Þegar Fúsi á að velja sér jólagjöf.

pizap-com14789684715813

Á ofanverðri mynd getur að líta brot af jólagjafaúrvalinu sem vinnan hans Fúsa býður upp á. Að auki eru í boði handklæðasett, ofnmótasett frá Holm og margt fleira. Það má bara velja sér einn hlut.

Þetta fyrirkomulag hefur verið haft í á nokkur ár núna. Meðal annars höfum við fengið rúmföt, risastóra ferðatösku og sófaborðin okkar sem oftar en ekki sjást á snappinu. Okkur (mér sérstaklega) líkar þetta stórvel. Ég veit ekki hvort þið takið eftir því, en ég segi við… ekki hann (Fúsi).

Ekki fáum við að velja svona á sjúkrahúsinu sem þó hefur tekist að hitta í mark hjá fjöldanum ár eftir ár. Þar má meðal annars nefna Piet Hein skálar og föt, Georg Jensen hluti af ýmsu tagi, tréskurðarbretti, grillhnífapör og Stelton pizzuskera svo fátt eitt sé nefnt. Þangað til í fyrra, þegar lá við að öll sjúkrahús Suður Jótlands yrðu sprengd í loft upp þegar þeir deildu út tugþúsundum grænröndóttum Omaggiovösum.

En ég er manngerðin sem læt þessháttar mislukkaða gjöf ekki á mig fá. Nei nei síður en svo. Varð bara yfir mig ánægð þrátt fyrir að græni liturinn ekki passaði inn í stílinn á Möllegade. Ég sá þó fljótlega að vasinn gat ekki verið grænn, liturinn var hreinlega til að kasta upp yfir og þar sem ég hef alla tíð þótt alveg einstaklega handlaginn og handverkið mitt afar eftirsótt svo ekki sé meira sagt, hef ég ekki látið þennan forljóta græna lit rústa stílnum á heimilinu heldur leyst vandamálið á sem farsælastan hátt.

Því hefur vasinn fengið að vera bleikröndóttur, rauðröndóttur, hvítröndóttur, svarröndóttur með texta, grár og grænn, appelsínugulröndóttur og nú í testosteronstíl. img_6902

img_6913(Myndin er tekin daginn eftir að gluggaþvottamaðurinn hafði verið með nýja tækni við gluggaþvott. Þetta er ekki grín).

En aftur að jólagjöfunum frá fyrirtækinu sem Fúsi vinnur hjá.

Í fyrra var hægt að velja um fernt að mig minnir. Gæru, tréhlut sem bæði getur verið blaðagrind, borð eða stóll, handfarangurstösku og matarkörfu.

Í fyrra var fyrirkomulagið þannig að Fúsi skráði sig inn á síðuna sem sínu eigin notendanafni og við myndina á hlutnum voru tveir „takkar“sem hétu „velja“ og „skoða“. Ef maður ýtti á „velja“ þá valdi maður. Punktur.

Fúsi hefur alltaf viljað hafa mig með í ráðum hvað varðar gjafirnar, segir að ég sé svo góð að velja gjafir… Þótt gjafirnar séu til Fúsa. Í fyrra mátti ég líka skoða en í staðinn fyrir að skoða, valdi ég. Og ekkert hægt að bakka neitt með það.

Í ár er fyrirkomulagið öðruvísi, nú skrá allir starfsmenn sig inn með sama notendanafni en það þarf að fylla út eyðublað og samþykkja. Þannig að Fúsi hefur þorað að leyfa mér að skoða í einrúmi. Ég hafði velt þessum gjöfum fyrir mér fram og til baka og gat engan veginn ákveðið hvað mig langaði í. Eða sko, hvað væri best að Fúsi veldi sér fyrir sig. Þetta er nú einu sinni gjöf til hans frá vinnunni hans.

Á föstudaginn sátum við saman í sófanum og Fúsi sagði: „ég er svolítið að spá í þessum heyrnatólum…er samt ekki viss“.

Ég: „tja, veit svei mér þá ekki… er eitthvað mikið notagildi í þeim?“

Fúsi (sem hlustar gríðarlega mikið á hljóðbækur): „ha?“

Ég: „ég er ekki alveg viss um að ég vilji þau…. nema ÞÚ ætlir náttúrulega sjálfur að nota gjöfina…?

Mottóið mitt hefur nefnilega alltaf verið: þitt er mitt… 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *