Bloggin sem mér finnst að þið ættuð að lesa.
Þegar þið, lesendur góðir, lesið þessa færslu, skuluð þið hafa hægra augað óvenju mikið opið. Því hægra megin á síðunni, við hliðina á færslunni eru ljósgráir kassar. (Þ.e.a.s. ef þið eruð í tölvu. Í síma verðið þið að skrolla áfram niður eftir þessa færslu). Næst neðsti kassinn er spunkunýr. Þar eru linkar á bloggsíður sem ég hef gaman af. Ég veit að þær eru í færri kantinum en fyrir því eru tvær ástæður.
- Ég er lélegur netvafrari, hangi mestmegnis á því sama. Það sem ég skoða nánast eingöngu eru síður sem innihalda vísindalega sannaðar rannsóknir um káltegundir, stjórnmál, örverur, stjörnuryksfræði og veðurfarsbreytingar á Sakhalin eyjunni austan við Rússland og norðan við Japan. Ég læt það ekki fréttast ef mér verður á að opna facebook.
- Eins og ég skrifaði í 1. þá er ég er lélegur vafrari og finn sjaldan blogg til að lesa. Þ.e.a.s. blogg sem innihalda annað en varaliti og vasa.
Þessar bloggsíður sem ég linka á í ljósgráa boxinu til hægri eru síður sem hafa dottið upp í hendurnar á mér fyrir tilviljun.
- Boggublogg er 9 ára gamalt blogg sem ég upgötvaði fyrir mánuði síðan. Ég þekki hana ekki persónulega en sameiginleg vinkona segir mér að hún sé íslenskufræðingur á Akranesi og margt margt fleira. Hún lætur ekki mikið fyrir sér fara sem er eiginlega synd því hún er að mínu mati skemmtileg, þægileg til lestrar og með heilan dálk fyrir bækur!
- Krissa76 er Stöðvfirðingur og gömul skólasystir mín frá Eiðum og nú blaðamaður hjá Austurfrétt/Austurglugganum ásamt því að vera sjónvarpsstjarna hjá N4. Hún tekur góðar skorpur í blogginu og það eina sem ég hef út á að setja er að hún mætti taka fleiri skorpur.
- Sögustundin er síða sem ég rambaði inn á fyrir tilviljun. Ég veit að eigandinn heitir Guðrún og kennir íslensku í menntaskóla á Íslandi. Meira veit ég ekki, en hef gaman af blogginu hennar.
- Varsjárbloggið er blogg sem varð til þegar doktorinn í sagnfræði, sveitamaðurinn og ljóðskáldið Hrafnkell Lárusson var í skiptinámi í Varsjá í vetur. Ég hef persónulega beðið hann um að halda áfram að blogga. Kommon, hann er Breiðdælingur og við þekkjumst öll þarna fyrir austan.
Ég vona að þið hafið líka gaman af.
P.s. Ef þið vitið um góð blogg sem þið haldið að ég hafi gaman af, þá er ég alveg til í að fá einkaskilaboð.
P.s.s. Ég var nærri búin að gleyma að sýna ykkur nýjasta DIY verkefnið mitt. ÞAÐ eitt og sér (að gleyma því) hefði orðið skandall.
En ég var að búa til borð til að hafa úti.
Til þess þurfti:
- 36 hellur
- eina rauða plötu fyrir geisladiska
- Eitthvað þungt til að hafa ofan á því það er ekki hægt að festa plötuna, ég reyndi ítrekað með uhu lími. Það skiptir engu máli hvað þetta þunga er, bara eitthvað dásamlega fallegt. Endilega notið hugmyndaflugið til þess að ykkar borð verði einstakt.
- Vatnsheldan tússpenna til að merkja þetta þunga ef ykkur er annt um það. Því þetta stendur á glámbekk og sumir hlutir eru vinsælli og eftirsóknarverðari en aðrir.
Ég er að fíla vasann á rauða borðinu og borðið sjálft ?
Takk. Borðið er heimatilbúið og vasinn er til sölu 🙂