Dýralæknisleg meðferð á stórslösuðum hundinum.
Kæru lesendur.
Sá óhappaatburður gerðist á föstudaginn að Vaskur, íslenski fjárhundurinn okkar, missti kló (nögl fyrir þau ykkar sem aldrei hafa verið í sveit).
Hann var í fossagöngu við Degaberga í Svíþjóð, ætlaði að klifra upp tré en rann niður með klærnar úti og reif eina alveg af. Það blæddi í meðallagi og hann skældi á við eitt ýlfur. Meira var það nú ekki.
Hann hélt áfram að hlaupa um og leika sér meðfram ánni innan um fallegu haustlitina.
Þegar heim var komið, í fallega heilsárshúsið í Linderöd þar sem Lilla frænka og Lars búa, byrjaði hann að sleikja.
Hann sleikti allt kvöldið, alla nóttina og næstum alla leiðina heim í bílnum daginn eftir. Sleikti og sleikti svo að litli rauði kjötstubburinn var stanslaust blautur.
Ég með mína gjörgæsluhjúkrunarfræðimenntun ásamt næstum því diplómu í klínískri kennslu hef aflað mér þá þekkingu að ekki er gott fyrir kjötstubbinn að liggja í hundaslefsmarineringu svo dögum skiptir.
Því var gripið til aðgerðar að hætti hámenntaðs dýralæknis, því þó ég hafi ekki slíka menntun er ég óneitanlega dálítill dýralæknir inn við beinið. Ég hef ákveðið að birta aðgerðina í tilfelli af ef hundurinn ykkar lendir einhverntímann í svipuðu. Í aðgerðina þurfti eða þarf… þetta er margra vikna verkefni:
- Ferkantaðar hreinar grisjur
- Saltvatn (NaCl 9%)
- Hárblásara sem blæs köldu
- Sárabindi í mjórri kantinum
- Skæri
- Englahúðslímband
- Myndasokka í stærð 23-25
- Góðgæti sem hundinum finnst gott
Aðferð:
Mikilvægt er að hafa allt tilbúið áður en hafist er handa því hundar eru misþolinmóðir og nenna stundum ekki þess háttar snurfusi.
Hundinum er stillt upp standandi á milli fótleggja „dýralæknisins“ og sagt að standa kjurr. Þar kemur sér vel að hundurinn þekki skipunina „kjurr“. Allra best er að nota ákveðnu röddina en alls ekki að skamma, þetta á ekki að vera neikvæð upplifun, síður en svo. Þar kemur góðgætið sterkt inn. Loppan er tekin upp og skoluð vel með saltvatninu og þerruð með grisjunum. Loppan er síðan þurrkuð með hárblásaranum og það er MJÖG mikilvægt að það sé kaldablásturs stilling á blásaranum. Það finnst engum gott að fá heitan blástur í „opið“ sár. Mikilvægt er að loppan er eins þurr og unnt er því annars á hún á hættu að mygla innan í umbúðunum.
Síðan tek ég eina grisju og vef henni utan um loppuna. Þar á eftir sárabindið og þar myndi ég telja að best væri að vefja í fiskibeinsmynstur. Þannig helst það best. Varast skal að vefja of fast því þá er hætta á að það stöðvist fyrir blóðrennslið og að hundurinn verði þrífættur áður en maður veit af. Þetta er svo styrkt og tryggt með englahúðslímbandinu. Aftur: EKKI OF FAST.
Að lokum er loppan klædd í sokk. Við Vaskur mælum með Star Wars eða hetjusokkum. Gott er að setja englahúðslímband á kantinn á sokknum. Ef hundurinn gerir sig líklegan til að tæta sokk og umbúðir af, er bara að segja NEI á ákveðinn hátt. Þar kemur sér einnig vel að hundar skilji „nei“.
Engin fyrirstaða er fyrir hundinn að fara út að ganga íklæddur svona fínum sokkum. En sumir hundar eiga það til að hylja slóð sína og róta vel og vandlega yfir líkamsúrgang hverskonar og ef það er leyft, fjúka umbúðir og sokkur samstundis af. Því er mikilvægt að bannað slíka hegðun á meðan klóin vex.
Ef tilfinningin „að ganga örna sinna“ kemur yfir hundinn og það vill svo óheppilega til að það er komið áfall á túnið, er best að klæða loppuna í hægðarpoka og líma vel fyrir.
Kæru lesendur, það er ósk mín að þessi dýralæknislega meðferð komi ykkur að gagni á lífsleiðinni.
Og ef einhver skyldi efast um þessa dýralæknislegu meðferð mína vil ég bara nota sömu orð og O-Ren Ishii notaði á fundinum forðum daga, augnabliki eftir að hún skar hausinn af Tanaka: „Now, if any of you sons of bitches got anything else to say, now’s the fucking time!“
Annars myndi ég nú bara persónulega sleppa því að fetta fingur út í meðferðina, því ég hef áræðanlegar heimildir fyrir þessu öllu saman frá dýralæknisnema í Kaupmannahöfn, litlu frænku minni ættaðri úr Eiðaþinghánni og sem verður án efa einn besti dýralæknir á Íslandi seinna meir ef ég þekki hana rétt.