Magga (Margrét Alrún) frá Högnastöðum í góðum gír.
Í gær fórum við og heimsóttum Möggu, merina mína sem ég fékk í afmælisgjöf frá pabba í sumar. Hún er núna í tamningu inn á Iðavöllum enda afar mikið efni þar á ferð. Hremsa gamla heitin er jú ættmóðir hennar og það er það sem telur.
Ég var að vonum voðalega spennt að sjá hana enda orðinn hrossabóndi, aftur.
Margrét Alrún varð líka mjög glöð um leið og ég birtist. Hún skynjaði tenginguna. Í daglegu tali er hún kölluð Magga frá Högnastöðum, sem er ekki verra en hvað annað, nema ef hún verður ofboðslega fræg, þá er nú skynsamlegra að hún heiti Alrún.
Hún er semsagt í frumtamningu á Iðavöllum og er held ég bara að meika það. Ég meina, það sér hver maður sem hefur snefil af hrossaviti.
Ég hef aldrei átt gráan hest áður þannig að þetta er ágætis tilbreyting frá jörpu og rauðu. Hún er líka há á herðarkampinn og óhemju gáfuð. Þetta er sú sem skítur hvorki inni í húsum né í kerrum.
Tamningarkonan fór á bak á henni og sýndi okkur hversu langt hún var komin með hana. Þetta var hin besta sýning. Síðan var mömmu boðið að prófa. Ekki mér. Sem ég bara skil ekki. Ég er eigandinn.
Kannski hefur það haft einhver áhrif að ég tróð mér í síðbrók innan undir buxurnar og leit því út eins og sláturkeppur samkvæmt mömmu og tamningarkonunni hefur ekkert litist á að ég færi að brölta á bak. Ákveðið að ég kæmist ekki hálfa leið.
Pabbi sem kom frá Akureyri að heimsækja okkur átti líka sitt móment þarna þegar hann hvíslaði að mér: „Dagný mín, ég var eiginlega spenntari að sjá merina en þig“. Þetta hestafólk.
Ef ykkur blöskrar orðaval foreldra minna, þá getiði verið alveg róleg á meðan ég er róleg.
En við Magga urðum strax bestu vinkonur og kvaddi hún mig með góðri grettu.