Fúsi að detta í fimmtugt og í lamasessi.
Það er kominn tími til að ég opni mig, létti svolítið á mér við ykkur. Það er nefnilega þannig að Fúsi er að verða fimmtugur og líkamlegum bilunum fjölgar í takt við árin. Þessar bilanir má allar rekja til mín eins ótrúlegt og það nú hljómar.
Byrjum á fyrstu bilun; miltanu. Fúsi var í eftirliti vegna miltans í nokkur ár. Á tímabili var umræða um það að taka það bara. Ástæða þessa eftirlits var sú að… nei annars, sleppum henni bara. Já, oft má satt kjurrt liggja.
Næsta bilun var brákað rifbein. Brákunin var reyndar ekki upphaflega mín sök, hann fór í go-kart og brákaði það þar. En síðar, rétt áður en það gréri alveg saman, gaf ég honum hressilegt olnbogaskot… með hælnum og braut allt upp. Rifbeinið stakst í gegnum lungun, Fúsi missti andann og endaði í öndunarvél á gjörinu. Fékk ofan í þetta, lungnabólgu og lamaðist. Jæja jæja, ég er víst eitthvað að ýkja þarna. Einhversstaðar fór ég framúr sjálfri mér, samt óljóst hvar. En rifbeinið er allavega löngu gróið.
Á einhverjum tímapunkti í hjónabandi okkar Fúsa, fannst mér tími til kominn að hann kæmi sér í form. Ég réði stuðningsaðilla fyrir hann, mann að nafni John sem átti að vera félagi hans. Veggjatennis varð fyrir valinu hjá þeim félögum og gekk þetta framar vonum framanaf. Fúsi hætti að reykja og var á leið í feikna form nema hvað, einn daginn fer hann að kvarta yfir verkjum í hásininni. Þar sem ég er nú ekki þekkt fyrir að nenna að hlusta á þessháttar væl, sagði ég honum bara að halda áfram í veggjatennisnum og gera sitt besta til að vinna John í hvert skipti. Hvatning mín varð til þess að hann endaði á að leggja veggjatennisinn á hilluna og þurfti að sækja sjúkraþjálfun um margra mánaða skeið.
Síðan kom að því að Fúsi fór að færa allt lesefni fjær sér og að lokum entist ekki lengd handleggjana til að fjarlægjast lesefnið. Fúsi fór í sjónmælingu sem staðfesti hrakandi sjón. Ekki þótti mér það nú mér að kenna heldur hlaut þetta að vera hreint og beint ellimerki. Þangað til ég átti samtal við föður minn sem hélt því fram að þetta væri alfarið mín sök vegna þess að Fúsi væri alltaf að horfa á mig. Nú jæja, þá er sjónleysið líka mér að kenna.
Eitt sinn var ég orðin verulega þreytt á heyrnaleysi Fúsa en ég var farin að hallast að því að hann þjáðist af meiru en bara kjörheyrn „selective hearing“. Ég sendi Fúsa til heyrnalæknis sem fann ekkert alvarlegt að, allavega ekki til að fara út í stóraðgerðir. Heyrnalæknirinn spurði Fúsa afhverju hann hefði komið? Fúsi svaraði: „konan mín sendi mig“. Þá sagði heyrnalæknirinn: „þú ert ekki sá eini…“. Núna, nokkrum árum seinna, versnar heyrnin fremur en að batna. Ég kvartaði undan heyrnarleysi Fúsa við pabba sem kenndi mér einnig um þá bilun…: „hann hefur þurft að hlusta á þig í 23 ár!“. Ég sagði að svo slæmt gæti það ekki verið, þ.e.a.s. að hlusta á mig… „jú og þú hefur alveg farið með heyrnina í honum þegar þú söngst Hærra minn Guð til þín eins hátt og þú gast klukkan korter í sex að morgni í fyrrahaust“. Jæja, kennum mér bara líka um heyrnaleysið. Bak mitt er breitt.
Þarna má sjá þá tvo saman… gegn mér.
En bilanirnar eru ekki allar upptaldnar. Sú nýjasta og alvarlegasta er hnéð. Fúsi hefur alltaf verið með hin ágætustu hné og aldrei kennt sér meins í þeim þrátt fyrir að hafa unnið á þeim í áratugi (fyrrverandi smiður). Síðan, í maí 2016, fór hann út að hlaupa. Sagðist ætla í skóginn og ég sagði honum að fara ákveðna leið og taka brekkuna í leiðinni. Sem og hann gerði því hann Fúsi minn er svo dásamlegur að því leytinu til að hann gerir allt sem ég segi honum að gera. En hann kom haltrandi heim. Það small víst eitthvað í hnénu. Við vorum ekkert að hafa áhyggjur af því -það myndi lagast. Hann átti bara að halda áfram að hlaupa, labba með hundinn og slá grasið. Nú er svo í pottinn búið að hann er á leiðinni í aðgerð. Því það er allt í messi í hnénu og hann kennir mér alfarið um það! Af því að ég sagði honum að fara í brekkuna. Og ekki nóg með að hann kenni mér um það, heldur gerir pabbi það líka. Segir að hann hafi snúist alltof mikið í kringum mig í 23 ár!
Ég á ekki 7 dagana sæla…