Þættir eða bækur?
Um miðjan september bað ég facebookarvini mína um að segja mér hvaða þætti ég ætti að horfa á þar sem mér tókst loksins að klára Mad Men þættina eftir 12 mánaða áhorf.
Ég setti fram útilokunarskilyrði þar sem þeir þættir sem ég ætla að horfa á, verða að vera rosalega góðir (eins og Mad Men) og vandaðir (eins og Mad Men) þar sem ég kemst yfir svo fáa á svo löngum tíma.
Það sem ég kem til með að horfa á má ekki vera:
-of væmið.
-ílla leikið
-ílla tekið upp tæknilega séð
-hlátur á bakvið
-geimverur
-slím (erotískt slím er reyndar í lagi)
-mikið rifrildi né málæði.
Auk þess urðu þeir að finnast á Netflix. Gleymdi reyndar að taka fram að það varð að vera danska Netflix. Allt varðandi svona þáttaáhorf þarf að vera einfalt fyrir mér. Nenni ómögulega að kveikja á sjónvarpstölvunni, né tengja mína í sjónvarpið. Nenni heldur ekki að horfa á þætti í tölvunni. Bara í sjónvarpinu. Þessvegna get ég bara horft á danska Netflix því það er í Apple tv´inu. Einfalt og þægilegt.
Myndi aldrei niðurhala né „stríma“ þætti eða mynd. Kann það ekki. Nota því ekki Pirate Bay, Popcorn time né aðrar torrent síður eða hvað þetta heitir. Ég er engill að himnum ofan. Eða… ég vel mér mín ólöglegheit af kostgæfni.
Takk fyrir öll svörin og alla hjálpina þarna um daginn. Um þrjátíu svör. Reyndar féllust mér hendur þegar það voru komnar yfir sjö mismunandi tillögur af þáttum. Þá hringsnérist allt í höfðinu á mér og ég fór bara út í garð. Hef líklega fengið snert af valkvíðaröskun. Hógværðin alltaf hreint í fyrirrúmi. Ég fékk valkvíðaröskunarkast hvorki meira né minna og missti alla yfirsýn á þessum þáttamöguleikum.
Fjórum dögum seinna, gjóaði ég augunum á þetta og valdi það sem oftast var nefnt. Eina seríu fyrir mig og eina fyrir okkur hjónin.
Síðan þá erum við hjónin búin að horfa á einn þátt og ég sjálf á einn og hálfan.
Stundum er ég í fríi á virkum dögum. Þá get ég ekki beðið eftir að fara að sofa kvöldið áður því ég hlakka svo til að vakna og vera ein heima. Stundum geri ég plan:
- sofa út
- ekki fara í bað (nema flugurnar láti mig ekki í friði)
- klæðast bómullarleggings og stuttermabol
- horfa á þætti
Þetta plan helst oftast vel, ég sef út og fer ekki á fætur fyrr en Fúsi fer í vinnuna rétt fyrir átta. Þarf ekkert alltaf í sturtu því of mikið vatn og sápa getur verið varasamt. Ég þekki stelpu sem leystist upp vegna of margra sturtuferða. Ég get alveg tekið upp á því að vera í bómullarleggings (að sjálfsögðu flottum, t.d. í hermannalitunum) og svölum stuttermabol svona heima fyrir ef ég á ekki von á neinum. En þetta síðasta… að horfa á þætti. Þar fer síðasti hluti plansins í vaskinn. Iðulega. Mér finnst afskaplega fjarstæðukennt að horfa á sjónvarpið um hábjartan dag. Nema ég sé fárveik (með blóðeitrun eða þaðan af verra). Ég kenni uppeldinu um. Þessu kristilega. Eða barnaþrælkuninni sem ég varð fyrir í bernsku. Ég var endrum og eins látin moka skít um hábjartan dag. Eða brynna ánum. Eða halda löppum við járningar. Eða raða heyböggum í hlöðuna með Þorsteini nágranna. Og það MÁTTI EKKI VERA BIL Á MILLI BAGGANNA. Blessuð sé minning föður míns. Honum var annt um velferð okkar barnanna því bil gat orsakað fótbrot já eða hrun.
Fúsi verður fimmtugur eftir sextán og hálfan mánuð. Þá verðum við mögulega búin að horfa á þessa „hjóna“ seríu.
————-
Er ykkur spurn? Hvað ég geri þá allan daginn sem ég er ein heima í fríi? Fyrst ég horfi ekki á þætti? Guð minn góður, ég get ómögulega farið að tíunda það hérna. Svona ykkar vegna. Nema það sem kemur í staðinn fyrir þáttaáhorf. Ef ég ætla að slæpast og slappa verulega af, þá les ég.
Þessar sex tók ég með frá Íslandi síðast. Bæði lánsbækur og einhverjar sem ég eignaðist. Það vantar reyndar sjöundu með á myndina. Sú sjöunda er „Rachel fer í frí“. Keypti hana til að styrkja lókalinn. Alveg ágætis afþreying. Nýkomin út á Íslandi. Nema að það var eitthvað sem truflaði mig. Svona tímalega séð. Það voru ekki snjallsímar í henni né facebook og þegar einhver sendi handskrifað bréf með póstinum, klóraði ég mér í hausnum og kíkti fremst. Bókin er nefnilgea skrifuð talsvert fyrir síðustu aldamót. Það kemur alls ekki að sök, bara betra að vita til að láta ekki truflast. Eiginlega er það svolítill kostur að hafa öll samskiptin í henni svona einföld og afslöppuð.
Grimmd eftir Stefán Mána. Hún er mikið betri en Skipið en ekkí eins góð og Svartur á leik. Hún byrjar vel, er hrottaleg og átakanleg. En flest svolítið út. Síðan smjattar fólk einum of oft á tungunni í sér í bókinni að mínu mati. Samt alveg fín, ekki meira en fín samt (þessi setning minnir á „toyota“).
Dalalíf, þessar eru nr. 3 og 4. Ekki byrjuð á þeim. En hlakka til. Það er orðið meira en hálft ár síðan síðast.
Himnaríki og helvíti, Harmur englanna og Hjarta mannsins. Er í miðri miðju bók. Og er afar þakklát fyrir veðrið hérna í Sönderborg þessa dagana, en það hefur sannarlega leikið við okkur. Sannkallað sólbaðsveður. Því veðrið í bókunum er hræðilega kalt. Það er stórhríð svo mikil að maður deyr ef stakkurinn verður eftir heima.
Þið þekkið það líklega þegar maður dettur inn í bækurnar og þær hanga á milli undir og yfirmeðvitundarinnar. T.d. þegar maður er að lesa góða glæpasögu og er alltaf á nálum. Getur heldur ekki beðið eftir að komast heim úr vinnunni til að halda áfram. Eða þegar ég var á seinni miðaldarbókinni eftir Ken Follett og fór til læknis og bað um upplífgandi pillur. Hann sagði mér að drífa mig að klára bókina og lesa síðan Bridget Jones eða eitthvað álíka. Fékk engar pillur.
Núna er stanslaus kuldi frá bókunum hans Jóns Kalmans í kringum mig. Í fyrri nótt vaknaði ég frosinn og það kvarflaði að mér að standa upp og finna náttföt. En nennti því ómögulega. Það hlýtur að birta til og hlýna í þessum bókum. Það getur bara ekki annað verið. Annars byrja ég að kynda kofann. Hvað sem Fúsi minn tautar og raular. Það er nú kominn oktober.
Alveg er hundurinn minn ótrúlegur. Hann er sú almesta gæludýramyndasprengja (photobomb) sem ég þekki. Treður sé inn á allar myndir sem ég tek í undir 50 cm hæð.
Og ef ég er hærra upp, fer hann bara upp á eitthvað. Eins og þarna…
Þarna toppaði hann sjálfan sig. Ég sem ætlaði bara að taka mynd af handklæðastandinum mínum fyrir handverksáskorunarbloggfærslu.