Ræturnar eru á Íslandi
Héraðsbúinn Dagný Sylvía Sævarsdóttir hefur verið búsett í Danmörku í fimmtán ár og þrátt fyrir að allir uni hag sínum vel segir hún að Ísland sé og verði alltaf „heima“.
„Grasið er grænast hérna megin“
Dagnýju Sylvíu Sævarsdóttir þarf vart að kynna fyrir lesensum Austurgluggans, en hún er ein þeirra sem hefur skrifað lokaorð í blaðið um nokkurra ára skeið. Dagný hefur verið búsett í Danmörku ásamt fjölskyldu sinni um fimmtán ára skeið þar sem þau una hag sínum vel. Með hjálp tækninnar plataði blaðamaður hana í kaffi og fékk hana til að segja sögu sína í gegnum forritið Skype.
Dagný er dóttir þeirra Önnu Kristínar Magnúsdóttur og Sævars Pálssonar. Hún er fædd á Seyðisfirði þar sem hún bjó fyrsta árið sitt ásamt móður sinni, en rúmlega ársgömul fluttu þær mæðgur í Tókastaði í Eiðaþinghá til stjúpföður Dagnýjar, Áskels Einarssonar sem lést haustið 2014. Á Tókastöðum var fjár- og hrossabúskapur þar til riðan bankaði upp á árið 1988, en eftir þar voru þau nánast einungis með hross.
„Það var gaman og mikil forréttindi að alast upp í sveit. Friðsælt en samt rosalega mikill gestagangur þegar ekki var ófært. Það kom fyrir að fólk svaf á dýnum í eldhúsinu eða á ganginum og hefur þetta alltaf fylgt mér, en mér þykir ekkert tiltökumál að hrúga fólki inn í húsið mitt þegar mikið liggur við, segi alltaf að það sé nóg gólfpláss.
Að mínu mati eru Tókastaðir fallegasta jörðin á öllu Héraðinu. Bærinn liggur á bak við ás og upp við fjall og sést því ekki frá þjóðveginum þrátt fyrir að vera stutt frá honum Það er stutt í Egilsstaði þannig að ég upplifði aldrei þessa sveitaeinangrun.“
Í heimavistarskóla sjö ára
Dagný var í heimavist í Barnaskólanum á Eiðum alla sína grunnskólagöngu þar sem hún dvaldi frá mánudegi til föstudags. Í skólanum voru um fimmtíu nemendur á þessum tíma.
„Þetta var aldrei erfitt fyrir mig, enda svosem ekkert annað í boði. Ég held að ég hafi akkúrat verið týpan í þetta og gerði mig sjálfstæða og að mörgu leyti óháða öðrum, sem ég er enn í dag. Fyrir mér var lífið bara eilífur leikur, við höfðum alltaf eitthvað fyrir stafni, bæði inni og úti.
Pabbi minn bjó á Akureyri og þar var ég oft um áramót eða páska og hluta úr sumarfríunum mínum þar þannig að ég kynntist bæjarlífinu líka. Við vorum bara örfá í skólanum á mínum aldri sem áttum pabba annarsstaðar og mér fannst það mjög töff og upplifði mig sem mikinn heimsborgara fyrir vikið.“
Ætlaði að verða vélstjóri
Dagný hélt áfram námi á Eiðum eftir grunnskóla og fluttist aðeins yfir í Alþýðuskólann.
„Ég var búin að bíða lengi eftir því að komast úr barnaskólanum niður í Alþýðuskóla af því þar var sjoppa. Mér fannst þetta ekki mikið stökk af því við vorum í svo miklum tengslum við skólann og ég þekkti hann út og inn.
Mér fannst unglingsárin ótrúlega skemmtileg og fór aldrei í gegnum neina persónulega kreppu. Það var sjaldan lognmolla í kringum okkur og fórum við stundum inn í Egilsstaði á djammið um helgar. Ef við komumst ekki inn á böllin vegna aldurs dóum við ekki ráðalaus heldur klæddum við okkur bara í kuldagalla og fórum á götufyllerí með viskí blönduðu með vatni úr slöngunni á bílaþvottaplaninu. Einhverntíman fórum við í kirkjuturninn á Egilsstöðum af því að þar var mesta skjólið, slömmuðum Tequila með salti og sítrónu og ein okkar endaði á heilsugæslunni með gat á hausnum.“
Eftir tíunda bekkinn hóf Dagný nám í vélstjórnun í Verkmenntaskólanum á Akureyri.
„Ég ætlaði að verða vélstjóri, það var svo mikið af sjómönnum í föðurfjölskyldunni að mér þótti það mjög kúl. Ég hafði samt gaman af snyrtivörum og sótti um snyrtifræðibraut til vara. Ég var eina stelpan í bekknum og önnin gekk að mestu leiti út á vatnsslag, en við vorum mikið í verknámi og alltaf kveikt á vatnsslöngunni. Eftir nokkrun tíma ákvað ég að það væri engin framtíð í þessum vatnsslag og fór aftur austur um áramótin.“
Er barnið með barni?
Dagný kynntist manni sínum, Sigfúsi Jónssyni, þegar hún fór aftur austur sautján ára gömul til þess að fara í Menntaskólann á Egilsstöðum.
„Þegar ég var nítján fór ég í nokkra mánuði til Danmerkur til að vinna í hestaleigu með íslenska hesta. Mig langaði alltaf út en ákvað að fara ekki sem skiptinemi eða au-pair þar sem ég var nýbúin að kynnast Fúsa. Þegar ég kom heim varð ég fljótlega ólétt og hætti í menntaskólanum. Fúsi er töluvert eldri en ég og var þarna orðinn menntaður smiður og vann við það.“
Unga parið eignaðist frumburð sinn Aldísi Önnu árið 1995.
„Mér þótti ekkert tiltökumál að vera ólétt tvítug, en vinkona mín var það einnig og margar stelpur í kringum mig orðnar mæður. Foreldrum mínum brá aðeins og fósturpabbi sagði: „Er barnið með barni, en honum þótti ég líklega heldur ung.“
Dóttirin Ásrún Svala fæddist tveimur árum síðar og var Dagný því orðin tveggja barna móðir aðeins 22 ára gömul.
„Mér fannst þetta aldrei neitt mál. Ég var alls ekki kærulaus þannig séð, heldur lifði mig inn í móðurhlutverkið og notaði taubleijur sem ég straujaði af hjartans lyst. Ég gekk meira að segja svo langt að ég þáði notaða peysu af ömmu til að klæðast í á seinni meðgöngunni til þess eins að sýna umheiminum hversu fullorðin ég væri, en þá var ekki í tísku að klæðast fötum af ömmu sinni.
Ástæðan fyrir því hve lítið mál þetta var er kannski sú að ég spáði ekkert alltof mikið í hlutina. Ég held bara hreinlega að ég hafi ekki haft þá vitneskju sem maður hefur í dag til þess að hlaða utan á sig áhyggjunum. Þannig smitaðist líklega þetta afslappaða andrúmsloft yfir á dæturnar sem voru frekar þægileg og róleg börn – allavega svona í minningunni, annars er ég voðalega fljót að gleyma öllu því neikvæða.“
Aðspurð um mæðgnasambandið segir Dagný; „Við erum mæðgur en ekki bestu vinkonur, það er munur þar á. Tengslin okkar á milli eru mjög góð en þær eru þó báðar sjálfstæðar og fara sínar eigin leiðir. Svala er á þriðja og síðasta ári í menntaskóla en Aldís er stúdent og er núna au-pair í Frakklandi. Við erum ekkert að tala saman á hverjum degi, en ég veit að hún blómstrar þarna niður frá. Við höfum enga þörf fyrir að vera límdar hver ofan í annarri en samt sem áður verið duglegar að gera eitthvað saman sem mæðgur, bæði á Íslandi í fríum en líka að fara í borgarferðir eða bara í bíó og út að borða.“
Aldís Anna og Ásrún Svala uppi á Hjálmárdalsheiði á leið gangandi frá Seyðisfirði til Loðmundarfjarðar árið 2007.
Var alltaf með útþrá
„Ég var alltaf með útþrá og langaði að fara burt og helst til útlanda. Fannst Akureyri eða Reykjavík ekki nægilega spennandi, langaði bara eitthvað meira,“ segir Dagný sem flutti með fjölskyldunni til Danmerkur árið 2001 þegar dæturnar voru fjögurra og sex ára.
Dagný segir að Fúsi hafi ekki endilega verið á þeim buxunum að flytja úr landi. „Fúsi minn er öðruvísi en ég og þurfti töluverðan tíma, en þegar ég var búin að tala hann til var hann besti maðurinn í því að skipuleggja þetta allt saman. Það er yfirleitt þannig – ég fæ hugmyndirnar og hann útfærir þær, þannig að við erum mjög gott lið. Hann er rosalega þolinmóður en það verður ekki það sama sagt um mig, hann nennir að leggjast yfir vandamálin og finna út úr hlutunum en ég alls ekki.“
Aðspurð um dönskukunnáttu þegar þau fluttu segir Dagný; „Við vorum bara með skóladönsku, sem ég hélt að væri mjög fín, en var hræðileg þegar á reyndi. Við lögðum okkur samt fram við að ná dönskunni vel, hlustuðum alltaf á danskt útvarp og sjónvarp og vorum með danskan texta þegar það var í boði. Ég fór á bóksafnið og bað um léttlesanlegar bækur. Kona frænda míns sagði að besta leiðin til að læra dönsku væri að kaupa konublöðin Ude og Hjemme. Ég hlýddi og keypti þau í tvo mánuði, eða þar til ég var orðin hálf þunglynd – en þetta eru svo mikil sorgarblöð, meira og minna um sjúkdóma eða hræðileg áföll í lífi fólks. Ég hætti að lesa þau áður en allt færi í óefni í sálarlífinu,“ segir Dagný og skellihlær.
Fjölskyldan á fermingardegi Ásrúnar Svölu. Ljósmynd: Pato Soto
Fóru bæði í nám
Fúsi fékk strax vinnu þegar út var komið. „Hann fór að vinna hjá smíðafyritæki sem honum líkaði síður hjá, en áður en við fluttum var hann orðinn leiður á smíðavinnunni og farinn að huga að breytingum. Hann hætti því, fór í skóla og lærði tæknihönnun og hefur unnið við það hjá sama fyrirtækinu síðan. Þannig að segja má að þessi misheppnaða smíðavinna hafi verið lán í óláni,“ segir Dagný og bætir við. „Ég var ekki með neina menntun en langaði í skóla og ákvað að fara í hótel- og veitingaskóla þar sem ég hafði unnið á Hótel Héraði og líkað vel. Bekkjafélagar mínir voru miklu yngri en og ég var engan vegin að fíla þetta og hætti fljótlega.“
Dagný vatt sínu kvæði í kross og fór í sjúkraliðanám eftir að hafa millilent í hálft ár sem starfsmaður á leikskóla. „Danska kerfið er þannig að ef maður hefur náð vissum aldri og tekur einhverja áfanga sjúkraliðanámsins á hærra stigi kemst maður inn í hjúkrunarfræði, kennaranámið, nám í félagsráðgjöf og fleira sambærilegt án stúdentsprófs. Auk þess að sýna fram á hluta af menntaskólagöngu og starfsreynslu sem hægt væri að meta í þessu samhengi. Mig langaði að verða félagsráðgjafi þannig að þetta var fín leið fyrir mig, en í verknáminu fann ég að hjúkrunarfræðinámið átti meira við mig þannig að ég fór í það og útskrifaðist árið 2008.“
Dagný lét ekki staðar numið eftir útskrift heldur fór næstum beint í sérnám í gjörgæsluhjúkrunarfræði og er nú í diplómanámi í klínískri kennslu. „Ég er semsagt búin að vera nánast stanslaust í skóla í þrettán ár og er að verða svolítið þreytt á því þó mér þyki alltaf gaman að skrifa ritgerðir. Námið sem ég er í núna er til þess að afla mér réttinda sem klínískur kennari á gjörgæsludeildinni en það kemur stórt hlutfall af hjúkrunarfræðinemum í verknám til okkar á öllum stigum námsins.“
Saknar íslenska húmorsins og vetrarveðursins
Um 30.000 manns búa í Söndeborg, en hús þeirra hjóna er frá 1947 og staðsett á besta stað í miðbænum að mati Dagnýjar. „Við búum á eyju sem tengd er með tveimur brúm yfir á Jótland með sundi á milli. Þrátt fyrir að vera alin upp lengst inn í Héraði finnst mér gott að búa við vatn og finn að ég vil gera það í framtíðinni. Hér er fullt af brekkum, strandlengja og skógur í nágrenninu og mikil náttúrufegurð á danskan mælikvarða. Mér finnst þetta í alvörunni fallegasti bærinn í Danmörku og hann er uppfullur af sögu.“
Dagný segir að á námsárunum hafi flest ferðalög fjölskyldunnar verið til Íslands en nú séu þau í auknum mæli farin að nýta sér það hversu auðvelt er að ferðast milli landa frá Danmörku.
„Við förum mjög oft til Flensborgar í Þýskalandi, en það er aðeins hálftíma akstur. Það er hreinlega eins og að koma í annan heim, enda jú annað land. Það er allt annar byggingarstíll, matur og menning. Við röltum um, förum á kaffihús, borðum og skoðum okkur um. Einnig nýtum við okkur að stórborgin Hamburg er aðeins í tæplega tveggja tíma akstursfjarlægð og ódýrt að fljúga þaðan eða bara fara í stórborgarfrí með lítilli fyrirhöfn. En samt er Ísland ekki látið sitja á hakanum. Ræturnar liggja tvímælalaust þangað og alla leið austur.“
Dagný segir sakna íslenska vetursins. „Sumarið er rosa fínt og vorin eru æðisleg, en þá er allt í blóma. Mér finnst veturnir hér þó alveg hundleiðinlegir og ég sakna mjög austfirska vetrarveðurlagsins með snjó og sviptingum í veðrinu eins og í gamla daga. Hér er bara hálfgerð veðurleysa og grámygla allan veturinn. Það hafa þó komið einstaka snjóavetur og það finnst mér gaman, en Dönunum ekki eins. En það er bót í máli að veturnir eru stuttir og því garðhúsgögnin komin út um miðjan mars og ekki tekin inn aftur fyrr en um miðjan október.“
Ég sakna líka oft íslenska húmorsins og hugsunarháttarins sem er allt annar en sá danski og lendi stundum í minniháttar en þó góðlegum árekstrum við Danina og finn þá hvað ég er mikill íslendingar í mér. Það er í raun himinn og haf á milli okkar þótt það sjáist ekki við fyrstu sýn.“
Erfitt að vera í burtu þegar eitthvað bjátar á
Árin í Danmörku eru orðin fimmtán. „Við lofuðum mömmu og pabba að við yrðum bara í þrjú til fjögur ár þannig að þau sættu sig við að við myndum fara, en þeim hefur þótt þetta pínu erfitt, en samgleðjast okkur hve vel hefur gengið. Okkur finnst ekkert mál að vera í burtu frá stórfjölskyldunni dagsdaglega, en hunderfitt þegar eitthvað bjátar á, eins og dauðsfjöll og aðrir erfiðleikar. Líka pínu erfitt að vera svona langt í burtu þegar systkini okkar hafa verið að eignast börn, mér finnst við vera að missa svolítið af þeim og væri til í að vera nær. Við förum oftar til Íslands núna í seinni tíð og fjölskyldan okkar er dugleg að koma á merkisdögum á borð við stórafmæli, útskriftir og fleira.“
„Fúsi segist ætla að verða gamall á Íslandi, en ætli það fari ekki eftir því hvar stelpurnar munu búsetja sig í framtíðinni. Ef að þær verða til dæmis í Kaupmannahöfn er engin fyrirstaða fyrir okkur að vera til dæmis í Reykjavík, enda ekki meira mál að fljúga þaðan en héðan. Þrátt fyrir að þær hafi sterkar taugar til Íslands þykir mér sennilega að þær komi til með að búa hér, en það verður bara tíminn að leiða í ljós.“
Þykir flott að vera frá Íslandi
Dagný segir það þykja flott að vera frá Íslandi í dag. „Já, það þykir mjög flott, en fjölskyldan sem Aldís er hjá sem au-pair í Frakklandi valdi hana af því að Ísland vann England í fótbolta og spilaði síðan á móti Frakklandi. Hún segist fá mikla athygli út á það að vera Íslendingur og sjálf finn ég fyrir auknum áhuga á Íslandi og helgarferðir heim eru orðnar vinsælar meðal vinnufélaga og fólks í kringum okkur.“
Dagný segir öflugt Íslendingafélag á svæðinu þar sem þau sækja viðburði hjá, en bestu vinir þeirra er Íslendingakjarninn sem búinn er að búa lengi í Sönderborg.
„Vinahópurinn okkar er samheldinn og öflugur, en við höfum nánast byggt hús fyrir hvert annað. Flest okkar hafa keypt hús sem hafa þurft endurbóta við, en innan hópsins er til dæmis smiður, rafvirki og pípulagningarmaður ásamt fleiri handlögnum þannig að það er bara farið á milli og hjálpað þegar þarf. Pabba finnst þetta minna á Jökuldalinn í gamla daga þar sem menn fóru á milli og byggðu hlöður fyrir hvern annan.“
Hægt að hafa áhrif gegnum Snaptchat
Dagný hefur haldið úti vinsælli bloggsíðu með nafninu Alrúnarblogg, eða Alrun.com, undanfarin tólf ár og verið virk á Snapchat í dágóðan tíma undir notendanafninu Alrun en þar hefur fylgendahópurinn hennar stækkað hratt að undanförnu.
„Já, ég er mjög athyglisþurfi,“ segir Dagný og hlær. „Ég blogga og „snappa“ um allt og ekkert, stundum algera steypu, stundum eitthvað sem liggur mér á hjarta og allt þar á milli. Fylgendahópurinn minn er alltaf að stækka og er mjög breiður á báðum stöðum – en ég fæ viðbrögð frá fólki allt frá átján ára upp í rúmlega áttrætt, en það er mjög gaman.“
Dagný hefur alltaf haft gaman af því að skrifa en segir Snapchat jafnvel ná enn betur til fólks en bloggið. „Það er auðveldlega hægt að hafa áhrif í gegnum snappið, en bæði er hópurinn svo breiður og ótrúlega tengdur manni. Það er hægt að vera fyrirmynd á snappinu, til dæmis nota ég alltaf hjólahjálm og veit um fólk sem hefur byrjað að gera það líka vegna mín. Einnig tók ég fyrir líffæragjöf um daginn og fékk í kjölfarið fullt af spurningum um það og hef vonandi verið hvatning fyrir fólk til að skrá sig sem líffæragjafa.“
Stígur reglulega út fyrir þægindarammann
Aðspurð um önnur áhugamál segist Dagný lesa mikið og sé sú iðja í uppáhaldi. „Mér finnst ótrúlega gaman að lesa og uppáhalds bækurnar mínar eru íslenskar sveitasögur á borð við Dalalíf eftir Guðrúnu frá Lundi og Heiðarbýlið eftir Jón Trausta. Þær verða helst að innihalda óveður og eftir því sem bylurinn er bandbrjálaðri, því betra. Annars er ég alæta á bækur og er að lesa Game of Thrones núna.“
Dagný er í mörgum klúbbum, svo sem menningarklúbb, prjónaklúbb og Pink ladies Sönderborg hópnum, en hann var stofnaður árið 2011 og samanstendur af íslenskum konum á öllum aldri.
„Við hittumst með nokkurra mánaða millibili, höfum þema, klæðum okkur upp og tökum myndir. Þetta á að kosta sem minnst og við nýtum það sem til er, ásamt því sem hægt er að fá í Rauða kross búðunum og nýtum hugmyndaflug og hæfileika hópsins. Það getur verið heilmikil áskorun að kveðja spéhræðsluna, sætta sig við eigið skinn og kasta okkur út í verkefni sem engum hefði dottið í hug að gera nema væri fyrir þennan hóp. Við stígum reglulega stór skref út fyrir þægindarammann með hvatningum og ögrunum. Ef verkefnið hefur verið skemmtilegt, þá er aðaltilganginum náð.“
Fyrsta verkefni Pink Ladies hópsins í júní 2011. Ljósmynd: Pato Soto
Fúsi er kletturinn
Dagný og Fúsi hafa verið saman í 23 ár og verður það að teljast nokkuð gott miðað við háa skilnaðartíðni í dag. Hún er spurð um galdurinn að farsælu sambandi.
„Já, ætli það sé ekki bara að segja nógu andskoti marga brandara á hverjum degi – ég sko, en Fúsa finst ég mjög fyndin. Nei, svona grínlaust þá höfum við nánast alist upp saman, ég var bara 17 ára þegar við byrjuðum saman en hann 25. Við erum samheldin og fíflumst mikið en gefum hvort öðru einnig hellings pláss til að vera einstaklingar, en ég fer oft ein, bæði í vinnuferðir og annað. Þetta myndi aldrei ganga ef hann væri líka alltaf flögrandi um eins og fiðrildi. Hann er kletturinn. Ég er alltaf jafn skotin í honum þó svo að hann geti oft verið alveg ógeðslega pirrandi, en ég veit að grasið er grænast hérna megin.“
Birt í 41.tbl. Austurgluggans, 15. árgangs, 21. oktober 2016. Skrifað af KBS