Jólaundirbúningurinn, já og aðventukransinn sem ég steingleymdi að sýna ykkur á facebook!
Jú jú hérna erum við, á lífi, hvorki buguð né bauguð í jólaundirbúningi.
En samt erum við hjónin alveg að standa okkur. Eða ég. Það er ég sem er að standa mig í jólaundirbúningnum. Sá gamli segist ekki vera týpan sem missir sig í jólabrjálæði. Hann segir líka að ef hann ætti að fara telja upp það sem honum leiðist við þennan undirbúning, þá væru það örfá atriði eða um 500 talsins.
Ég skreytti áður en ég fór til Bergen um daginn og sagði honum að græja og setja upp seríurnar á meðan ég væri í burtu.
Eftir heimkomuna þurfti ég að taka niður eina, setja aðra upp í staðinn, laga aðra og bæta tveimur við.
Stöldrum aðeins við og ræðum þessa seríu. Hún er íslensk og í minnsta lagi 15 ára gömul. Ástæða þess að hún er á lífi er að hún lá í dvala í 11 ár.
Fyrstu jólin okkar í Danmörku bjuggum við í endaíbúð á „Handelskollegíinu“. Við höfðum flutt jólaskrautið með okkur og við negldum jólaseríur upp í alla glugga í öllum litum. Í eldhúsglugganum sem snéri út að bílastæði og umferðargötu hékk ódrepandi eldrauð sería úr Kaupfélagi Héraðsbúa. Hún hékk þarna í örfáa daga. Fúsi tók hana niður umsvifalaust þegar einn nágranni okkar stoppaði hann fyrir utan og spurði mjög varlega hvort hann vissi hvað það þýddi að hafa rauða seríu hangandi í glugganum?
Þá fórum við að skoða í kringum okkur og áttuðum okkur á að Danir nota nánast eingöngu hvítar seríur. Við tókum það upp árið 2002 og alveg þangað til í fyrra. Þá var ég á Íslandi fyrir jólin og sá alla litadýrðina sem er notuð við skreytingar þar. Mér fannst það æðislegt! Eitthvað annað en hérna þar sem hvítar seríur á samhverfum trjám eru allsráðandi. Ég er alin upp við liti og ákvað að fara aftur að nota liti. Í Bergen í byrjun desember var afar lítið um seríur og ef ég rakst á þær, voru þær hvítar. Ég varð bara sannfærðari um að nota litaseríur. Þessi hvíti verður nefnilega óhemju leiðingjarn þegar líður á.
Aftur að jólaundirbúningnum.
Ég pakkaði öllum pökkunum inn, hverjum einasta og skreytti með hindberjum. Á meðan horfði hann á þátt um egypsku pýramídana í 1000asta skiptið.
Ég græjaði jólakortin frá A-Ö (ég stökk ekki yfir girðinguna þar sem hún var lægst í þetta sinn), á meðan minn heittelskaði horfði á þátt um Inkana í Perú í 2000asta skiptið.
Ég bakaði SÖRUR í gærkvöldi á meðan gaurinn sem ég giftist hérna um árið horfði á þátt um Rómaríki í 3000asta skiptið.
Hann er nörd.
Ég bjó líka til aðventukrans í ár. Almennt leiðast mér aðventukransar þó svo að þessir fáu sem ég hef gert í gegnum árin hafi verið feikilega flottir og sérstakir. En í ár gerði ég einn. Að sjálfsögðu löngu fyrir aðventuna svo að hann væri tilbúin á tilsettum tíma. Það er mér líkt.
En málið er bara að ég steingleymdi að sýna ykkur hann. Veit ekki hvað ég var að hugsa. Skil ekkert í mér að hafa ekki sett mynd af honum á facebook.
Þarna er hann, í öllu sínu veldi. Búin að kveikja á öllum kertunum nema englakertinu. Ég var lengi að búa þennan til, því þótt hann sýnist einfaldur er hann flókinn. Já nei nei þetta er ekki gamalt stálfat sem ég tók úr eldhússkápnum. Þetta er silfurfat frá… Georg Jensen.
Vinkona mín spurði mig hvort ég væri alltaf að verða meiri og meiri Íslendingur í mér og nú farin að safna iittala stjökum. Ég játti því náttúrulega.
Önnur vinkona mín spurði mig hvort þetta væri það allra nýjasta frá iittala. Ég játti því líka.
Þetta er það allra allra nýjasta frá iittala, því frábæra finnska merki.
Og hvað haldið þið? Jú haldiði bara ekki að ég eigi iittala potta! Mamma gaf mér þá fyrir 8 árum síðan þegar henni blöskraði pottahaldið á heimilinu. Ég vissi ekki þá að þeir ættu eftir að verða svona merkilegir því þá var iittala bara sígillt og klassisk, ekki misnotuð tískubóla.
Síðan var einhver sem spurði hvort þetta væri ekki bara natriumbikarbonatflaska??? Halló, var viðkomandi að tala við mig? Flaska? Þetta er augljóslega kertastjaki!
Ég meina, fólk hlýtur að sjá merkin sem eru á stjökunum. Það sannar að þetta er allt saman yfirverðlagt og einstakt iittala.
Ekki færi ég að fara niður í búð fyrir hádegi og kroppa merkin af iittalahlutum bara til þess að fara með heim og líma á feik gler og glingur sem að ég hef sankað að mér í Rauða kross búðum og á sjúkrahúsinu.
Aldrei í lífinu, vesalings heiðvirðu húsmæðurnar með sjálfsvirðingu (þó ekki nema snefil) sem keyptu eða fengju hræðilega grænan kivi iittala stjaka í jólagjöf og merkið væri ekki á. Stjakinn yrði einskins virði. Og komandi ár, 2017, færi í vaskinn
Nei ég er búin að fylgjast nógu mikið með lífstílsbloggum til að vita hvað er einstakt og hvað verður að koma inn fyrir mínar stofudyr til þess að ég geti dregið andann og feisað fólk.
Það veit sjúkrahúsið líka. Það sér um sína. Jólagjöfin í ár er ómissandi til að líf okkar húsmæðrana sé bærilegt.
Ég má því miður ekki uppljóstra hvað sé í pakkanum því ég er búin að lofa góðri vinkonu (sem kann íslensku og vinnur á sjúkrahúsinu) að kjafta ekki frá. Hún vill láta spítalann koma sér á óvart. En ef breiddin er 165mm og hæðin er 200mm og nafnið er Herman August, fattaði þá hvað ég er að tala um?
Jens Sigurðsson veit hvað er í honum… þessi gamli rektor starir í gegnum allt og alla.
Annars erum við hjónin pollróleg hérna á línunni, drekkandi tuborg appelsín og carlsberg malt og látum okkur hlakka til komandi daga þar sem jólatréshöggvun, jólaferð til Flensburgar, skatan og margt fleira er í vændum, allt í góðum félagsskap.
Ef þið viljið fylgjast með hvernig ég hysja buxurnar upp um þann gamla og ýti honum inn í jólin, þá finniði mig á snapchat undir alrun.
Þar til næst.