Vörn, verja eða varsla.
Síðasta færsla já, hún var nú meira harmakveinið. Takk kærlega fyrir undirtektirnar, ég segi nú ekki annað.
En ég á eftir að verja lokaritgerðina og þið segið að ég rúlli því upp. En afhverju þessi vörn? Afhverju þarf ég að verja það sem ég skrifaði? Hvaða rugl kerfi er þetta? Ég gerði mitt besta og eftir bestu sannfæringu. Svipað og þegar ég fékk fyrstu hríðina með Aldísi í maganum þann 18. ágúst 1995. Ég hélt að hún væri að koma út og brunaði því beint upp á fæðingardeild. Gunna ljósmóðir sagði að þetta væri bara fyrsta hríðin af mööörgum. Síðan myndi ég fara að rembast -löngu seinna. En ég hélt í alvöru að hún væri að koma í buxurnar mínar þarna sem ég stóð. Ég þurfti ekki að verja þessa tilfinningu mína neitt. Starfsfólk fæðingardeildarinnar á Egilsstöðum bara brosti og sendi mig heim aftur minnir mig. Hún kom í heiminn 12 tímum seinna. Einu sinni fór ég með Aldísi til heimilislæknisins eftir þrálát veikindi og slappleika og hvíslaði óttaslegin að lækninum: „ég er nokkuð viss um að hún sé með eitlakrabbamein…“. Ég var á fyrsta ári í hjúkrun og las bækurnar heldur bókstaflega. En ég fór þó með barnið til læknis. Því þetta var mín upplifun. Ég þurfti ekkert að verja það neitt frekar. Ekki frekar en þegar einhver heldur að hann sé komin með lungakrabbamein eða geðsjúkdóm sem ekki hefur reynsluna af þeim sjúkdómum og þekkir því ekki einkennin en grunar samt sitt út frá lestri og sínum eigin tilfinningum. En síðan kemur það kannski í ljós að viðkomandi var bara með kvef eða svefnlaus.
Nú er ég komin út fyrir efnið. Aftur að sjálfri vörninni.
Takk fyrir trú ykkar á mér, takk fyrir allt. Mögulega rúlla ég vörninni upp, mögulega ekki. Annars er þetta ekki í fyrsta skipti sem ég ver. Ég hef líklega ekki verið að flíka því hér inni áður, enda er ég hógvær fram úr hófi. En málið er að ég á markmannsferil að baki. Það var sumarið 93 eða 4. Við stelpurnar innan S.E. (Samyrkjafélag Eiðaþinghár) ákváðum að safna í knattspyrnulið og sigra heiminn. Við réðum Benna H. þránd í þjálfarastarfið og ég var sjálfskipuð í markið því ég var minnst hræddust við boltann að mig minnir. Enda alls ekki hrædd við boltann og því bara nokkuð góð í markinu. Ég var samt ekki mikið fyrir að skutla mér, fannst það óþægilegt og finnst það enn þann dag í dag, en það var svo sem heldur engin þörf á að skutla sér.
Fyrir fyrstu æfinguna fór ég í Skóga á Egilsstöðum og fjárfesti í markmannshönskum. Mig minnir að spenningurinn hafi verið það mikill að ég keyrði í hönskunum út í Eiða þar sem æfingaraðstæðan var. Ég þurfti líka að hita upp hanskana.
Ég man ekki alveg leikmannskipunina á vellinum og vona að ég hafi engri gleymt en gæti trúað að Hrönn, Kristín Dröfn, Drífa Magg og Ragna Valdís hafi spilað sókn, Íris, Berglind Erla, Krista, Eyrún og Anna Sigrún, Sibba og Svandís mögulega á miðjunni og engin í vörn og svo þar fram eftir götunum. Eða öfugt. Markmið þessarrar fótboltaiðkunnar var fyrst og fremst að hafa gaman, að fá hreyfingu og kannski komast í einhverja deild og sigra Fram í Hjaltastaðaþinghá.
Hreyfinguna fengum við, því þar sem boltinn var, vorum við. Og bannsettur boltinn var útum víðan völl. Og skemmtilegt var þetta, ég var alveg æst í að komast á æfingar sko. Einu sinni var ég það æst að ég dúndraði agnarsmáu Toyotunni minni aftan á gríðarstóra Chevrolet Blazerinn hans Björgvins Sveinbjörns í Lágafellinu þegar ég var að bakka útúr stæðinu okkar. Vesalings Toyotan, hún fór í köku að aftan, en það sást ekki á Blazernum. Toyotan var Starlet 80′ sem pabbi hafði gefið mér þegar ég fékk bílpróf. Ég var alsæl og átti eftir að elska þennan bíl sem komst allt sem ég þurfti að komast. Mest þó á milli Egilsstaða og Akureyrar í allskonar veðrum. Jú og yfir Nesið, með bensíngjöfina frosna fasta. Það var þegar ég var í Menntaskólanum á Egilsstöðum og vaknaði alltaf of seint og hafði ekki tíma til að afþýða bensíngjöfina. Hún var orðin afþýdd og fín þegar ég kom að íþróttahúsinu. En nú er ég komin út fyrir efnið. Aftur að knattspyrnuæfingunum. Ég lét þetta tjón á Starlettinum ekki hafa áhrif á mig og mætti galvösk á hverja æfinguna á fætur annarri. Þegar þessar æfingar fóru að rifjast upp hjá fyrrverandi leikmönnum nú á dögunum, kom í ljós að ég átti víst stórleik þarna. Benni H. þrándur hafði nefnilega kennt mér að taka bananaskot sem hann hafði lært af Jóa E. þrándi, bróður sínum.
(Bananaskotið fræga)
Einnig rifjaðist það upp að ég hafði bara mætt tvisvar. En fólki getur nú misminnt. Það þrumar engin boltanum í netið með bananaskotstækni eftir 2 æfingar. Enginn.
Heimildir:
- Sesselja Ásta Eysteinsdóttir frá Tjarnarlandi
- Íris Magnúsdóttir frá Breiðavaði með aðstoð Drífu sem man víst allt.
- Ragnhildur Aðalsteinsdóttir frá Vaðbrekku
Ljósmyndari:
- Myndavélin mín korteri fyrir næturvakt á föstudagskvöldið.
Knattspyrnubúningur:
- Toppur: MAI SVANHVIT -ENDLESS
- Buxur: Gamlar Envi gallabuxur
- Skór: Sandalar með tökkum frá Manchester Utd.
- Bolti: David Beckham
Knattspyrnulið:
- Vaskur Pedersen Jónsson einspilari
- Dagný Sylvía Sævarsdóttir markmaður
Fleiri myndir…
EINSPILARINN…
FÆRÐU ÞIG VASKUR!