Þegar ég heklaði dúllurnar!

Það er nú meiri óttalegi slóðaskapshátturinn á mér þessa dagana. Að geta ekki framleitt svo sem eina bloggfærslu. Kannski af því að það hefur lítið sem ekkert á daga mína drifið síðan við komum heim frá Íslandi og þið getið rétt ímyndað ykkur, það tók sálartetrið nokkra daga að jafna sig eftir þá ferð. Þvílíku og öðru eins endemis svekkelsi hef ég varla orðið fyrir síðan ég veit ekki hvenær. En það er óþarfi að hafa fleiri orð um það, það er í nógu öðru að snúast.

Ég var að læra að hekla!

Já það gat ég. Reyndar vissi ég að ég gæti lært að hekla því ég hef þá tröllatrú á sjálfri mér að ég geti lært allt. Bara ef áhuginn og viljinn eru fyrir hendi. Ég held að það þurfi nefnilega ekki meira til. Því er eins farið með þig lesandi góður.

Ég ákvað sem sagt á laugardaginn síðastliðinn að nú væri kominn tími til að ég heklaði dúllur. Hvorki meira né minna. Þremur korterum eftir að ákvörðunin var tekin, sat ég undir stýri á leið til Flensburgar til að kaupa garn. Daginn eftir fór ég á heklunarnámskeið.

Það tók mig fjóra klukkutíma að hekla eina dúllu. Og mig verkjaði svo mikið í fingurnar. Auk þess var ég orðin vel rangeygð. Heklunarkennarinn var þolinmæðin uppmáluð og framkvæmdi gæðaeftirlit eftir hvern hring í dúllunni.

IMG_4547

Þetta var fyrsta dúllan mín. Hún er hekluð úr afgöngum. Þ.e.a.s. úr garnafgöngum.IMG_4550 Ég ákvað að það yrði nú bara að flassa þessa enda greinilega framtíðar heklari þarna á ferð.

Ég fór beinustu leið heim af námskeiðinu til þess að halda áfram að hekla. Ég sleppti meira að segja að horfa á Landann.

IMG_4586

Þetta er dúlla númer tvö og einnig úr garnafgöngum. Þetta eru ekki litirnir sem ég er að nota í alvöru verkið. Bara svo að við höfum það á hreinu. Einnig skulum við hafa það á hreinu að það var ekki ég sem fann upp orðið „dúlla“ yfir þessar pjötlur.IMG_4602

Á dönsku þýðir dúlla það sama og skinka, það neikvæða orð yfir ákveðinn hóp kvenna. Samkvæmt wikipedia gegnst dúlla eingöngu upp í því ytra; fötum, förðun og útlitinu almennt. Hún hefur engan áhuga á samfélaginu og menningu. Verslun og snyrting er það mikilvægasta sem hún gerir.

Dúllurnar mínar eru ekki þessháttar. Þeim er alveg sama þótt þær séu rammskakkar og allavegana á litinn.IMG_4607

Annars fórum við Vaskur í langan göngutúr í dag. Við rákumst á veiðimenn og það er það sem hundurinn hræðist allra mest án nokkurrar útskýringar. Hann setur hausinn undir sig og rýkur í burtu og ég fæ ekkert við ráðið. Þessi mynd er tekin úr fjarska.

IMG_4615

Við tókum einnig stöðuna á byggingarframkvæmdunum niður við höfn. Þegar þessir naglar eru reknir niður heyrist það út um allan bæ. Ekki síst á gjörinu. Stanslausar neglingar mánuðum saman. Þarna á að rísa hótel og multimenningarhús eftir teikningum Franks Gehry sem er mörgum kunnugur að nafninu til en hann er einn af frægustu arkitektum heims. Guggenheim safnið og gullfiskurinn í Barcelona eru meðal verka hans. Hér getið þið lesið um hafnarverkefnið okkar.

Í bakgrunninum sést Alsion, einn af háskólum Syd Dansk university. Árið 2007 var hann tilbúinn til notkunnar. Árið 2013 opnaði Borgen, verslunarmiðstöðin okkar hérna í Sönderborg og ef ég man rétt þá eiga þessar byggingar að vera tilbúnar 2017. Já, það er eitthvað byggt í Sönderborg, litla sveitabænum okkar.

Það er ekki margt annað fréttnæmt héðan, enda erfitt finna eitthvað að viti eftir þvílíka stórfrétt sem heklunin var. Svala nýtur reyndar lífsins í London þessa dagana ásamt bekkjarsystkinum sínum og ég ætla að eyða helginni í kuldanum í Tønsberg. Og því er nú ver að ég skyldi síðbrókina eftir á Íslandi.

En heklið tek ég með mér í flugin.

Svoleiðis er það nú.

 

One Response to “Þegar ég heklaði dúllurnar!

  • María Huld
    9 ár ago

    Hæ Dagný.
    Skemmtileg færsla 🙂
    Þú átt greinilega framtíðina fyrir þér í heklinu 🙂
    Bestu kveðjur
    María

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *