Við hjónin erum að íhuga fæðingarorlof…

Ég er í fríi í dag. Fyrsti frídagurinn á virkum degi síðan í byrjun ágúst en þeir þarna í byrjun ágúst eru ekki taldnir með. Af þeirri einföldu ástæðu að ég var eins og skopparabolti. Þessar þrjár vikur í sumarfríi þar sem ég tæknilega var í fríi á virkum dögum í þrjár vikur eru heldur ekki taldnar með. Aftur af þeirri einföldu ástæðu að ég var þá eins og skopparakringla.

Í dag kom loksins DAGURINN sem ég er búin að vera að bíða eftir. Ég hef áður sagt ykkur það, en þessi frídagar á virkum dögum eru mér svo dýrmætir að stundum fer ég ekki í bað. Stundum fer ég ekki út fyrir lóðina. Oft kveiki ég ekki á útvarpinu. Engu. Ég á það til að dýrka þögnina og þakka almættinu fyrir að hundurinn kann ekki að tala. Kannski hefur það eitthvað með áreitið í vinnunni að gera, sem mér reyndar líkar vel því það þýðir athygli. En öllum að óvörum get ég lifað án athyglinnar í einn og einn dag. Eða nei, reyndar get ég það ekki.

Kl. var bara rétt rúmlega 7 í morgun þegar ég var orðin athyglisþurfi. Það var í Kóngavegsgarðinum.

Já á heilaga frídeginum mínum var ég komin niður í Kóngavegsgarð rúmlega 7. Fúsi vakti mig kl. 6.15 og bið mig um að skutla sér út á flugvöll. Hann var að fara í fyrsta skipti með flugfélagi okkar Sönderborgara (Alsieexpress). Það er nefnilega ekki eins mikill æsingur í honum eins og mér. Hann flýr ekki að heiman eins og ég þegar umhverfið byrjar að þrengja að. Hann tekur öllu með svo mikilli stóískri ró. En í morgun var hann svo spenntur að hann gleymdi að setja tappann á japanska dagkremið sem ég gaf honum um daginn. Hann skildi það bara eftir á miðju baðherbergisborðinu. Hann klikkast ef ég rusla svona til… Klikkast er mögulega aðeins ýkt, tuðar væri mögulega nærri lagi. En spenningurinn í gamla gaur varð til vegna þess að ég er svoleiðis búin að dásama þetta flugfélag  á allan hátt. Það þarf nú dálítið mikið til að setja hann úr jafnvægi þannig að hann gleymi að ganga frá kreminu sínu. En þegar ég minnti hann á að þiggja BÆÐI kaffi OG íste með jarðarberja og lakkrísbragði um borð, þá tók hann mannatöskuna sína og rauk út í bíl.

(Einhverntímann þyrfti ég að blogga um þetta flugfélag. Þá yrði yfirskriftin: „Hvernig tekst flugfélagi að láta fólk elska sig?“)

Þegar ég stóð síðan í bakaríinu kl. 06.50 fékk ég sms um að fyrrverandi fjármálaráðherra Danmerkur væri með honum í vélinni, þessi sem sendi mér persónulegu kveðjuna um daginn. Hvort ég bæði að heilsa?

Annars er morguninn búin að vera frábær, ég gerði undartekningu og fór í bað… langt. Með maska, djúpnæringu, naglalakki og tilheyrandi plokki. Það tók mig 3 klukkutíma.

–> (Smá auka innskot (og úr samhengi við hitt) um hvað ég er að upplifa akkúrat núna. Það var hvítur sendiferðarbíll fyrir utan innkeyrsluna mína rétt í þessu og þegar ég teygði hálsinn sá að það stóð Sygebilpræst (sjúkrabílsprestur). Ég reiknaði út á eldingarhraða að ENGINN nágranni væri heima, nema ég. Að þetta væri til mín. Nú ætti að fara að predika yfir mér. En þegar ég kíkti betur þá stóð Sygetransport (sjúkraflutningar, ekki samt með bláum ljósum) og mér létti því það engin ástæða til að transporta mér neitt. En þá sló það mig, kannski væri þýski nágranninn dáinn og það væri það versta sem gæti gerst í götunni minni þessa dagana því við erum að ég held, óvinir! Ég stórefast um að hann sé búin að fyrirgefa mér fyrir að hafa eyðilagt algjörlega fyrir sér svefninn aðfararnótt 16. ágúst (eina helvítis nótt). Þrátt fyrir að ég setti miða í póstkassa allra nágrannanna (sem ekki var boðið í afmælið) og beðið um skilning og þolinmæði fyrir látum og hárri tónlist í 12-14 klukkutíma, þá hringdi hann samt. Ég var að sjálfsögði ekki með símann á mér og því talaði hann bara inn á símsvarann. Hann benti mér á að klukkan væri orðin meira en miðnætti og að það væri komin tími til að lækka í tónlistinni. Þar sem ég brást ekki við (enda síminn inn í húsi), hringdi hann aftur stuttu seinna og spurði einnar spurningar; „er det forstået?“ (Er það skilið?). Síðan hringdi hann í Fúsa sem alltaf er svo pirrandi ábyrgur og bað hann um að lækka sem og hann gerði. Pirrandi samviska gagnvart nágrönnunum. En ég, sem er samviskulaus með öllu hækkaði allt í botn um það bil 2 mínútum seinna og girti svo græjurnar af með ragmagnsgirðingu sem ég ein komst í gegnum. En guð minn góður ef sygetransportbíllinn væri að sækja dáinn þýska nágrannann og allt óuppgert? Granninn myndi ganga aftur, kveikja á græjunum heima hjá mér nótt eftir nótt og hækka allt í botn. Ég yrði öryrki á endanum af svefnleysi. En til allrar hamingju dó engin í götunni minni, held að bílinn hafi farið götuvillt).  <–

IMG_1045

Í morgun þvoði ég líka þvottinn sem við fundum í þurrkaranum í gærkvöldi. Fúsa hafði misminnt tvemur dögum áður (á laugardag) og fannst endilega eins og þurrkarinn tæki um 25 kíló af þvotti og setti því allan þvottinn sem hafði hangið úti á snúrunni í 4 daga í mígandi rigningu í þurrkarann. Jæja, það var reyndar ekki mígandi rigning í 4 daga, en þegar sólin skein og þvotturinn þornaði, þá vorum við að gera eitthvað annað, t.d. að sóla okkur og gleymdum því þvottinum. Þurrkarinn gafst að sjálfsögðu upp því hann tekur bara 5 kg. Fullur af vatni og ló, stoppaði hann bara og ýlfraði. En við heyrðum ekki neitt, fyrr en í gærkvöldi. ‘

Mér tókst sem sagt að þvo þvottinn aftur í morgun og hengja hann út. Klukkan 15.00 byrjar að rigna samkvæmt veðurspánni.

Annars var bara fínt að fara í bað og naglalakka sig, ég blastaði Mugison í símanum mínum því ég heyrði um daginn að hann væri gott forsetaefni ásamt Jónasi Sig. En þar sem það er heldur unglingslegt að hlusta á símann sinn í botni á baðherberginu og reyni ALLT til þess að vera fullorðin og vel til höfð þessa dagana, þá sendi ég bara Mugison með tækninni í mína ástkæru hátalara, opnaði gluggann út á götu og kynnti borgina fyrir Mugison frá Ísafirði, ef til vill komandi Forseta Íslands. Ég hef aðeins verið að melta þetta; Jónas Sig. eða Mugison sem forseti. Háttvirtur Forseti, Jónas Sig. Hljómar ekki svo galið. Það myndu líklega mörg þjóðarsárin gróa.

Jónas Sigurðsson, tónlistarmaður

Jónas Sigurðsson, tónlistarmaður

Mugison-109

Og útlitskaflanum má nú ekki sleppa í þessu samhengi. Það væri mér ólíkt. Við skulum halda þessu á yfirborðslegu plani. Mugison eða Jónas Sig. sem forsetar. Maður myndi segja: Til hamingju Ísland, fyrir að hafa eignast gullfallega og manneskjulega þenkjandi forseta í fyrsta skipti á þessari öld. Já og kynþokkafulla í þokkabót. Sérstaklega þegar þeir eru lítið skeggjaðir. Ég er nefnilega ekki mikið fyrir mjög mikið og sítt skegg. Ég VEIT að það eru matarleifar í þeim og dauðar húðflögur og sviti og ryk og sót og þornað munnvatn. En samt má vera svolítið skegg… það er svo karlmannlegt.

Sumt fólk var/er með Ólaf Ragnar Grímsson í ramma og upp á vegg heima hjá sér. Ef þessir yrðu forsetar myndi ég gera slíkt hið sama og hafa þá í svefnherberginu. Báða mín megin. Sofandi eins og ballerína (hef ég sagt ykkur frá því? Að ég sef eins og ballerína? Geri það seinna) og örugg, velvitandi að þeir myndu vernda og vaka yfir þjóðinni minni.

Ég þyrfti ekki að punta fyrir jólin, rauða hárið hans Jónasar myndi lýsa upp heimilið eins og glóría. Já nei ég er ekki mikið fyrir mikið skegg en rautt hár… jesús minn… Guð einn veit að þar er viðkvæmi  punkturinn. (Einu sinni makaði ég tómatsósu í hárið á Fúsa og ætlaði að hafa gaman. Það varð ekkert gaman.)

Vaknaðu ég! Þetta er því miður bara draumur. Ansi góður draumur samt, er það ekki? Sem gæti alveg eins ræst eins og hvað annað. Það myndi henta mér vel að hafa tvo af tíu fallegustu karlmönnum Íslands sem forseta (já eða einn), fyrir utan allt hitt sem þeir hafa til brunns að bera (og nú er ég ekki að tala um kynþokkann þótt það sé synd að sleppa honum). Ég myndi taka áramótaræðuna upp á vídeó og horfa aftur og aftur.

Jesús, hvert er ég komin?

Ég ætlaði að blogga um kannski væntanlegt fæðingarorlof og enn einu sinni um flíspeysur en ég fór víst út af sporinu… Langt út af! Það verður þá bara næst.

Sorrý kæru lesendur. Þetta er orðið of langt. Takk fyrir í dag og eigiði hann góðan.

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *