Sambýli mitt við Sullustelpu.
Eitt af því sem heillaði mig mikið við tilhugsunina um að vera einungis í afleysingum, var einveran. Að vera ein á milli vakta. Geta lesið, bloggað, snappað, horft á þætti, sett á mig maska og hreyft mig í friði og ró. Án þess að þurfa að tala við neinn. Stjórnað mínum samtölum sjálf með því að svara eða svara ekki í símann. Ég þurfti svo mikið á þessu að halda því ég bý með sí malandi manni. Þið vitið hvernig hann Fúsi minn er.
Núna er ég í Stavanger og það er hér sem the íbúð er. Íbúðin sem vinnan á og allir vilja búa í í vinnuferðunum.
Svona er útsýnið úr henni kl. 06:20.
Ég taldi mig lukkunar pamfíl þegar mér var úthlutað íbúðinni um daginn og hugsaði mér gott til glóðarinnar, ég hlyti að vera heppnari núna en þegar ég var í henni í nóvember í fyrra. Var ég kannski aldrei búin að segja ykkur frá því? Það var nefnilega svoleiðis að ég fór í 5 daga vinnuferð og hreppti íbúðina. Naut mín alveg svakalega vel þangað til ég heyrði mikið brölt frammi á stigapalli og ég get sagt ykkur það, að það er langt úr stofu og eldhúsi og fram á stigapall. Íbúðin er flennistór penthouse íbúð. Inn valt kona með 43kg af farangri. Alveg sótsvört í framan, svo reið var hún útí fyrirtækið sem við vinnum fyrir, fyrir að hafa bara bókað eina ferðatösku með flugmiðanum. Hún hafði því þurft að borga yfirvigt og ætlaði sko að senda reikning á „þessa bjána“. Ástæðan fyrir þessum 43 kílóum var sú að allt er svo dýrt í Noregi. „Það er bara ekki nokkur leið að versla neinn skapaðan hlut í þessu landi“ sagði hún og æddi fram og til baka eins og mannýgt naut í flagi. Ég varð nú bara hálfsmeyk við hana; hárið, dönsku permanentkrullurnar stóðu í allar áttir og það sama gerði munnvatnið út úr henni. Hún var svo reið að hún þeytti matnum inn í ísskápinn sem er stór amerískur ísskápur; 5 pökkum af XXL kjúklingapökkum með steiktum kjúklingi í, 4 pökkum af kæfu, stóru oststykki, 7 rúgbrauðum, 4 gúrkum, 3 pökkum af beikoni, 6 lítrum af mjólk og svona mætti lengi telja. Það var varla hægt að loka ísskápnum þegar hún var búin. Hún var bókuð í 2 vikur í Stavanger og ætlaði sér ekki að eyða einum eyri í norskri verslun. Sambýli mitt við þessa konu var ekkert skemmtilegt og var allan tímann í stíl við innkomuna.
-(Innskot: færslan er að mestu leyti skrifuð þann 2. september en ekki kláruð þá. Núna sit ég að næturlagi þann 5. september og reyni að klára hana. Hvað haldiði að hafi gerst í kvöld? Ég er í vinnunni núna, á tvöfaldri vakt (kvöld og næturvakt) á tveggja manna stofu. Við vagtskipti á milli kvöld og næturvaktar hjá hinum sjúklingnum kemur afleysingamanneskja inn og við heilsumst og kynnum okkur. Og báðar segjum við: „Þig hef ég séð áður“. Síðan byrjum við að telja upp staði þar sem við gætum hafa verið saman; Tönsberg, Bergen, Bærum, Bodö, Kalnes? Nei ekkert af þessu passaði. Kannski bara hérna í Stavanger? Nei, ég var í einangrun síðast þegar ég var hérna, á næturvöktum, heila helgi, og það var kolniðamyrkur. Hitti enga afleysingakollega.
Ég: Bjóstu kannski í íbúðinni? Já.
Hún: „Varstu að skrifa ritgerð?“. Já.
Ég (ofur varlega): „Komstu með svolítið mikinn mat? Já.
Þetta var HÚN. Það var ekki liðinn hálftími af vaktinni þegar ég búin að fá að heyra um veikindi hennar síðastliðna 6 mánuði. Hún er búin að fá sýkingu í olnboga, brjóta tönn, fá gubbupest (sem hún hélt að væri gallsteinakast), lenda í miklu hárlosi og er núna á sýklalyfjum vegna bacteriell vaginose. Við erum að vinna saman í alla nótt. Innskoti lýkur.)-
Ég flaug til Stavanger í lok ágúst og fór beinustu leið á kvöldvakt með allan minn farangur. Þar hitti ég konu sem fagnaði mikið þegar hún heyrði að ég byggi í íbúðinni.
Svona er útsýnið úr íbúðinni kl. 06:50.
Konan bjó þar nefnilega líka og nú skyldum við „hygge“ (njóta). Hygge, hygge, hygge sagði hún og klappaði saman lófunum. „Er det ikke bare dejligt?“ (Er það ekki yndislegt) spurði hún. Ég kinkaði kolli, brosandi fölsku brosi.
Við urðum síðan samferða heim í íbúðina, eða réttara sagt, hún drattaðist á eftir mér og minni blýþungu tösku sem að rann lipurlega við hliðina á mér. Þegar upp var komið sagði hún: „nu skal vi rigtig hygge“. Og ég hugsaði: „díses kræst“. Þarna höfðum við hvorugar verslað inn að ráði en það hindraði hana ekki í að hygga sig. Hún kveikti á sjónvarpinu og það kvein í henni þegar hún sá hver var á skjánum því hann var svo leeekkert. Ég spurði hana hvað leikari þetta væri, en hún mundi ekki nafnið en hann væri einfaldlega einum of leeekkert. En auðvitað vissi ég alveg að þetta væri Vin Diesel. Ekki alveg minn tebolli, en kommon, ég er um fertugt, hún um sextugt. Ég bauð fljótlega góða nótt og fór inn í herbergi. Daginn eftir átti ég að fara aftur á kvöldvakt og það var einhver þreyta í mér svo ég ákvað að sofa út, alveg eins lengi og ég gæti. Ég svaf til hálf tíu. Lá í smá stund og skyndilega heyrði ég eitthvað. Lagði við hlustir og heyrði sagt: „nej, hvor er det bare dejligt (er þetta ekki alveg yndislegt)?“ Þegar ég fór á fætur sat sambýliskonan mín úti á svölum og sólaði sig. Ég heyrði hana endurtaka sömu setninguna sí endurtekið…nej, hvor er det bare dejligt… Ég hugsaði með mér að hún hlyti að þagna.
En mér skjáltlaðist.
Þegar ég kom fram, stóð hún upp og tilkynnti mér hvað það væri yndislegt (dejligt) að ég væri komin á fætur, því við ættum svo margt sameiginlegt, við værum næstum því eins. Síðan flögraði hún inn í íbúðina í næfurþunnum, hvítum siffonkjól með vængjaermum. Hún líktist fiðrildi. Talandi og flögrandi fiðrildi sem kunni bara að segja: „Hvor er det dejligt“. Auk þess var hún með hrosshár niður á rass, eins og lifrakæfa á litinn. Hún setti sí og endurtekið báðar hendurnar inn í hárið, lyfti því upp og lét það falla. Veit ekki afhverju. Áður en ég vissi af, var ég að borða morgunmat með henni. Ég segi það satt, jafn satt og sólin rís upp í austri að hún sagði: „Hvor er det bare dejligt“ 4 sinnum á meðan hún át einn lítinn sjerrítómat. Einn oggulítinn sjerrítómat. Síðan tók hún næsta tómat og hélt uppteknum hætti nema bætti um betur og sullaði úr oggulitla tómatinum yfir sig alla og kallaði sjálfa sig í kjölfarið Sullustelpu. Ég vissi ekki hvert ég ætlaði. Loks fór hún í bað og lá þar dágóða stund og ég gat verið ein með sjálfri mér í þögn. Þegar hún var búin í baðinu, tilkynnti hún mér að við ætluðum að hygge um kvöldið eftir kvöldvaktina og að hún ætlaði að skjótast niður í Kaupfélagið á neðri hæðinni og versla inn fyrir komandi kvöldstund. Sullustelpa kom aftur upp, hafði keypt hin ýmsu ber, snakk og Somersby. SOMERSBY. Heila kippu og hver dós hálfur líter. 3 lítrar í allt. Ég get ekki drukkið Sommersby. Frekar drykki ég upp úr dísætum drullupolli.
Við urðum svo samferða í vinnuna, ef samferða mætti kalla. Ég alltaf 2 metrum á undan Sullustelpu. Hún síkvartandi um að ég gengi svo raskt. Á leiðinni tilkynnti hún mér að við ætluðum á safn saman daginn eftir. Nú? Hvurslags safn? Jú gúmmí-líkamshlutasafn.
Þegar leið á kvöldvaktina, fór að myndast kvíðahnútur í maganum á mér vegna Somersbysins sem beið mín í íbúðinni. En þá birtist bjargvættur minn eins og engill af himni ofan og spurði hvort ég væri til í að lengja kvöldvaktina mína og taka næturvakt líka? „Já takk æðislega“ sagði ég og rauk upp um hálsinn á henni. Kvíðahnúturinn leystist eins og ílla hnýttur skátahnútur og lífið varð fagurt á ný. En þegar Sullustelpa frétti að ég hefði bætt við næturvakt, vildi hún meina að ég hefði svikið sig. Átti hún virkilega að vera ein um Somersbyinn og hvað með safnið? Hún hefði lítið gaman af að skoða líkamshluta úr gúmmíi ein.
Lítið bar til tíðinda daginn eftir, ég svaf fram að kvöldvakt og hún var líka á kvöldvakt. Nej, hvor dejligt…
…eða ekki. Það þýddi það að við vorum báðar heima eftir kvöldvakt og Somersbyinn beið okkar.
Og sú þýðing reyndist rétt. Ég veit ekki hvað gerðist, veit ekki afhverju ég vafðist inn í þessar aðstæður. Ég allt í einu sitjandi í sófanum með Sullustelpu drekkandi Somersby og horfandi á aðra Vin Diesel mynd? Mér leið hörmulega.
Daginn eftir vaknaði ég í fyrra fallinu því ég ætlaði að hitta litlu frænku mína. Og að sjálfsögðu var Sullustelpa komin á fætur, flögrandi um í hvíta siffonkjólnum sínum sem var algerlega gegnsær. Borðandi kirsuber og missandi kirsuber á gólfið, gangandi í þeim og sóðandi allt út, því hún var upptekin af því að vera gyðja og sagði eins og venjulega: „nej, hvor dejligt“ í öðrum hverjum andardrætti. Ég enn einu sinni föst í fáránlegum aðstæðum, gangandi á eftir henni og þrífandi upp eftir hana. Hún hlaut að vera orðin elliær kellinginn. Síðan fór ég og hitti frænku. Kom heim fyrir kvöldvakt og haldiði ekki að Sullustelpa hafi verið komin úr gegnsæja siffonkjólnum og sprangaði um á naríunum einum fata og fannst það mjög dejligt.
Þarna var mér farið að vera þungt fyrir brjósti. Hún þrengdi svoleiðis að mér og þambaði úr mér orkuna. Lét mig vita með feitletruðum hástöfum að í kvöld skyldum við hygge með restina af Somersbyinum, kirsuberjum og góðri bíómynd. Þarna byrjaði ég að anda grynnra, hraðar og blána pínulítið í framan. Við fórum síðan á kvöldvaktina. Þegar ég var aftur spurð hvort ég vildi taka tvöfalda vakt, tók ég því fengins hendi. Frekar að vinna í 18 tíma aftur og gleyma hver ég er og hvaðan ég kem heldur en að drekka Somersby með Sullustelpu.
Afleysingalífið er ekki eintómur dans á rósum. Það á sínar dökku hliðar og þær eru svartari en svartasta helvíti. Um leið og ég loka augunum núna, sé ég Somersby fyrir mér og heyri: „Nej, hvor er det dejligt“. Síðan drukkna ég í Somersby. Það er einn sá versti dauðdagi sem ég get hugsað mér. Ég á aldrei eftir að þora að sofna aftur í þessu lífi.
Þessi færsla var sett á bið vegna þess að ég einfaldlega hafði ekki tíma til að setja hana út vegna aukavaktanna sem ég tók til að flýja heimili mitt í Noregi.