Hvers vegna Alrún?
Þegar við Fúsi byrjuðum saman í febrúar árið 1993 (okkur minnir að það hafi verið 26., 27. eða 28.), leigði hann litla íbúð sem áður hafði verið gamalt úraverkstæði. Hann átti trégrindarsófasett með lausum pullum í, sem aldrei voru til friðs. Hann átti líka fornaldarísskáp sem hafði verið spreyjaður kolsvartur. Við lágum í sófanum og hann lét mig horfa á menningarlegar VHS myndir á borð við Clockwork Orange og hlusta á Enya, alla diskana aftur og aftur. Ég lét hann hætta að reykja uppi í rúmi og elda eitthvað annað en bjúgu.
Við hliðina á íbúðinni sem við bjuggum í, er kúluhús og fyrir ofan það stendur hús tengdaforeldra minna. Við Fúsi höfðum ekki verið saman í margar vikur þegar ég ráfaði inn í bókaherbergi tengdaforeldra minna og komst þar í feitan feng. Ísfólkið – 47 bækur blöstu við mér og ég sökk djúpt á augabragði. Það var ekki nokkur leið að slíta mig lausa frá þeim Þengli, Silju, Shiru og Heiki. Þessa vorönn var ég í menntaskólanum á Egilsstöðum og var metnaðurinn ekki upp á marga fiska. Það var var svo margt annað sem var skemmtilegra að gera. T.d. að lesa Ísfólkið. Ég stúderaði stundatöfluna og þar sem ég reiknaði með að við ættum að lesa eða fylgjast með í bókinni, tók ég alltaf eina Ísfólksbók með, en Ísfólksbækurnar eru fyrirferðarlitlar kiljur og afar meðfærilegar. Við áttum oft að lesa í dönskutímunum og enn betra var, að dönskukennarinn var indæll. Þangað til hún rak mig út úr tíma. Tvisvar (segir vinkona mín). Og ekki fyrir stærra brot en að lesa Ísfólkið. Ég hef áður minnst á þennan útúrtímarekstur hérna. Sigrún Blöndal var samt mjög fínn dönskukennari í minningunni og á ég henni sennilega margt að þakka hversu talandi ég er orðin í dönskunni eftir 16 ára búsetu í Danmörku. Og Tóta Borgars líka. Hvort sem þíð trúið því eður ej, þá var hann fyrsti dönskukennarinn minn. Hann virtist kunna dönsku þá, en ég stórefast í dag. Reyndar man ég lítið eftir honum sem kennara nema ég man eftir fótunum á honum, að neðanverðu. Þeir voru ægilega stórir enda hann fullorðinn og við bara börn. Tóti var nefnilega alltaf með fæturnar uppi á borði, allan tímann og hann íklæddist hvítum íþróttasokkum með tveimur röndum. Þeir voru ekki alltaf hreinir. Et par hvide snavsede sokker, nej… strømper. Sokker og strømper eru nefnilega ekki það sama á dönsku. Strømper eru sokkar en sokker eru huggulegri sokkar. Honum á ég sennilega líka eitthvað að þakka að ég geti snúið mér við á dönsku hér í Danmörku. Nema þessu sé öfugt farið, að það sé Sigrúnu og Tóta að kenna að ég eigi aldrei eftir að ná þessu hrognamáli 100%. Að ég eigi alltaf eftir að flækja tunguna um sjálfa sig og segja þrjú err í staðinn fyrir eitt að mati Dananna.
En já, eftir þessa önn og þessa dönskutíma þar sem ég lærði mikið um Ísfólkið, fór ég í sumarfrí og átti afmæli. Það hafði ekki farið framhjá Fúsa hversu hrifin ég var af bókunum og ákvað hann því að koma mér verulega á óvart í sambandi við afmælisgjöf. Hann pantaði hana símleiðis en ég vissi að sjálfsögðu ekki hvað það var sem hann pantaði. Gjöfin kom ekki 2. ágúst en þá varð ég 18 ára. Ekki heldur tveimur vikum seinna og ekki heldur í september. Ég gerði mitt allra besta til að haga mér fullorðinslega og fá ekki kast vegna þess að kærastinn klikkaði svona svakalega á fyrstu afmælisgjöfinni. En ég var ekki fullorðin, ég var unglingur. Ég fékk reglulega væg köst vegna þessa. Hvernig gat hann klikkað á fyrstu afmælisgjöfinni? Loksins í oktober kom gjöfin. Hann hafði pantað hana símleiðis frá Noregi. Þetta var sjálf Alrúnin úr Ísfólkinu, sjálft gálgablómið, sjálf galdrarótin. Þið getið rétt ímyndað ykkur hversu glöð ég varð.
Við Fúsi keyptum okkur tölvu rétt fyrir aldamótin síðustu og ákváðum að stofna fjölskyldutölvupóstfang. Við veltum mikið fyrir okkur hvernig í ósköpunum við ættum að skeyta nöfnunum okkar saman; Sigfús og Dagný, Fúsi og Dagný? Fusny – Dagfus, ekkert gekk. Við bjuggum í Hléskógum en ætluðum ekki að búa þar alla okkar ævi svo ekki var hægt að nota það. Nú voru góð ráð dýr -þangað til okkur varð litið á dætur okkar sem sátu eins og englar á gólfinu og léku sér með leggi af heimaslátruðu frá kvöldmatnum deginum áður. Aldís Anna og Ásrún Svala. Bingó. Fyrsta tölvupóstfangið okkar varð alrun@visir.is. Árið 2001 fluttum við til Danmerkur og að mig minnir, keyptum við alrun.com árið 2003. Það var ekki töff að vera með annarra manna endingu á tölvupóstfanginu eins og vísi.is. Ég stefndi líka á að breyta fréttabréfunum til fjölskyldunnar í blogg og fannst ekki töff að vera með almenningssvæði. Ég vildi mitt eigið og fékk það.
Þannig varð nafnið Alrún til, svona af því að þið spyrjið svo reglulega.
Kær kveðja
Dagný Sylvía Sævarsdóttir.
Ó en fallegt! <3
Takk kærlega Heba.