Starfið mitt og nýrun.
Vinkona mín sem er að læra andalækningar segir að nýrun í manni bili ef maður er ekki sáttur við hvar maður sé. Það er langt síðan hún sagði mér þetta og ég spurði ekki nánar. Enda hef ég hingað til hallað mér meira upp að raunvísindum en andavísindum. Ég skildi þetta bara þannig að nýrun væru háð búsetunni. Þ.e.a.s. að heilbrigði nýrnanna væri háð því að maður væri sáttur við hvar maður byggi. Samkvæmt andavísindunum.
Því hef ég talið að nýrun í mér séu hólpin. Ég veit, ég veit. Veit að stundum hef ég gefið óþarflega mikið í skyn hversu flöt og þröng Danmörk sé. Hversu stórfenglegt og víðfermt Ísland sé. Hversu erfitt ég eigi með andardrátt þegar ég keyri í örvinglun um sveitir Danmerkur til að finna stað þar sem hundurinn minn getur hlaupið um frjáls án þess að trufla nokkurn mann. Hversu stutt sé í tárin við lendingu í Keflavík þótt það sé hrollkalt að horfa út. Þarna hélt ég reyndar aðeins aftur að mér í lýsingunni. Ég skal alveg viðurkenna að ég hef sogið laumulega upp í nefið við lendingu, og í flugtaki líka.
En samt er ég sátt við að búa í Danmörku. Það er eitthvað við þetta umhverfi.
Andalæknaneminn hún vinkona mín horfði á mig um daginn og spurði mig þrisvar hvort ég væri sátt í vinnunni? Hvort ég þrifist í starfinu? Og hvort ég pissaði eðlilega…? Ég sagði já, já, já og já! Að allt væri í himnalagi. Datt ekki hug að fara að segja annað við hana, enda trúi ég ekki á neitt nema blóðgös og röntgenmyndir. Það var hún sem sagði við mig um árið að hjónabandið lægi mestmegnis í mjöðmunum og að þær skekktust við hjónabandserjur.
Nóttina eftir heimsóknina um daginn svaf ég ekki. Mér varð ljóst að vinkona mín væri orðin norn með skyggnigáfu. Hún fann á sér að ekki væri allt með felldu, að ég væri mögulega að gefa hjúkrunarfræðingsstarfið upp á bátinn.
Þannig er mál með vexti að Gjörgæslunni áskotnaðist skynfæragarður um daginn. Þetta var voðalegt húllum hæ með kampavíni og tilheyrandi fjölmiðlafári, enda löngu sannað sig og sýnt að gjörgæslusjúklingar hafa afar gott af að komast út undir bert loft. Við höfum notað veröndina okkar óspart í mörg ár en hún hefur verið lítið fyrir augað.
Núna varð breyting á. Skjólveggir risu, plöntum úr öllum heimshornum var plantað og fjarstýrður og upplýstur gosbrunnur var afhjúpaður með tilþrifum.
Heiðurinn af herlegheitunum á frægur landslagsarkitekt.
Ég ÆTTI MIKIÐ FREKAR að vera LANDSLAGSARKITEKT en hjúkka.
Það hefði verið mikið skynsamlegra.
Og auðveldara.
Það krefst engra stjörnuryksfræða að teikna upp einn skynfæragarð. Síður en svo. Ímynda mér að þetta sé álíka verkefni og að lita eina blaðsíðu í litabók sem keypt er í Eymundsson. T.d. eina blaðsíðu í Leynigarðinum. Leynigarður – Skynfæragarður. Getur ekki verið mikill munur.
Ekki það að sé eitthvað flókið að vera hjúkka og síður en svo einhver geimvísindi.
Þetta er reyndar ekki mynd af minni deild en gæti tæknilega séð verið þaðan. Það vantar öndunarvélina á þessa mynd.
Ég er reyndar ekkert spes í að teikna. En fín í að raða.
Því gæti ég líka látið Fúsa teikna.
Og ég gæti litað. Eða nei annars, best að láta hann gera bæði. Hann er betri í svona en ég.
Ég gæti raðað og hannað.
T.d. gæti ég hannað eitthvað einfalt. Eitthvað sem tæki ca. 7 mínútur að hanna og 70 mínútur að framleiða. Efniskostnaður væri í algjöru lágmarki. Kannski bara 17 krónur. (Allt í dönskum hingað til).
T.d. gæti ég hannað eitthvað líkt þessari flís.
Eins og við fengum í skynfæragarðinn fyrir hægra augað. Við þorum ekki að stíga á hana. Hún kostaði nítíu og fimmþúsund, fjögurhundruð og sextíu ISK.
Þessi er fyrir hitt augað og kostaði það sama.
Við fengum þrjár sem ég skil ekki því okkar sjúklingar eru ekki með þrjú augu þótt þeir geti verið mjög veikir og hafa því ekkert við þriðju flísina að gera.
Bara þessar þrjár flísar kostuðu tvöhundruðáttatíu og sexþúsund, tvöhundruð og áttatíu íslenskar krónur. Hvur andskotinn. Margföldum þá upphæð með hálfu hundraði eða vel það og þá er komin mynd af hversu mikið einn skynfæragarður kostar.
Ef ég ber saman tímann sem fer í að hanna og framleiða svona fínar, sléttar og einlitar flísar og tímann sem tekur mig að greiða úr slönguflækjunni á myndinni að ofan frá gjörgæslunni og síðan tímalaunin í báðum verkefnum, þá fæ ég alvarlegan verk í nýrun! Ég er á kolvitlausri hillu í lífinu. Ég pissa hreinlega ekki!