Þegar helgin hangir í manni…
Ég er svoleiðis búin að brillera í dag! Eða þveröfugt. Kannski hékk helgin aðeins of fast í mér.
Ég var í skólanum í Vejle og það var hópavinna. Við áttum að hjálpa hvert öðru með ritgerðirnar okkar sem við erum ekki byrjuð á. Eða, ég er ekki byrjuð á. Hin eru hálfnuð. Við erum þrjú í hóp. Þau reyndu allt hvað þau gátu til að draga mig í gang. Komu með hinar og þessar tillögur að orðum í heimildarleit. Ég horfði á þau tómu augnaráði og reyndi að segja þeim að ég væri ekki tilbúin (og að ég væri enn timbruð). Að ég ynni best undir álagi. Sem þýðir að ég vinn best dagana fyrir skil. Karlinn skildi mig og sá að hvorki gekk né rak. Konan þrjóskaðist við og sagði: „hvað með grænu bókina hans Wahlgrens???“. Ég sagðist bara þekkja rauðu bókina hans, hefði aldrei notað þá grænu. Hún hafði ekki heldur „notað“ hana en samt lesið hana. Upp í rúmi á kvöldin. Því hún væri svo áhugaverð.
Okei, stöldrum við hérna. Hver tekur fræðibók með sér upp í rúm? Fyrir utan Stephen Hawking kannski.
Okei, ég hef reyndar tekið fræðibók með mér upp í rúm en það hefur verið panik-lestur í öll skiptin. Munað skyndilega að ég ætti eftir (og orðið) að lesa eitthvað til að kunna eitthvað daginn eftir. Ég hef aldrei tekið fræðibók með mér upp í rúm af Fúsum og frjálsum vilja!
Svo nörduð er ég ekki. Ég held mig við harmleiki og rómantík í rúminu.
En aftur að konunni í hópnum mínum. Hún sagðist hafa lesið græna Wahlgren í rúminu. Og ég brást við með hljóði! Það ýldi í mér. Þið vitið, maður hefur munninn lokaðan og kreistir.
Við vorum að hittast í annað skiptið. Og það ýldi frekar hátt í mér. Það varð allt mjög vandræðalegt. Það hefði verið skárra að prumpa.
Þegar ég kom heim í dag sat Fúsi í sófanum og skoðaði mögulega jólagjöf frá vinnunni. Þau fá alltaf val um jólagjafir. Í ár er val um þrennt.
- Ferðatöskusett
- Lambaskinn
- Skemil/tímaritastand með fjórum bjórum, fjórum snakkpokum, ítölskum brauðstöngum og salthnetum.
Síðan á maður bara að ýta á velja og þá kemur gjöfin heim til manns.
Hann sýndi mér í símanum hvað væri í boði og ég skoðaði gaumgæfilega og hafði sterkar skoðanir á hvað hann ætti að velja. Nema skyndilega og ALVEG ÓVART ýtti ég á velja í staðinn fyrir lesa meira.
Þetta var alveg innilega algjörlega óvart! (Fúsi fær nr. 3 í jólagjöf frá Sloth Möller í ár).
Ég sagði fyrirgefðu aftur og aftur og reyndi að kyssa hann á allt andlitið til að bæta fyrir þumalputtamistök mín. Hann var alveg að þiðna upp… þangað til hann uppgötvaði að ég sat á heyrnatólunum hans. Þessum dýru með góða hljóðinu í. Þessum sem eru mjög stór og fara ekki fram hjá nokkrum manni. Það eina rétta í stoðunni var að standa hægt upp og læðast út úr stöfunni.
Og taka mynd af tunglinu.
Það þarf eiginlega að klikka á myndina, þá sjáiði ljósaklasann frá borgunum.