Fimmti frídagurinn minn og sá síðasti í bili. Mér er búið að takast að gera ótrúlega margt skemmtilegt og ótrúlega lítið leiðinlegt. Það skemmtilega var að fá fólk í mat og drykk, fara á öskudagsskemmtun, hjóla frekar mikið, þrífa bílinn í sólskini, þrífa hjólið í sólskini, fara í búðarráp með Aldísi, taka pínulítið til í garðinum, lesa, hanga í tölvunni og fara í körfu í gær. Matarboðið orsakaði samt að ég fór sem smiður á öskudagsskemmtunina (var ekki meiningin), Aldís túperaði á sér hárið og fór sem Argintæta 4 árið í röð. Fúsi fór sem fúll á móti og Svala fór ekki sem Paris Hilton heldur hin. Hélt ég myndi ekki lifa þennan dag af… (öskudaginn) og ástæðan fyrir að ég set öskudagsskemmtunina með í skemmtilega hlutann er sú að þetta heitir skemmtun og ég vil ekki vera með móral.
Á föstudaginn þegar ég fór heim úr vinnunni, setti ég mér það markmið að fara vel með mig. Ég á fjölskyldu sem mér ber skylda til að hugsa vel um og að vera til staðar fyrir. Mér varð nefnilega hugsað til spakmælisins sem ég rakst á á þorrablótinu um daginn. Fann nefnilega pappírssnepil með þessum orðum á: „Of mikið af húsverkum geta valdið heilaskaða“. Og í hægra horninu að neðan fannst mér standa óskýrt: „Hippokrates 400 f.kr.“ Ef ég ekki tek mark á Hippokrates þá get ég nú bara sleppt því að vera til…. Faðir læknisfræðinnar, maðurinn sem kom í veg fyrir að við séum öll andsetinn og stútfull af náttúrulegum plöntum í dag. Þótt ég sé ekki læknir og ætti að taka F. Nightengale meira til mín en Hippokrates, þá er mér það íllmögulegt því hún gerði lítið annað en að þrífa og dusta rúmfötin. Enda vita það allir sem hafa e-ð grafið oní Nightengale að hún var nú bara flopp. En Hippokrates afturámóti setti fram kenninguna um húsverkin… sem allar stórgáfaðar konur hafa farið eftir í árþúsundir. Allar stórgáfaðar konur á framabrautinni eru með heimilishjálp. Ég VERÐ að fara að pressa á kommununa… hef ekki heyrt frá þeim ennþá.
Þessvegna er ég búin að gera ótrúlega lítið af leiðinlegum húsverkum í þessu fimmdaga fríi mínu. Er bara nokkuð skýr í kollinum og held fínt jafnvæginu!
Annars ætla ég bráðum að fara að gera meira úr húsmóðurshæfileikum mínum. Bara á annan hátt en að gera húsverk. Ætla að fara að njóta þess að vera húsmóðir í kreppunni og fara að prjóna og sauma. Finna þessa innri ró sem kemur yfir mann við prjónaskapinn. Þá get ég líka gleymt húsverkunum… því ef ég sauma ekki og prjóna þá hefur familien ekkert til að vera í.
Ég hef farið eftir þessum orðum Hippokratesar lengi enda stórgáfuð kona!
Þessi spakmæli eru náttúrulega bara hönnuð fyrir konur eins og mig til að hengja sig á. Ég get alla vega ekki sagt að ég ofkeyri mig á húsverkunum :-S
Frábært hvað þú áttir gott 5 daga frí, ekki amalegt…
Kv. Begga