Sveitir og jarðir vs. nútímauppflettingar (Lokaorð Austurgluggans – nóvember 2016)

Talið hjá okkur Fúsa  barst að merkisritinu Sveitir og jarðir í Múlaþingi. Ég spurði Fúsa hvort þessar bækur hafi ekki verið til á hans æskuheimili? „Jú jú,“ svaraði Fúsi, „þær voru til.“

„Og varstu ekki oft að fletta upp í þeim?“ spurði ég.

„Ha? Sveitum og jörðum? Ertu alveg galin? Rosalega hefði maður þurft að eiga leiðinlegt líf ef maður hefði þurft að fletta upp í Sveitum og Jörðum sér til dægrastyttingar.“

Kannski. Ég fór að velta fyrir mér hvort einangruninn á Tókastöðum yfir snjóamestu veturna hafi verið svona leiðingjörn að ég hef þurft að stytta mér stundir með nefið ofan í Sveitum og jörðum? Það var ekki eins og það væru ekki til aðrar bækur á heimilinu. Jú jú, mamma átti m.a. ALLAR bækurnar eftir Snjólaugu Braga og ég gleypti þær í mig skammlaust.

Ég gat líka stundað það að fletta upp í símaskránni tímunum saman. Þar fékk maður nöfn, heimilisföng og starfsheiti þegar best lét. Ásamt að sjálfsögðu símanúmerinu en það var aukaatriði í lesningu minni á símaskránni.

Ég geri þetta enn í dag, bara á annan hátt. Ég hitti nýtt fólk eða heyri um fólk og feisbúkka það nánast samstundis. Já það heitir að feisbúkka. Það er líka hægt að gúggla fólk en ef viðkomandi er ekki frægur eða hefur ekki afrekað neitt sérstakt sem kemur honum á Internetið  fást afar litlar upplýsingar þar. Þess vegna er betra að notast við Facebook, þar eru næstum allir, líkt og í Sveitum og jörðum hér áður fyrr. Fólk er þó misjafnlega opið á Facebook, því er nú ver og miður. Í Sveitum og jörðum voru allir jafnir. Þar var engin að hugsa um að verna um einkalífið né að uppljóstra of miklu.

Í dag hef ég möguleika á að vera nánast inn á rúmgafli hjá fólki í gegnum samfélagsmiðla og hef bæði gagn og gaman að. Og geld til baka í sömu mynt, opna líf mitt upp að vissu marki fyrir öllum sem vilja í þeirri von um að það sé dægrastytting fyrir aðra. Þetta er í tísku og þess háttar tískustraumur þýðir að fjöldi fólks gerir  þetta og á afar misjöfnum forsendum. Þetta þýðir líka að það er auðvelt að misstíga sig og jafnvel hrasa á þessum vettvangi og afleiðingarnar oft á tíðum grimmilegar svo vægt sé til orða tekið. Stundum dettur mér í hug blóðugar. Inni á samskiptamiðlunum minna samskiptin og múgæsingurinn mig stundum á aftökusveit þar sem manneskja, oftar en ekki ung og óhörðnuð, er tekin af lífi fyrir framan tugþúsundir fólks með orðunum einum saman. Í Sveitum og jörðum var sem betur fer ekkert athugasemdakerfi, allavega ekki í líkingu við það sem er í dag.

Ég spurði Fúsa hvort hann hefði ekkert flett mér upp í Sveitum og Jörðum þegar við vorum að byrja að kynnast? Aftur fór Fúsi að hlæja og spurði hvort mér væri alvara?

Já mér er það, ég reyndi að fletta þér upp,“svaraði ég særð. „En ég fann bara pabba þinn og síðan ekki sögunni meir.“ En ég fann Fúsa í símaskránni: Sigfús Jónsson, Lágafelli 2, sími 11415. Þangað flutti ég stuttu seinna.

img_6937

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *