Bækur til sölu
Fúsi var að kaupa sér fjórtán bækur og þar sem bókahillan okkar er svo lítil, svo agnarsmá að hún sést varla, þurfum við reglulega að rýma fyrir nýfengnum bókum.
Einu sinni setti ég kassa með um þrjátíu bókum út á gangstétt og miða með, þar sem á stóð að fólk mætti eiga bækurnar. Það fóru allar nema tvær og þær voru eftir Arnald Indriðason.
En nú er farið að hausta og hart í ári. Hef ekki hugsað mér að gefa neinar bækur þessa dagana.
Við tæmdum eina hillu og innihaldið er til sölu. Orðabækur í besta standi!
Þarna er Ensk – íslensk skólaorðabók, ég fékk hana í fermingargjöf frá systir pabba. Það vantar bakhliðina í hana og það fylgir henni eiginhandaráritun á hundruðustu hverri síðu. Nafnið mitt handskrifað. Einhver sagði mér að svona væri best að merkja bækurnar upp á að endurheimta þær aftur ef þeim yrði stolið. Ég var lengi að þessu og hún var mikið notuð í denn. Þessvegna er hún mikils virði og því set ég á hana 300kall danskar. Hvorki meira né minna.
Síðan eru þarna tvær Engelsk – dansk bækur. Önnur er ævagömul (1975) og það er frekar vond lykt af henni. Einhver hefur líklega hellt áfengi yfir hana á menntaskólaárunum. Hún fer á afslætti: 220kall danskar.
Hin er þykkri, þyngri og nýrri. Vegna þyngdarinnar er ég tilneidd að setja 300kall danskar á hana.
Síðan er ein Dönsk-íslensk, hún er antík (1967) en jafnframt óhemju góð bók. Hún kenndi mér dönsku og er því tilvalin fyrir alla Íslendingana hérna í Sönderborg sem ekki hafa lært dönskuna. Allar blaðsíðurnar eru heilar og hún hangir fínt saman. Það eru fleiri þúsund orð í henni, ef ekki tugþúsund. Ef lesið er í henni á hverjum degi, talar maður feikilega góða dönsku eftir 14 ár. Get sent ykkur hljóðdæmi því til sönnunnar. Og vegna gæðadönskunnar sem ég tala og þakka eingöngu þessari orðabók og Sigrúnu Blöndal fyrir það, verð ég að verðleggja hana frekar hátt en fullkomnlega sanngjarnt. 320kall danskar.
Ég var að minnast á Sigrúnu Blöndal. Hún var dönskukennarinn minn í Menntaskólanum. Afskaplega fínn kennari en einstaka sinnum fór hún í pirrurnar á mér. Það var þegar hún bannaði mér að lesa Ísfólkið í tíma. Aftur og aftur. Hvort hún rak mig úr tíma. Ég man það ekki. En ég skildi aldrei hvernig hún uppgötvaði að ég væri að lesa Ísfólkið. Það voru litlar kiljubækur og ég lagði þær inn í dönskubókina svo að Sigrún héldi að ég væri að lesa skólabækurnar. Það hafa verið tannlæknaspeglar í gleraugunum hennar. En ef hún bara vissi hversu góða dönsku ég talaði í dag. Það hafa meira að segja tveir DANIR haldið að ég væri DÖNSK. Reyndar var annar þeirra með batteríslaus heyrnatæki í báðum og hinn var alveg á skallanum niður í bæ og sofnaði í fatahenginu fjórum mínútum seinna. En samt… þeim fannst danskan mín góð.
Þessi hundur… honum tekst alltaf að laumast inn á myndirnar hjá mér. Ótrúlegur.
Dansk-engelsk, ekkert hægt að nota hana. Samt alveg heil og ekki mjög gömul eða frá 1980. Hún hefur verið notuð í Grunnskólanum í Lögumkloster sem er lítið krummaskuð langleiðina úti við Vesturhaf. Þannig að hún fer bara nánast ókeypis eða á 150kall danskar.
Að lokum er ein Dönsk-dönsk þarna. Hún er líka þarfaþing með þessari Dönsk-íslensku. Eiginlega er þessi dansk-danska betri en hin. Svona í alvöru talað þá lærir maður meira af henni. Ég ætlaði að gefa ykkur mjög góðan afslátt en er hætt við því ég veit að mállausir Íslendingar hér í bænum eiga eftir að berjast blóðugum bardaga um hana. Svo við skulum bara segja 350kall danskar. Sléttar.
Að lokum; ef þið kaupið allar sex orðabækurnar, fáiði þessa níundaáratugs ástarsögu með í kaupbæti. Allur pakkinn á 1800kall danskar. Kostakaup. Ómögulegt að láta þetta úr hendi ykkar sleppa.
Fyrstur kemur og fyrstur fær.