Göngutúrinn með Fúsa og döðlunum í rigningunni.
Ég sagði við Fúsa um miðjan dag í dag: „Nú förum við í göngutúr“.
Hann benti mér á að það væri rigning en ég sagði að þetta væri bara smávægilegur úði. Ég sagði honum að sækja bakpokann niður í bakpokageymsluna og á meðan útbjó ég nesti: kaffi, döðlur með hnetusmjöri og döðlur með jarðarberjasultu. Við héldum síðan norðureftir eyjunni, lögðum bílnum inn í miðjum skógi og gengum af stað; í hellirigningu. Það er langt síðan ég komst að því að ég leysist ekki upp í rigningu en Fúsi er enn í vafa. Því setti hann í brýrnar, hettuna á sig og nennti ómögulega að skoða mismunandi sniglategundir sem flutu þarna um í lækjunum sem myndast höfðu í úrhellinu.
Áfram gengum við og komum niður í fjöru. Þar settist ég á stein, bað Fúsa um að setjast hjá mér og fór að segja honum sögu af draugaferju. Ferja þessi átti að hafa farist vegna ofdrykkju skipstjórans (drakk víst mest tuborg) árið 1913, árið eftir að Titanic fórst. Síðan hefur hún siglt þarna fram og til baka og á slæmum dögum sekkur hún fyrir augunum á fólki. Fúsi sagði mér að hætta þessu bulli en ég gat nú heldur betur sannað sögu mína þegar ferjan birtist okkur eins og Guð og Jesús birtast sumum uppljómaðir í dagsbirtu.
Áfram héldum við för okkar, Fúsi enn þungbrýnni en áður. Við komum að nautgripum á beit og þar var bekkur sem tilvalið var að setjast á og fá sér kaffi og döðlur með hnetusmjöri eða jarðarberjarsultu. Eða mér fannst tilvalið að setjast á bekkinn enda spáði ég lítið í hvort buxurnar mínar væru vatnsheldar eða ej. Það var seinnitíma vandamál þarna sem ég stóð, já eða settist. Fúsi afturmóti var mikið meðvitaðri um að buxurnar hans væru ekki vatnsheldar og taldi að auki að nautin væru mannýg. Hann valdi að standa uppréttur. Ég ljáði honum ekki að telja það enda litu hornin á þeim út fyrir að vera banvæn. Samt voru þau ósköp krúttleg og höfðu mikið gaman af Vaski sem spjallaði heil ósköp við þau.
(Þessi tegund, myndin er fengin af netinu því ég gat ekki sjálf tekið mynd vegna ausandi vatnsveðurs).
Eftir að ég hafði drukkið kaffið og Fúsi hámað í sig döðlurnar með hnetusmjörinu eða jarðarberjasultunni, héldum við af stað aftur. Við komum að lítilli bryggju sem maður gengur út á og stingur sér af. Svona er held ég ekki til á Íslandi en á dönsku heitir þetta badebro. Fúsi vildi ólmur klæða sig úr öllum fötunum og stinga sér í úfinn sjóinn en ég benti honum á að hann yrði aldrei þurr í þessari rigningu. Hann sagði að hann væri hvort eð er orðinn rennandi blautur og arkaði út á bryggjuna. Ég hljóp til hans, tók í handlegginn, snéri upp á hann (þið vitið, aftur fyrir bak og upp) og stýrði honum upp í fjöru aftur. Ofan í sjó skyldi hann ekki fara í þessari ferð. Síðan fórum við heim.