Margumbeðin uppskrift að Edemame baununum með salti og sítrónu.

Hæ!

Vegna fjölda áskoranna hef ég ákveðið að gera matarblogg þrátt fyrir afar afleitar tilraunir til þesskonar bloggs áður.

Það eru vinir mínir á snapchat sem hafa þrábeðið mig um uppskrift í hvert sinn sem ég gorta yfir hollum hversdagsleikanum á okkar heimili ásamt einstökum kokkahæfileikum húsfreyjunnar (sem er ég).

Og eftir nánari umhugsun held ég að það sé bara vel við hæfi að setja inn hollustu uppskrift þar sem þjóðin mín var kosin feitasta þjóð Norðurlandanna nú á dögunum.

Þessi uppskrift er bæði forréttur, snarl og meðlæti. Hræódýr og afar einföld. Nú kemur hún:

Edemame baunir með salti og sítrónu (minnir helling á Tequila með salti og sítrónu og það er það góða við þessa uppskrift).

Uppskriftin verður bæði í skriflegu máli og myndmáli. Fyrir alla sem eru læsir og alla sem eru ólæsir.

Byrjið á að sækja pokann í frystinn því það er þar sem á að geyma hann. Baunirnar eiga ekki að þiðna.

IMG_7190

Edemame baunir fást í öllum betri matvöruverslunum í Danmörku. Ég geri ráð fyrir að það sama gildi á Íslandi.

Takið sítrónu og það er mjög mikilvægt að notast eingöngu við lífrænt ræktaðar sítrónur. Ég meina það, annars deyið þið! Kannski ýkt, en svona í alvöru talað þá mæli ég sterklega með að þið notið lífrænt ræktaða sítrónu því við erum að fara að borða börkinn.

IMG_7202

Þessi efri er mygluð og því nota ég þá neðri.

IMG_7228

Ég finn Tupperware-skálina mína og tilheyrandi rifjárn og byrja að rífa börkinn af sítrónunni. Ástæðan fyrir að þessi aðgerð er svona snemma í ferlinu er sú að auðvitað á ég induction helluborð. Allt á því helluborði gerist á hraða ljóssins. Og að sjálfsögðu nota ég efri sítrónuna, ég sker bara myglublettinn í burtu. Ég bruðla ekki.

Nú er komið að næsta skrefi en það er að sækja pottinn. Ég mæli eindregið með iittalapotti. Edemame baunir bragðast bara betur í honum heldur en í hinum.

IMG_7183

Látið vatn renna í pottinn (ég hef á tilfinningunni að ég þurfi að segja ykkur allt).

IMG_7192

Síðan er potturinn látinn á helluna og kveikt undir. Á meðan suðan er að koma upp er hægt að nýta tímann til að klippa gat á baunapokann.

IMG_7200

Þegar suðan er komin upp, er baununum hellt ofan í pottinn.

IMG_7214

Og látnar sjóða í eina mínútu og ekki mínútu lengur.

IMG_7210

Því næst er þeim hellt í Tupperware-sigti með eilífðarábyrgð. Myndin er langt frá því að vera í fókus en það er engu að síður greinilegt hvað fer fram á myndinni.

IMG_7221

Sigtið er hreyft upp og niður og út og suður til að sem mest vatn fari af baununum.

IMG_7229

Sítrónuberkinum og maldonsalti úr Holmegaard skál er stráð yfir í hæfilegu magni. Það þarf reyndar ekkert að vera maldonsalt, það er bara mikilvægt að það sé gróft salt. Enda er þetta matur en ekki kaka. Við þekkjum þumalputtaregluna; gróft salt í mat, fínt í bakstur.

IMG_7235

Sítrónusafinn úr mygluðu sítrónunni er síðan kreystur yfir og það er algjör óþarfi að spara hann.

IMG_7247

Þetta er borið fram á rándýrri Skiferplötu frá Cado (ég veit að það hljómar eins og lygasaga en hún fæst í Netto og kostar 40 krónur) og gott er að hafa rusladall á kantinum frá Bitz.

Aðferðin við að borða þetta er eftirfarandi:

IMG_7257

Haldið er í sitthvorn endann, þessu stungið inn á milli varanna og baununum þrýst út og inn í munn. Við það að leggja þetta á milli varanna, fæst salt og sítrónubragðið sem er eitt það stórkostlegasta á dimmum janúarkvöldum.

Annar möguleiki er að borða þetta svona:

IMG_7277

IMG_7268

IMG_7287

Inní belgjnum eru sem sagt tvær til þrjár baunir sem eru borðaðar. Belgurinn er óætur eins og sjá má á stofugólfinu okkar.

Einnig hef ég gert Edemame baunir með chili, engifer og hvítlauk, það er alveg jafngott en aðeins tímafrekara. Getið googlað það sjálf.

Verði ykkur að góðu.

(Snapchat: alrun)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *