8 tíma „skemmtiflug“ á milli Kastrup og Stavanger.

Afleysingalífið er draumur í dós. Ég er enn með bullandi frelsistilfinningu og hef varla stoppað síðan ég hætti á Gjörinu í Sönderborg og fór að vinna í Noregi og lítið stopp er í aðsigi. Búin að vera talsvert á Íslandi og úti um allt land þar, erum að fara til Írlands, farin að huga að jólaferð, febrúarferð, vorferð ásamt hinum ýmsu ferðum. Sem sagt, algjer draumur í dós. Ég meina #LífiðErNúna (linkurinn á bakvið inniheldur frekað fyndið myndband en þar er Hjálmar Örn að taka ákveðin hóp kvenna fyrir á skemmtilegan hátt).

En það þarf ekki að grafa djúpt til að glansmyndin af þessu dósadraumalífi mínu fölni tiltölulega hratt. Ég bý ekki alltaf ein í Noregi. Ég ferðast ekki með einkaþotum.

Þið munið kannski eftir því þegar ég lenti í sambúð með „sullustelpu“ um daginn. Það var agalegt.

Ekki ganga ferðalögin alltaf slysalaust fyrir sig. Þið munið mögulega eftir færslunni um daginn þegar ég fór með lykilinn af íbúðinni í Stavanger út á flugvöll. Ekki var það neitt spes dagur.

Dagurinn um daginn í síðustu viku var engu skárri.

Ég fór að heiman frá Sönderborg um hálf níu og allt í góðu með þann fluglegg. Alsie express enn og aftur í langfyrsta sæti yfir besta flugfélagið í öllum heiminum. Ég lenti í Kastrup og fór fljótlega á klósettið og um leið og ég settist varð mér hugsað hlýlega til flugstöðvarinnar. Aðallega vegna hreinlætis hennar og möguleika á afþreyingu og sætum á meðan beðið er.

Minnug þess þegar ég lenti í Leifstöð í sumar og fór á klósettið þá. Það var heiglum hent að finna klósett sem ekki var fult af klósettpappír, bæði ofan í skálinni og á gólfinu og þar sem anganinn af hlandi og saur sveið ekki í nefið. Algjörlega á þversum við ímyndina sem maður hefur af landinu við lendingu. Ísland er blátt, tært, ferskt og slær hinni væmnustu dömubindaauglýsingu út hvað varðar hreinleika. Ég held að það skipti ekki máli hvort maður sé landsmaður eða útlendingur, Ísland er hreinast í heimi. Þetta hlaut að vera eitthvað tilfallandi þarna á Leifstöð við komu mína í júlí. Svo reyndist ekki. Á 6 vikum hefur leið mín í gegnum Leifstöð legið fjórum sinnum og sama salernisástand hefur blasað við mér. Sú mynd er núna greipt í huga mér og ætla ég, sípissandi manneskjan, að setja upp þvaglegg á sjálfri mér fyrir næstu lendingu í Leifstöð.

Auk þess eru engin sæti við útgönguhliðin í Leifstöð og samt var ætlast til að allir stæðu klárir þremur korterum áður en hleypt var um borð. Mikið var um hálf lappalaust fólk í hópi farþega sem stóð þarna í skjálftanum úr sjálfu sér, ásamt bakskökku fólki og smábarnafólki sem þurfti að halda á smábörnunum því að smábörn nú til dags nenna ekki að standa. Það er af sem áður var, í gamla daga, í minni sveit voru þau byrjuð að smala úr túninu fyrir tveggja ára aldur.

Já, ég var alveg sátt þarna í Kastrup og jafn sátt við að vera að fara á kvöldvakt á Gjörinu í Stavanger, næstum strax eftir lendingu.

Þegar um borð var komið, varð einhver töf á að farið yrði í loftið og seint og síðar meir kom tilkynning um bilun í vélinni sem ekki var hægt að gera við að svo stöddu. Við þyrftum því að fara frá borði, inn í flugstöð, að öðru hliði og með annarri vél. Konan fyrir framan mig greip andann á lofti og trúði bara ekki sínum eigin eyrum. Hún væri að fljúga í fyrsta skipti ein og að þetta væri nú „tú möts“. Hún sat við hliðina á kornungum manni, kannski um tvítugt, sem  sat með nefið klesst við rúðuna. Hann virtist ekki alveg vera að höndla andköf konunnar.

En við fórum frá borði og um borð í aðra vél vorum við komin innan skamms og fljótlega fórum við í loftið. Mér reiknaðist svo til að ég myndi ná kvöldvaktinni, með í mesta lagi hálftíma seinkun. Þegar við vorum um það bil hálfnuð, kom tilkynning frá flugstjóranum um bilun. Einhver leki í leiðslu í kokkpittinu. Og enginn flugvirki til taks í Stavanger svo að það eina í stöðunni var að snúa við. Konan fyrir framan spurði unga manninn hvort það væri ekki í lagi að hún gripi um handlegg hans. Ég sá ekki hvort hann svaraði en hún greip allavega um handlegginn. Við lentum lengst út á velli, líklega hjá verkstæðinu og á meðan flugvirkinn reyndi að gera við bilunina, biðum við um borð. Eftir tæplega klukkutíma bið, var okkur tilkynnt að ekki tækist að gera við bilunina þennan daginn og því þyrftum við að fara frá borði og inn í flugstöð aftur. Þar áttum við að fara í transferrið og láta breyta fluginu okkar í næstu vélar.

Ég heyrði að konan fyrir framan mig sagði við unga manninn: „Ég hengi mig bara á þig…“.

Þið getið rétt ímyndað ykkur þegar innihald fullrar vélar kemur inn í flugstöðvarbyggingu og allir ætla að komast sem fyrst til Stavanger. Þetta var barátta upp á líf og dauða. Einfættir áttu ekki séns. Of feitir drógust aftur úr. Gamlir og hjartveikir fengu flestir hjartastopp af áreynslu og lágu því í valnum því enginn hafði tíma til að hnoða. Ungi maðurinn átti heldur ekki séns því ekki var frúin fótfrá. Ég lenti í símanum og það segir sig því sjálft að ég fór ekki með fyrstu vél sem var í boði.

Ég þurfti að fara til Bergen og þaðan til Stavanger, ásamt einfættum, of feitum, unga manninum og konunni fyrir framan mig.

Kvöldvaktin mín var þarna farin í vaskinn og mitt jafnaða geð byrjað að bíða hnekki.

Í sárabætur fengum við 100 króna ávísum sem við máttum nota hvar sem var í flugstöðinni. Ég hugsaði þarna um miðjan daginn að skynsamlegasta máltíðin myndi vera samloka úr Lagkagehuset og djús frá Joe and the juice. Nei, þá var ekki hægt að skipta 100kallinum. Maður má bara nota hann á einum stað. Hnekkirnir urðu fleiri á jafnaðargeðinu.

Loks var farið í loftið til Bergen og svo sem ekkert út á það að setja og var ég eiginlega bara rosalega fegin að flogið var þangað en ekki til til dæmis Rússlands, því flugstöðin í Bergen er með því flottara sem ég hef séð. Í fluginu frá Bergen til Stavanger fékk ég gangsæti sem hallaði svo mikið út á ganginn að minnstu munaði ég dytti úr því.

Ég velti oft fyrir mér þennan dag hvort ekki væri kominn tími á að SAS endurnýjaði vélarnar sínar.

Þessa mynd tók Aldís Gunnarsdóttir af flugvél með mig innanborðs að fara í loftið í ágúst. Aldís var stödd á Finnstöðum og því með gott útsýni yfir  Egilsstaðaflugvöll.  

Allavega, þegar til Stavanger var komið, seint og síðar meir, var flugrútan hætt að ganga á sjúkrahúsið og því þurfti ég að fara krókaleiðir til að komast „heim“. Ekki til að bæta ástandið.

Þegar þarna var komið við sögu, var ég orðin alveg kolómöguleg í skapinu, komin með hausverk af flugstöðvum (sem urðu 4 talsins) og flugvélum (sem urðu í allt 5 talsins) og hundpirruð yfir mjög svo rispaðri og skítugri tösku sem var alveg spáný í upphafi dags. Hún átti samt örugglega verri dag en ég.

Í sjálfsvorkunninni ákvað ég að kaupa mér kók þegar ég var að versla í matinn þarna seint um kvöldið. Því að í búðinni ákvað ég að kók væri allra meina bót. Eða pepsí í þessu tilviki því mér finnst bæði kók og pepsí gott. Pepsíið var ódýrara í þessari búð.

Þegar ég kom heim í íbúðina, búin að koma mér fyrir og borða síðbúin kvöldmat, sótti ég, með mikilli eftirvæntingu pepsíið og þá fyrst sá ég að ég hafði keypt pepsí max! Þetta var það versta sem kom fyrir mig þennan daginn.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *