöfn. Reyndar veit ég ekki hvort talað sé um að fara niður í Kaupmannahöfn en ég geri það hér. Ég er að meina niður í bæ, niður á höfuðbrautarstöðina. Við bjuggum á Ørsted, sem allra styst frá Royal Arena.
Við ætluðum á Hrekkjavökutívolí, en nenntum svo ekki. Ætluðum síðan í Christiansborg, ofan í kjallarann, upp í turninn og útum allt þar en nenntum því ekki heldur. Vorum eiginlega ennþá södd af „gömlu“ eftir Írlandsferðina. Því varð úr að við fundum franskan veitingastað sem bauð upp á íslenska síld og færeyskan lax og borðuðum þar.
Síðan gengum við bara um Kaupmannahöfn. Við gengum í gegnum Grábræðratorg, niður á Nyhavn…
…yfir Inderhavnsbrúnna, þaðan yfir á Pappírseyjuna, í gegnum Streetfood, sáum íslenska sendiráðið að utan, fórum inn í eina Norræna handverksbúð en keyptum ekkert þar, hittum þar snappvinkonu sem var ógurlega gaman, fórum þaðan aftur yfir brúnna, inn í aðra búð og keyptum fjögur tækifæriskort, þaðan lá leiðin að Børsen (sem mér finnst alltaf ein fallegasta byggingin í Kaupmannahöfn og þaðan aftur upp á höfuðbrautarstöðina.
Ég þreyttist síður en svo af að fræða Fúsa allan daginn um að langafi minn hafði sótt nám til Kaupamannahafnar í byrjun tuttugustu aldar og síðar orðið hreppstjóri í Loðmundarfirði. Reyndar var þetta kannski ekki alveg rétt hjá mér, því ef ég gúggla, kemur hvergi fram að hann hafi verið í Kaupmannahöfn, en í Danmörku var hann þó, við nám. En það skiptir ekki öllu, Fúsa fannst ógurlega gaman að hlusta á mig rekja náms- og hreppstjóraferil langafa míns.
Um kvöldið voru svo tónleikarnir. Ég hafði satt best að segja, lítið spáð í þessum tónleikum, var eiginlega ekki með neinar sérstakar væntingar og þurfti alls ekkert endilega að vera fremst. Fúsi vildi vera fremst. Ég óttaðist aðeins stærðina, var hrædd um að þetta yrði ópersónulegt og allt það, minnug Rammstein tónleikana sem við fórum á í vor en það eru með þeim verstu tónleikum sem ég hef farið á. 40.000 manns er of mikið. Rammstein gerðu líka lítið annað en það sem þeir áttu að gera. Rosalega vélrænt alls saman og mér leiddist.
Royal Arena tekur 16.000 manns og var höllin full. Þó gekk allt smurt, hvergi biðraðir, hvorki inn, í fatahengi né á klósett. Tónleikarnir áttu að byrja kl. 20.00 og þeir gerðu það. Sjö manna hljómsveitin lét ekki bíða eftir sér.
Og ó Jesús minn góður, eða einhver álíka. Þeir náðu okkur strax. Nick með sinni hlýju og nærveru og þeir hinir með frábærum hljóðfæraleik. Ég varð strax þakklát Fúsa fyrir að vilja vera svona framarlega.
Þeir tóku lög eins og Into my arms, Red right hand, The weeping song og mörg önnur sem ég man ekki augnablikinu hvað heita og Fúsi er ekki hjá mér til að hjálpa mér við þessa færslu. Nick leyfði okkur að snerta sig, tók í hendurnar á fólki (Fúsa líka) og fór útí sal og var þar heillengi. Endaði svo á að taka nokkra tugi áhorfenda upp á svið til sín og munaði einni röð að við hefðum komist líka.
Þeir spiluðu sleitulaust í næstum tvo og hálfan tíma, engin pása nema þegar þeir voru klappaðir upp og þvílík orka í þessum fullorðnu mönnum. Að hlaupa maraþon er held ég, pís of keik miðað við þetta.
Ég sem áhorfandi fékk á tilfinninguna að þeim þætti æðislegt að spila í Kaupmannahöfn, að við værum mjög skemmtilegir og sérstakir áhorfendur. Þeir bókstaflega áttu salinn og gátu gert það sem þeir vildu með okkur.
Þessir tónleikar eru einir af fimm bestu tónleikum sem við höfum farið á.
Yfir okkur hamingjusöm gengum við heim á hótel í hellirigningu.