Hvað er það versta sem getur gerst?
Þessi færsla er á alvörugefnu nótunum. Biturleika og pirrings gagnvart sjálfri mér gæti orðið vart í henni. Ég ætla nefnilega að taka það stóra skref og segja ykkur frá mínum helsta veikleika sem hefur verið að koma niður á mér undanfarið. Mér er meinílla við deilur, erjur og ósætti. Svo ílla við það að ég læt ansi margt yfir mig ganga. Segi bara já. Og það er veikleiki. Á móti kemur er einn minn helsti styrkleiki, stöðugleiki. Ég haggast varla. Nema þegar ég sá drauginn í kaupfélaginu í vetur (hér) og hræðilega daginn í september 2012 þegar ég var viss um að ég væri orðin þunglynd. En það bráði sem betur fer af mér daginn eftir. Ég er rosalega góð í að hugsa rökrétt í aðstæðum sem eru óþægilegar. Gott dæmi er þegar ég er orðin of sein í flug eða er að skipta um flug og er mjög tæp á tíma. Ég þvinga mig til að hugsa að ég geti ekki hlaupið hraðar, né keyrt hraðar. Ég get ekki breitt aðstæðum, ég er að gera mitt besta. Ég hugsa líka alltaf um hvað væri það versta sem gæti gerst. Jú, að ég myndi missa af fluginu. Myndi ég deyja? Nei. Þá er það ekki svo slæmt. Ég er heldur ekki hrædd við neitt svona dagsdaglega og er frekar skilningslaus gagnvart hræðslum og fóbíum annarra. Ég leyfi mér hreinlega ekki að láta lítinn geitung eða skógarmýtil koma mér úr andlegu jafnvægi. Né nál, blóð og hægðir. Ég nefni hægðir því það er nýjasta dæmið sem mögulega hefði getað raskað andlegu jafnvægi mínu, en ég byrjaði vaktina á Gjörinu í gær með því að fá linar utanaðkomandi hægðir yfir báðar buxnaskálmarnar mínar og skóna. Ég var búin að vera í vinnunni í 9 mínutur. Ég get svo svarið það. En tilhugsunin um að ég gæti bara skipt um buxur og baðað mig upp úr sjúkrahússpritti róaði mig. Ég var pollróleg, stöðug eins og Herðubreið sem hefur ekki haggast í yfir 10.000 ár.
Ég held líka að ég geti allt og að allt reddist. Einhvernveginn. Það hefur gert það hingað til.
Tökum aftur gott dæmi. Vinna og skólaganga. Vorið 2012 skilaði ég lokaritgerðinni í sérnámi í gjörgæsluhjúkrun. Ritgerð á stærð við bachelor í hjúkrunarfræði og í fullri vinnu með. 100% vinnu. Það gekk bara fínt. Þetta var mjög góð ritgerð. Haustið 2014 bauðst mér að taka diplómu í heilbrigðisgeirasamskiptum og klínískri kennslu. Deildinni vantaði starfsmann með þessa menntun, ég sagði já. Þetta nám inniheldur 60 ECTS einingar og er tekið á einu ári í fullum skóla. Með vinnu er þetta oftast tekið á 3 til 6 árum. Ég hélt að sjálfsögðu minni fullu 100% vinnu, ég er enginn auli. Ég fékk að vita að ég fengi 5 frídaga með hverri ritgerð í stærra laginu sem voru 5 talsins með lokaritgerðinni. Engir frídagar til að gera litlu ritgerðina sem þó var rannsóknarritgerð. Það hlaut að reddast. Ég byrjaði strax um haustið, rosa spennt, rosa gaman. Endaði þó á að skila frá Íslandi þar sem pabbi féll frá í miðri ritgerð. Stóð mig samt hrikalega vel því ég get allt sem ég vil.
Ég get líka unnið aukavinnu í Noregi, verið virk í félagslífinu, farið í langa göngutúra með Vask og horft á fréttirnar. Svona samhliða ritgerðarskrifum, eða réttara sagt, þegar ég á að vera skrifa ritgerð.
Ef ég get ekki eitthvað, er það vegna þess að ég vil það ekki.
Næstu 3 ritgerðir gengu fínt. Þrátt fyrir að jólaundirbúningur færi fyrir ofan garð og neðan hjá mér og arfinn fengi að vaxa frjáls í garðinum mínum á vorinn. Ár eftir ár.
Svona hefur barinn litið út meira og minna síðan vorið 2012.
Þó voru ein ritgerðarskrif sem skáru sig úr, en það var önnin fyrir ári síðan. Skólinn bauð ekki upp á önnina samhliða vinnu, svo ég „varð“ að vera heima í 2 mánuði vegna þessa og bara að sinna náminu. Mér leið eins og ég væri í paradís, himnaríki eða í fallegu ævintýri. Allar hinar annirnar hef ég geta valið hvort ég væri bara í skóla eða skóla og vinnu. Eða nei, ég hafði ekkert val. Til þess að allt gangi upp á Gjörinu þurfti ég að vinna 100% með. Ég fékk samt þessa 5 frídaga í hvert skipti. Í haust fann ég þó að mælirinn var að fyllast. Í færslu síðan þá, skrifa ég: „16. desember skilaði ég ritgerð fyrir 5. hluta klíníska kennaranámsins. Að klára þá ritgerð var fyrir mig mikið afrek. Allur áhugi og öll löngun til að skrifa ritgerð var flogin á brott og sat ég með þyngsli í kviðarholinu og barðist hatrömmum bardaga við að komast í gegnum þetta“. Ég sendi ekki jólakort og skilaði með herkjum. Fékk samt 10 (European transfer scale). Vegna þess að það liggur fyrir mér að skrifa ritgerðir. Þótt það liggi ekki fyrir mér að draga 2 frá 5 og fá 3. En einhvernveginn var gleðin yfir þessari 10 afskaplega lítil. Þegar kom að því að skrá mig á lokaritgerðarönnina, spurði ég varlega hvort það væru virkilega bara 5 frídagar til að skrifa þá ritgerð, sem er rannsóknarverkefni af sömu stærðargráðu og bachelor í hjúkrunarfræði? Svarið var já. Ég mætti hinsvegar ráða alveg sjálf hvenær ég tæki þá. Ég skráði mig og hugsaði: „þetta reddast… ég get allt“.
Þarna er vinnuborðið/borðstofuborðið bara frekar snyrtilegt. Ég skrifa alltaf þarna, því þá er ég nálægt ísskápnum og kaffivélinni.
Síðast í janúar hófst önnin. Ég tók ákvörðun um að byrja ekki að skrifa fyrr en eftir vetrarfrí og afmælið hans Fúsa. Þetta fór ágætlega af stað en það leið ekki á löngu þar til ég hafði fengið nóg. Eins og hægt er að lesa í þessari færslu sem er skrifuð 14. mars. Ég skrifa m.a. þar: „Ég ætla aldrei aldrei aldrei aftur í skóla. Aldrei“. Það sama gildir í dag.
Ég skilaði ritgerðinni síðastliðið sunnudagskvöld og hafði þá nýtt mér þessa 3 frídaga. Ég á þess vegna 2 eftir því að ég á eftir að verja ritgerðina munnlega í júní; hálfnað verk þá hafið er. Í þrjá mánuði hef ég haft þessa (mig langar rosalega til að skrifa helvítis ritgerð en vil það ekki, því ég vil ekki hljóma of neikvæð), ritgerð hangandi eins og þrumuský yfir mér. Alveg sama hvað ég geri; hvort sem það er að þiggja sunnudagskaffiboð, horfa á sjónvarpið, skreppa til Flensburgar, þá ætti ég að vera að skrifa. Það er enginn sveiganleiki inni í myndinni. Maður skilar 15. maí.
Setningar eins og: „Æ Fúsi, plís, ég er tæp á geði“, heyrast æ oftar nú orðið. Ef ég færi til læknis, gæti ég eflaust kríað út einhverja góða tímabundna greiningu um óstöðugleika á geði. Ég er að missa hárið og gómurinn er flakandi sár. Annað hvort vegna þess að líkaminn bregst þannig við eða vegna þess að ég sturta sjóðheitu kaffinu upp í mig trekk í trekk án þess að hugsa mig um. Eflaust hugsið þið með ykkur að nú hljóti ég að vera orðin grátandi taugahrúga út í einu horninu hérna heima fyrst ég barma mér svona óskaplega. Nei, svo slæmt er það ekki, það er eins og ég sagði, fátt sem haggar mér, þannig séð, en andskotann sem ég hef lært af þessu. T.d. hvað hefði verið það versta sem hefði gerst ef ég hefði sagt nei? „nei, ég get þetta ekki, 5 frídagar eru ekki nóg til þess að skrifa heila ritgerð með tilheyrandi rannsókn, ég þarf minnst 15, eða 20!“ Andskotann sem ég naga mig í handarbakið og næstum því í gegn yfir því að hafa samþykkt 5 frídaga. Aldrei, aldrei aftur. Ég lofa því hér með.
[…] Hvað er það versta sem getur gerst? […]