Finnst ekki öllum það sama og mér?
„Það finnst ekki öllum það sama og þér“ segir Fúsi reglulega við mig. Reglulega er reyndar hóværslega sagt, hann segir þetta mjög oft. Mjög reglulega. Nú síðast í gærkvöldi þegar ég skammtaði honum vænum skammti af rótargrænmeti á diskinn hans. Mér finnst það sjúklega gott með vel rauðu kjöti. En Fúsi sagði nei takk og ég missti andlitið. „Þú veist alveg að ég er ekki hrifinn af þessu“ sagði hann. Haaa??? Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin eyrum þrátt fyrir að hann hafi sagt mér það 17þúsundsinnum. „ÞAÐ FINNST EKKI ÖLLUM ÞAÐ SAMA OG ÞÉR“. Hann hækkaði meira að segja röddina. Mér varð bara hverft við og skildi sama og ekki neitt.
Ég á svo ofboðslega erfitt með að skilja þegar ég er ofboðslega hrifin af einhverju, afhverju allir aðrir séu ekki hrifnir líka. Og síðan skil ég ekki neitt þegar fólk skilur mig ekki. Nærtækast er að taka nokkur dæmi til að auka skilning ykkar á því sem ég er að tala um.
Ég til dæmis skil engan veginn að Fúsi skuli ekki nenna að lesa Dalalíf, öll 5 bindin. Né Heiðarbýlið eftir Jón Trausta. Né Laxness. Né Kalman. Né Náðarstund. Þótt ég leggi þær bókstaflega ofan á andlitið á honum þegar hann liggur uppi í rúmi að lesa… aðra bók. Og hann ýtir þeim pirraður til hliðar. Bara skil það ekki. Á svo erfitt með að skilja þegar fólk les ekki sömu bækur og ég. Eins og þegar fólk réttir mér bók eftir Camillu Läckberg og mælir með því að ég lesi hana. Enn erfiðara er að skilja þegar fólk les ekki bækur. Og allt ætla um koll að keyra í kollinum á mér þegar fólk segir: „Dagný, þú verður að horfa á Grey’s (anatomy), því þú ert hjúkka og þú munt fíla það“. Ég horfði einu sinni á einn þátt og í honum var gefið stuð á flatri línu í hjartastoppi. Ég skildi ekkert og skil enn ekki hvernig fólk nennir að horfa á þessa þætti. Ég meina, að stuða á flatri línu?
Á hinn bóginn skil ég ekki afhverju allir hafi ekki séð Breaking bad þættina, Kill Bill 1&2, Django og Moulin Rouge. Og hvernig einhverjum getur ekki fundist Leonardo DiCaprio besti leikari í heimi. Fyrst að mér finnst það, þá er hann það.
Svipað er með sælgæti. Ef mér finnst eitthvað gott þá er það gott. Eins og prince polo, mér þykir það svo gott að ég borða það oftast í tveimur munnbitum og engin fær hjá mér bita því það er alltof seint. Reyndar fá fáir bita af uppáhaldssælgætinu mínu því ég lenti í að læra af reynslunni á óþyrmilegan hátt árið 2003 en þá hafði ég verið á Íslandi og tekið mikið magn af þristi með mér til Danmerkur því þá var þristur í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég var í verknámi á þessum tíma á geðsjúkrahúsi og einn daginn var bóklegt hjá verknámsnemunum. Ég tók þrist með til að leyfa þeim (Dönunum) að bragða á íslenskum lífsins lystisemdum en ekki fór það betur en svo að sú fyrsta sem beit í þristinn, stökk að næsta rusladalli og hrækti honum útúr sér. Ein önnur fylgdi í fótspor hennar og úr varð að fáar þorðu að smakka. Ég fékk í orðsins fyllstu merkingu ÁFALL. Ég skildi ekki hversvegna þeim fannst þetta ekki gott sælgæti og síðan hefur ekki hvarfað að mér að gefa útlendingum mitt uppáhalds sælgæti. Ekki einu sinni prince polo.
Ég ætla líka að hætta að reyna að láta Fúsa borða edemame baunir.
Hann kann ekki að meta þær og þegar ég ýti þeim ítrekað að honum segir hann á endanum: „Það finnst ekki öllum það sama og þú Dagný Sylvía“. Og uppskeran er fýla og svekkelsi því ég skil alls ekki að öllum finnist edemamebaunir ekki æðislegar eins og mér. Stundum verður mér á að stynja þegar ég borða þær.
Annars er uppskrift af edemamebaunum hér.
Mér þykir líka Ísland fallegasta land í heimi og annað er bara ekki til umræðu í návist minni. Um það erum við Fúsi reyndar sammála. Að Ísland sé fallegast í heimi. Í vinnunni hans Fúsa í vikunni, barst talið að því að ég væri komin heim frá Íslandi. Og í framhaldi af því ákvað Fúsi að sýna einum vinnufélaganum mynd úr myndaalbúminu mínu frá Landmannalaugum. Svona til að státa sig svolítið af fallega landinu okkar.
Hann sýndi þessa mynd.
Daninn segir: „Hva, eru engin tré á Íslandi?“
Fúsi: „Ekki þarna…“
Daninn: „Nåh!?“ (Nåh gæti útlagst á íslensku sem nú??? eða ha??? eða „nú er ég hissa“ með tilheyrandi efasemdatón).
Ekki orð um fegurð landsins. Bara hissa á að það skuli engin tré vera á myndinni.
Fúsi kom heim, frekar fúll yfir skeytingarleysi Danans gagnvart fegurð föðurlands okkar.
Ég benti honum ofurvarlega á að ekki öllum finnist það sama og honum. Og mér.
Það finnst ekki öllum tré jafn æðisleg og Dönum.