Fúsa dreymdi að hann væri orðinn…
Ykkur finnst Fúsi minn vera hinn rólegasti gaur, er það ekki? Þið hafið væntanlega þá mynd af honum í höfðinu, þar sem hann situr í sófanum með tölvuna í kjöltunni og laumar út einni og einni pólitískri skoðun á netið. Einstöku sinnum gargar hann þó hástöfum (á netinu) en það er bara ef minnst er á stefnu Ísraels gagnvart Palestínu, Carl Holst, Framsóknarflokkinn og hina kapitalismana, Ísrael í Eurovision, utanríkissefnu Bandaríkjanna og tittinn hann Putin.
Annars er hann heimakær (einum of), rólegur (oft svolítið svifaseinn), víðlesinn (mest um geimverur og geimryk), minnugur (því er nú ver) og ómatvandur (sem betur fer).
Hann stundar engar íþróttir enda ekki mikill garpur í þeim efnum. Nema þegar hann segir sjálfur frá. Hann á það til að eyða hálfri nóttinni í að hreykja sér af ótrúlegum fótboltaferli þegar hann spilaði með Huginn í Fellum. Hann var ekki einu sinni með legghlífar. Hann var 8 ára. En svo verður hann hundfúll þegar ég spyr afhverju Huginn í Fellum heiti Huginn. Og hvor hafi komið á undan? Huginn á Seyðisfirði eða Huginn í Fellum? Og hvað séu margir kílómetrar á milli Seyðisfjarðar og Fellabæjar? Hann verður meira en hundfúll.
Hann talaði líka mikið um listskautahæfileika sína á Urriðavatninu hérna í denn. Þá var hann líka 8 ára. Þangað til hann ætlaði að sýna okkur þessa Urriðavatnsskautalistir í Frederiksberg garðinum stuttu eftir að við fluttum til Danmerkur. Hann fór í skautana og stóð ekki upp. Ekki neitt.
En látum það nú liggja.
Seinna, á fullorðinsárum stofnaði hann og vinur hans tveggja manna Squash klúbb og spiluðu þeir sig sveitta í nokkur ár þangað til Fúsi varð fyrir ægilegum íþróttameiðslum sem eru enn þann dag í dag að hrjá hann. Þetta er gengið svo langt að nú er hann byrjaður að mæta í sjúkraþjálfun til heitasta sjúkraþjálfar í Sönderborg (sem er kona) og láta hana nudda sig. Þessi kvenkyns sjúkraþjálfari er dæmigerður múslimi; falleg, klár, skemmtileg, góð og kann sitt fag. Auk þess lætur hún hann fara úr buxunum þótt þetta snúist aðeins um hásinina. Fari það í bölvað. En ég treysti henni. Og honum.
Og þá komum við að kjarna málsins, eftir að ég nú er búin að útlista hversu rólegur og litlar íþróttir hann stundar í dag.
Honum dreymdi nefnilega draum í nótt.
„Dagný, mig dreymdi rosalega skrítinn draum“ var það fyrsta sem hann sagði þegar hann opnaði augun.
„Mmmm“ svaraði ég, ennþá sofandi. „Um hvað?“
„Mig dreymdi að ég væri orðinn leikfimisþjálfari fyrir bandaríska fjölskyldu. Hvað heldur þú að það þýði?“ spurði hann og ég heyrði að hann var spenntur.
„Tja ég veit það ekki, varstu einkaþjálfari“ spurði ég og fór að vakna betur. Þetta var nú engin venjulegur draumur að mínu mati.
„Já ég var eini þjálfarinn þeirra og þau voru mjög íþróttamannslega vaxin“ sagði hann og virtist brjóta heilann svo að í brakaði og bresti.
„Og hvað léstu þau gera?“
„Bara hlaupa eitthvað“
„Ekkert annað?“
„Jú og nokkrar armbeygjur“
„Og?“
„Og svo upphitun“ svaraði hann og vonaðist augljóslega eftir viðurkenningu frá mér, svona; já þetta var flott þjálfum hjá þér… nema ég sprakk náttúrulega úr hlátri.
„Léstu þau fyrst hlaupa og gera armbeygjur og síðan hita upp?“ Þetta fannst mér fyndið svona í morgunsárinu.
„Já, ég vissi ekki í draumnum hvernig átti að segja upphitun á ensku og var svo lengi að finna það út…“ Fúsa stökk ekki bros á vör.
Það eina sem hann hugsaði um var hvað draumurinn gæti þýtt. Ég hef reynt að googla „leikfimisþjálfari“, „upphitun“, „Amerísk fjölskylda“ og margt annað á hinum ýmsu draumaráðningasíðum en ekki orðið mikils vísari.
Vitið þið hvað svona draumur þýðir? Svona til að gamlinn minn fái hugarró fyrir komandi nótt.