Já Austurglugginn og allra nýjasta já-ið!
Hér sit ég, á Eiðum, nýkomin inn úr hesthúsinu og því með þannig lykt í hárinu.
Með morgunkaffinu las ég Austurgluggann spjaldanna á milli og hafði gaman af. Hafði líka gaman af að frænkur mínar Rebekka og Olla voru í sama Glugga. Í júlí var Ásdís frænka í sama Glugga og ég. Næst verður það kannski Kalli frændi.
Einhver mistök áttu sér stað og vantaði neðsta hlutann af lokaorðunum í Austurgluggann að þessu sinni. Grunar að prentarinn hafi sleppt þeim viljandi til að hafa myndina af mér stærri. Það ætti samt ekki að aftra ykkur frá að fara í Kaupfélagið og kaupa nýjasta Austurgluggann. Þetta stórmerkilega rit.
Að gefnu tilefni ákvað ég að birta lokaorðin í fyrra fallinu. Hlutinn sem vantaði er feitletraður.
Hvert er ég að fara?
Mér þykir gaman að fara út og vera innan um fólk og er oftast fljót að segja já við tilboðum sem snúa að félagsskap. Undanfarna mánuði hefur það þó aðeins verið að fara úr böndunum og ég sagt já án þess að kynna mér hvað það var sem ég sagði já við.
Í lok nóvember var mikið að gera hjá mér, ég var að skila lítilli ritgerð og komin einhver þreyta í mig. Eva vinkona mín sendi mér skilaboð um hvort ég vildi koma með henni og fleirum í axlar og fótanudd kvöldið fyrir skil hjá nuddfyrirtæki sem heitir Forever living. Axlar og fótanudd? Já takk! Ég þurfti mjög mikið á þessu að halda. Mér fannst skrítið að hafa ekki heyrt um þetta fyrirtæki áður, fyrirtæki sem veitti tvennslags nudd í einu og velti fyrir mér hvar í bænum þetta væri og ekki síst, hvernig þetta færi fram? Ég ímyndaði mér sérhannaðan bekk úr svörtu leðri og tvo nuddara á mann með tilheyrandi tedrykkju og afslappandi tónlist. Við vinkonurnar urðum samferða á staðinn og í ljós kom að hinar höfðu álíka væntingar og ég. Ein hafði farið í vaxmeðferð korteri fyrir brottför, önnur fjarlægt tveggja mánaða gamalt naglalakk og ég lét nægja að raka ökklana því ekki gafst tími fyrir meira. Auk þess höfðum við farið í mjög þægilegar flíkur að ofan. Nema Eva, hún spurði bara hvort við værum ekki með bala með okkur? Fyrir fótabaðið? Áttum við nú sjálfar að taka með okkur bala, hvurslags þjónusta var þetta eiginlega?
Þegar á staðinn var komið, kom í ljós að þetta var snyrtivörukynning í heimahúsi. Við þurftum sjálfar að græja fótabað, það var ekkert fótanudd og axlarnuddið varði í um eina mínútu.
Í janúar bauðst mér að fara á tónleika fyrir lítinn pening. Það var Sebastian sem hélt tónleika, en hann var á hátindi frægðarinnar á áttunda og níunda áratugnum. Þetta var síðasti séns að sjá hann á sviði því hann er orðinn hrörlegur.
Þegar tónleikarnir hófust birtist enginn Sebastian á sviðinu heldur fjórar manneskjur með söngleik byggðan á lögunum hans. Þetta hafði víst komið skýrt fram í auglýsingunni.
Nokkrum dögum seinna var mér boðið á mjög fámenna olíukynningu hjá regndroparáðgjafa sem líka er regndropanuddari og þar sem við vorum bara þrjár, mátti búast við góðu nuddi á nuddbekk með olíu að eigin vali. Eða það skildist mér. Regndroparáðgjöf og nudd hafði ég aldrei heyrt um svo þetta hlaut að vera eitthvað stór merkilegt.
Á kynningunni vorum við tíu í allt, ekkert nudd og eftir þriggjatíma ítarlega kynningu á fjórtán galdraolíum sem læknuðu allt, meira að segja sveppaýkingar líka, fengum við loksins að vita að byrjunarpakkinn kostaði næstum fjöritíuþúsundkall.
Á morgun er ætlunin að sjá Njálu í Borgarleikhúsinu. Ég er orðin spennt og viðurkenni að ég verð ansi spæld ef það verður ekki Njála.
Eftir viku er stefnt á Góublót í Hjaltalundi. Eftirvæntingin stigmagnast. Ég hlakka til að borða þorramat, hitta sveitungana og horfa á hefðbundin skemmtiatriðin. En hvað ef það verða bara pizzur? Og enginn sveitungi á staðnum? Í raun er ég farin að efast stórlega um hæfileika mína til að sjá hluti í réttu ljósi og hverju ég segi já við.
——————————————————————————————-
Ég sendi þetta til Austurgluggans á þriðjudaginn í síðustu viku. Klukkutíma seinna kom tölvupóstur frá danska hjúkrunarfræðingafélaginu sem innihélt spurningarlista.
Þá rifjaðist upp fyrir mér að ég hafði sagt já við eina samstarfskonu mína úr vinnunni sem hafði fyrir hönd hjúkkufélagsins spurt mig hvort ég vildi taka þátt í að svara spurningum og að þetta myndi birtast í blaði hjúkrunarfræðinga. Auðvitað hafði ég sagt já.
Ég opnaði spurningarlistaskjalið og féllst samstundis hendur.
Þetta eru 13 erfiðar spurningar sem hljóma svona á dönsku:
1) Hvorfor valgte du at blive sygeplejerske?
2) Hvad var dit første job?
3) Hvorfor valgte du at specialisere dig inden for xx?
4) Hvem har du lært mest af i din karriere?
5) Hvad kendetegner en god sygeplejerske?
6) Hvilket råd vil du give en nyuddannet?
7) Hvad er det mest tilfredsstillende ved dit job?
8) Hvad er det mest udfordrende i dit job?
9) Hvad kan holde dig vågen om natten?
10) Hvad er du mest stolt af i din karriere?
11) Hvis du kunne ændre en ting i sundhedsvæsenet, hvad skulle det så være?
12) Hvor ser du dig selv om fem år?
13) Hvordan tror du, at sygeplejen vil udvikle sig de næste 10 år?
Spurningarnar eru allar klisjukenndar og því eru svörin í raun og veru stöðluð og afar leiðinleg. T.d. spurning nr. 1, afhverju ég valdi að læra hjúkrun? Kommon, hverju öðru er hægt að svara en að manni langaði sjúklega mikið til að vinna með veikt fólk og að láta gott af sér að leiða. Það væri rugl að svara öðru. Hver sú sem ástæðan var fyrir valinu á sínum tíma.
Eina spurningin sem er auðsvarað er nr. 2 þar sem spurt er hver fyrsta vinnan mín var. Svarið þar er þvagfæraskurðlækningadeild.
Ég get líka svarað nr. 9 þar sem spurt er hvað haldi mér vakandi á nóttunni. Svarið er að ef það er rólegt á gjörinu, þá heldur Netflix mér vakandi. En það væri glapræðissvar… í sjálfu hjúkkublaðinu.
Í sannleika sagt, get ég bara svarað nr. 2.
Ef þið getið hrist góð svör fram úr erminni, þigg ég þau með þökkum.
Því mér varð á að segja já við einhverju sem ég vissi ekki hvað var og í þetta skiptið fór ég algjörlega fram úr sjálfri mér. Algjörlega.
P.s. Mér þætti afskaplega vænt um ef þið vilduð deila færslunni fyrir mig, svo að lokaorðin komist til skila.