Kvennadagurinn og dagurinn eftir hann

Ég endaði síðustu færslu á að segja ykkur að ég væri að fara á kvennadag Íslendingafélagsins. Árlegur og ómissandi viðburður.

Hann var í gær.

Eftir að hafa skotið úr byssum, af bogum og glímt að hætti japanskra súmóglímumanna, gerðum við hlé og höfðum okkur til að hætti sjötta áratugsins.

IMG_1993 IMG_2034 IMG_2075 10599531_10207962119268776_5108061329992068506_n

(Smári Sverrir tók þessa mynd)

Við Ágústa tókum Sandy úr Grease á þetta. Önnur okkar var villt, hin var stillt.

Um kvöldið var síðan Útsvarskeppni þar sem Önundarfjörður vann (getur einhver sagt mér hvar Önundarfjörður er?). En Útsvarið var ekki nóg, ekki nógu svæsið. Þessvegna kom íturvaxin kona með töskur fullar af titrandi eggjum, fiðrildum, kanínum, kúlum og limum til að sýna okkur og mæla með að við keyptum áður en hjónaböndin okkar færu í vaskinn (þau sem þegar eru ekki farin í vaskinn). Hún sagði að best væri að prufukeyra herlegheitin og styrkleika titringsins á nefbroddinum. Síðan gengu tugir titrandi hlutir hringinn í kringum borðið og hver einn og einasti var prófaður á nefbroddinum.

Þetta fór ekki vel í allar. Meira en helmingurinn fór heim með mögulegan heilahristing um miðnætti. Við vorum nokkrar sem ekki hafði orðið meint af titringnum (sem á meðan ég man, var í fjórtán mismunandi styrkleikum) og höfðum bara fílelfdst ef eitthvað var og sýndum því bænum hvernig Sandy og allar hinar konurnar frá 50´s skemmtu sér.

Klukkunni var breytt í nótt. Nú er bara einn tími á milli Íslands og Danmerkur.

Það var yndislegt að vakna í morgun sem Sandy, allt var á sínum stað og auk þess hafði ég grætt klukkutíma í sólarhringnum.

Því var tilvalið að fara út með Vask, slá grasið og fara aftur út með skemmtilegum hóp af vinum. Ég hef örugglega státað af því áður á blogginu að hérna í Sönderborg búi svo margir hæfileikaríkir Íslendingar. Og maður notfærir sér það. Alveg hiklaust.

Á meðal okkar er ljósmyndari sem getur mögulega kennt okkur eitthvað. Mögulega. Við allavega nældum okkur í hann og kannski eigum við okkur einhverja von.

IMG_2147 IMG_2161 IMG_2171 IMG_2194 IMG_2215

Ég komst að því að myndavél er flóknari en öndunarvél. Nú á mig eftir að dreyma um myndavélastillingar og RAW í nótt. Í alla nótt. Góða nótt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *