Færeyjar, Færeyingur, Jesús og marengs.
Ég vinn með einum kvenkyns Færeying. Hún er ferlega fín. Þótt við séum ólíkar og alls engar vinkonur þannig séð, erum við samt góðar samstarfskonur. Stundum tölum við saman eins og landar og upplifum svipaða hluti sem útlendingar fjarri heimalandinu. Hún er búin að búa í Danmörku í 100 ár, ég er búin að búa hérna í 50. Þannig líður mér. Þegar ég hugsa til baka til Íslands áður en við fluttum, þá hugsa ég til gamla daga. Við vorum enn að sækja myndir úr framköllun til Jobba og notuðum internetmódem. Þá man ég ekki eftir að hafa þekkt neinn Færeying. Núna þekki ég samstarfskonu mína og tvær frá Snapchat.
Útlendingar virðast oft sækja í aðra útlendinga nema samlandahópurinn sé stór og af nógum vinum sé að taka þar. Þá heldur hópurinn saman. Við útlendingarnir skiljum hvert annað og getum býsnast saman yfir því hversu erfitt sé að læra dönskuna. Þetta kartöflutungumál. Útlendingarnir para sig líka mikið, t.d.:
- Grikki með Suður-Ameríkana
- Suður-Ameríkani með Íslendingi
- Íslendingur með Þjóðverja
- Þjóðverji með Pólverja
- Króati með Finna
- Finni með Íslendingi
- Svíi með Singapora
Þetta er allt fólk hérna í nágrenninu. Meira að segja dóttir okkar átti tveggja mánaða sambandsafmæli núna fyrir þremur dögum síðan… Íslendingur-Frakki eða réttara sagt; Parisiens (borið fram: Barisja en ég er nokkuð lúnkin við að bera fram frönskuna þegar sá gállinn er á mér).
Ég hef komið þrisvar sinnum til Parísar en bara einu sinni til Færeyja og það var árið 1990. Við fórum í skólaferðalag með Norrænu og vorum svo heppin að með í ferjunni voru einu ári eldri Reyðfirðingar sem gátu keypt áfengi fyrir okkur í litlu fríhöfninni. Bláan Smirnoff 50%. Norræna var himnaríki. Og Helga heitin á Hreimstöðum Jesúsinn okkar. Hún passaði okkur jafn vel og Jesús passaði lömbin á meðan hann var fjárhirðir í úthverfum Jerúsalems. Áður en hann sló í gegn og breytti vatninu í vín og brauðinu í fiska, eða var það fiskum í brauð? Reyndar þurfti ég aðeins að spyrjast fyrir um ferðir Jesú þegar ég fór að flækja Jesú inn í þessa færslu, því það eina sem ég var viss um, var að hann fæddist í Betlehem og það er afþví að ég kann Betlehemslagið… í Betlehem er barn oss fætt… baaarn oooss fææætt. Eða ég kann þessa laglínu. Og svo mundi ég bara alls ekkert hvert hann fór og þurfti að spyrja vinkonu mína sem fæddist með minni á við risavaxinn afríkanskan fíl.
Færeyjaferðin var frábær, ég man eftirfarandi atriði:
- Ferðina til Gjógv
- Þegar það skeit fugl á öxlina á mér og ég skrækti eins og smástelpa og sagði frá þessu atriði í 3 ár á eftir, eða þar til ég fékk ökuskírteini en það var loksins eitthvað sem toppaði fuglsdritið á öxlinni á mér.
- Brot frá Farfuglaheimilinu í Þórshöfn
Meira man ég ekki, ekki vegna þess að ég var marineruð í bláum Smirnoff, síður en svo, það var bara þegar við stímuðum út úr Seyðisfirðinum og yfir til Færeyja, heldur er ég bara svo gleymin. Ferðin var samt frábær.
Færeyska samstarfskona mín segir að Færeyjar séu æði, ég trúi henni og dauðlangar þangað aftur. Hún er frá Klaksvík sem er á Borðey. Hún er kona sem kann allt. Hún saumar samkvæmiskjóla og setur niður útsæði ásamt því að vera sérlegur bakari á starfsmannafundunum okkar á Gjörinu.
Í gegnum árin hefur hún oft komið með Færeyska eplaköku. Ég lét verða af því að baka hana í fyrsta skiptið á ævinni núna í vikunni þar sem ég hafði boðist til að koma með marengs við ákveðið tilefni síðastliðinn föstudaginn.
Við vorum tvær sem ætluðum að koma með marengs, ég með hvítan og vinkona mín með brúnan. Við fengum þá snilldarhugmynd, þar sem sykurneysla samfélagsins er komin úr öllu hófi, að skipta púðursykrinum í brúna marengsinum út fyrir rúgmjöl. Marengs vinkonunnar varð stórfínn, líka þótt hún hafi ekki nennt að bíða eftir að karamellan þykknaði og hellti henni því bara nánast glærri fyrir rúgmjölsmarengsinn. En það tók enginn eftir því þar sem karamellan var glær og sást ekki.
En ég ákvað að halda mig við sykurinn, það hefði orðið ósanngjarnt að bera fram tvær rúgmjölsmarengs á sama deginum.
En hér kemur uppskriftin af Færeysku eplakökunni.
Botnar:
4 eggjahvítur úr lífrænum eggjum
175 gr sykur
175 gr. hakkaðar möndlur
1 msk. kartöflumjöl (ekki spyrja mig afhverju… hef ekki hugmynd um það).
Þetta er þeytt á hefðbundinn hátt. Þið kunnið þetta væntanlega. Ef ekki, googlið.
Bakist við 160 gráðu hita í 30-40 mín.
Eplafylling:
1/4 l lífrænn rjómi
2 ½ dl. lífrænn sýrður rjómi
4 lífræn epli (mér þykja græn best í þessa köku)
Það þarf að þeyta rjómann, skera eplin og síðan blanda þessu þrennu saman í Tupperwareskál.
Síður en svo flókið.
Karamella:
4-5 msk ljóst síróp
80-100 gr. flórsykur
1 ½ msk. vanillusykur
1/4 l rjómi.
Bara skella öllu saman í Iitala-pott, kveikja undir og láta sjóða 20-40 mínútur eða þangað til karamellan er orðin þykk. Það stendur í uppskriftinni. En það passar ekki… ég held að ég hafi soðið þetta í einn og hálfan tíma. Kannski af því að uppskriftin var tvöföld, hvað veit ég.
Reyndar varð karamellan svolítið seig og þegar kakan var skorin og það átti að taka sér sneið, þá fylgdi einhvernveginn öll kakan með. Kannski sauð ég karamelluna allt of lengi?
Allavega; botn, eplafylling, botn, karamella. Mjög einfalt.
Minnsta mál í heimi þótt maður sé ekki menntaður bakari.