Var það eitthvað fleira? Sem er mér að kenna?

Það var aðeins eitt sem mér láðist að nefna í síðustu færslu (hér). Færslunni um alla kvillana sem ég hef valdið Fúsa á síðustu 10 árum. Mér láðist að nefna að mér hefur verið kennt um að gera út úr hundinum líka. Einn góðan veðurdag fyrir ekki svo löngu ákvað ég að fara út að hlaupa. Til að hreyfa mig nú ekki of mikið, sló ég tvær flugur í einu höggi og tók Vask með mér út í skóg og slapp því við göngutúrinn. Við skokkuðum þarna í u.þ.b. 90 mínútur. Daginn eftir kveinkaði Vaskur sér þegar hann stóð upp og daginn þar á eftir líka. Eitthvað leyst mér ekki á blikuna og fór strax að gruna lélegar mjaðmir en við höfðum aldrei látið meta mjaðmirnar á honum.

Við hjónin ræddum þetta fram og til baka og niðurstaðan varð sú að Vaskur færi í röntgen myndatöku á mjöðmum til að komast að því hvort um mjaðmalosunarkvilla væri að ræða.

Svona myndataka krefst svæfingar og fékk ég að taka þátt í öllu ferlinu, nema þegar sjálfri myndinni var skotið af, ég vildi frekar bíða frammi heldur en að fara í búning. Ég beið sem sagt beint fyrir utan dyrnar og heyrði á tal dýralæknisins og dýrahjúkrunarfræðingsins.

Dýrahjúkkan: „hvað gerðist?“

Dýralæknirinn: „hún var úti að hlaupa með hann…“

Dýrahjúkkan: „eitthvað langt?“

Dýralæknirinn: „já greinilega, hún hefur ofgert honum“.

Ég var síðan kölluð inn og í sameiningu skoðuðum við myndirnar af mjöðmum hundsins. Dýralæknirinn sagði að það væri ekkert los heldur hafi ég líklega ofgert hundinum.

Ég stóð þarna gapandi og braut heilann stíft um hvar í hlaupatúrnum ég hafi ofgert elsku Vaski mínum. Fór hratt yfir þessar 90 mínútur í huganum, skref fyrir skref og fann ekkert. Sagði svo dýralækninum að það gæti bara ekki verið.

Hún spurði hversu langt við hefðum hlaupið? 10km? 15? 20? Og horfði hörkulega á mig um leið.

Ég gapti enn meira og spurði á móti hvort hún héldi að ég hefði ekkert annað að gera en að hlaupa. Ef mér hefði dottið í hug að fara 20km væri ég enn hlaupandi, 5 dögum seinna! Nei, ég tilkynnti henni stollt að ég hefði einungis farið í allra mesta lagi 3,5km. Hún horfði tortryggnislega á mig. Ég sagðist sverja það og bætti við að mér dytti seint í hug að fara meira en 5km því ekki ætlaði ég að fara í hnéaðgerð fyrir aldur fram. Þá loksins kinkaði hún kolli og sagði að það hljómaði skynsamlega.

Eftir að búið var að staðfesta að mjaðmirnar á Vaski væru vel fastar, fórum við að skoða lærin nánar. Það var þá sem dýralækninum rak í rogastans. Önnur eins læri hafði hún ekki séð á sinni annars löngu ævi. Hún zoomaði inn og út og átti bara ekki til aukatekið orð. Hún spurði: „er þetta þitt verk?“ Ég svaraði að svo væri… ég væri með hann í reglulegri sundþjálfun og torfærugöngum. Síðan hefði ég aðeins verið að fikta við að kenna honum hnébeygjur og englahopp með góðum árangri. Hún kinkaði enn meira kolli og viðurkenningin gagnvart mér skein úr augunum.

2017-01-12 09.51.32

Hér má sjá lærin sem engum lærum eru lík norðan Alpafjalla og sunnan líka. 

Þið getið rétt ímyndað ykkar hversu þungu fargi var af mér létt við allt þetta hrós sem lærin á Vaski veittu mér. Mér veitti ekki af því. Í færslunni um Fúsa um daginn sagði ég ykkur nefnilega bara hálfa söguna. Það er ekki nóg með að mér sé kennt um kvilla hans, heldur kennir hann mér um að hafa eyðilagt ALLAR borðplötur á heimilinu. ALLAR síðan árið 2004.

Sú fyrsta, árið 2004 var hvítt eldhúsborð sem við höfðum keypt frekar billegt einhversstaðar. Stuttu eftir þá fjárfestingu, ákvað ég að lita á mér hárið sjálf. Ég litaði það dökkbrúnt og notaði nýja borðið sem „vinnuborð“ það kvöldið. Svo óheppilega vildi til að ég rakst með hendurnar á borðplötuna.

Næsta plata var baðherbergisinnréttingin, ég var að taka naglalakk af nöglunum og naglalakkseyðirinn valt á hliðina. Þetta gerðist reyndar tvisvar, bæði árið 2008 og árið 2013. Þetta var slys.

Eldhúsinnréttingin. Biðjið fyrir ykkur! „DAGNÝ SYLVÍA SÆVARSDÓTTIR! VILTU GJÖRA SVO VEL AÐ NOTA BRETTI!“ Ég get svo svarið það, ég fæ íllt í eyrun þegar hann byrjar. Þetta er tré, hann hlýtur að geta rennt sandpappír yfir plötuna ef þörf krefur? Skil ekki alveg æsinginn.

Að lokum og nú erum við bara að stikla á stóru (stóru borðplötunum), er nýjasta borðið. Sjálft borðstofuborðið. Það er heimatilbúið og heilmikið vinna lögð í það. Það var tilbúið um miðjan desember. 18. desember blés ég af öllum krafti, kertavaxi og glimmeri yfir það allt. Það var óvart.

Já þið getið rétt ímyndað ykkur hversu óstöðugt sjálfsálit mitt er, eftir þessar „þetta er þér að kenna“ athugasemdir í gegnum tíðina. Þess vegna óx ég svona við viðurkenningu dýralæknisins. Svo kom að því að borga. Ég stóð þarna, frekar ánægð með mig og lærin á Vaski, rétti konunni kortið og um leið spyr hún hvað hefði komið í ljós. Galar þá ekki dýralæknirinn úr næsta herbergi yfir alla biðstofuna: „Svo sem ekkert, hún hefur bara ofreynt hann…“.

3 Responses to “Var það eitthvað fleira? Sem er mér að kenna?

  • Anna Sigrun
    8 ár ago

    Hehehehe elsku vinkona
    Eg væri lika enn hlaupandi ef eg ætti ad halupa 5km 😉
    Hann Vaskur er heppin ad hafa tig sem sina manneskju <3 <3 <3
    Bara skella duk yfir bordin … vandamalid leyst!
    Knus elskan

    • Þá gætum við hlaupið saman, á hentugum hraða 😉
      Dúk yfir borðin? Ekki það nýjasta, Fúsi eyddi tugum klukkustunda í að finna rétta litinn 🙂
      Knús yfir til Stavanger.

  • Guðrún Geirsdóttir
    8 ár ago

    Þú ert skemmtilegasti bloggari sem ég skoða 🙂 Verst að ég nenni ekki að vera á snapchat, annars væri ég líka að skoða þig þar 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *