Augnabliks status um vinnuna.
Já er ekki bara komin tími á sjúkrahúsblogg?
Svona í ljósi þess að ég er flutt aftur upp á sjúkrahús. Þannig líður mér. Fimm dagvaktir í röð geta auðveldlega murkað úr manni lífið hægt og rólega. Þótt það sé alls ekki leiðinlegt í vinnunni. Síður en svo. Það er aldrei leiðinlegt í vinnunni. Við finnum alltaf upp á einhverju skemmtilegu í annars stundum erfiðu umhverfi. T.d. í dag lét ég vinnufélugu mína taka töflu við geðrofi því hún sá páfagauka í málverkunum við innganginn á Sjúkrahúsinu. Við hin sáum enga páfagauka og þessvegna gleypti hún töfluna þegjandi og hljóðalaus. Seinna áræddum við að segja henni að það hefðu verið páfagaukar í öllum málverkunum, að þetta hefðu ekki verið ofsjónir. Hún brást hin rólegasta við enda vel lyfjuð af Serenase. Hún fyrirgefur mér vonandi með tímanum. Reyndar átti ég þetta inni hjá henni. Ég hafði planlagt stofugang með Ástarsögulækninum, þessum sem okkur öllum saman langar til að narta í vörina á. (En gerum það ekki). En stelpurófan, sem að auki er 16 árum yngri en ég, notaði tækifærið þegar ég brá mér frá með nemanum mínum og tók stofuganginn. Gleypti hann gjörsamlega. Sko stofuganginn. Mér fannst það frekar gróft gert. Því þegar ég kom til baka þremur klukkutímum seinna var allt búið og gert. Allt. Og Ástarsögulæknirinn á bak og burt. Ég sem ætlaði að segja honum brandarann minn. Sko the joke! Búin að segja honum marga en alltaf dregið að segja honum þennan besta. Búin að geyma hann til spari. En nei, það varð ekkert úr neinu í dag.
Annars eru læknarnir samir við sig og litlar breytingar þar. Gerum læknastatus en vegna fjölda lækna á deildinni og plássleysið á síðunni verður verður bara lítið brot af þeim nefnt. Byrjum á þessum þegar nefnda.
-Ástarsögulæknirinn. Hann fékk þetta viðurnefni árið 2011 þegar ég var á Vöknum því hann er gaurinn á forsíðum Rauðu seríanna. Þessara sem fjalla um dökkhærða myndarlega lækninn með tvær ljóshærðar í takinu.
Á Vöknum var hann kallaður til í tíma og ótíma. Við bjuggum til vandamál og hann var látinn leysa þau. Þótt vandamálin væru tilbúningur að öllu leyti. Hann fattaði aldrei neitt. Líklega hefur honum fundist við vera í það vitlausasta. Tæplega ári seinna varð ég samferða Ástarsögulækninum í flugi til Grænlands. Eftir það var allt blásið upp og enn meiri rómantík klínd á grey karlinn. Hann er einn af þeim sem koma og fara vegna menntunar og þessháttar aðstæðna. Nú er hann komin aftur. Við viljum allar vera svæfðar af honum. Erum mikið að velta fyrir okkur hvernig við komum því í kring án þess að setja okkur í mikla hættu með óþarfa aðgerð. Hann má líka setja sondu í gegnum nefið á okkur, leggja risastóran legg í æðina í hálsakotinu og jafnvel setja rör ofan í lungun á okkur og tengja okkur við öndunarvél. Það allra besta væri ef hann hlustaði okkur. Hann sagði mér brandara um daginn. Sá fyndnasti í mörg ár held ég bara. Þegar Danir heyra ekki, segja þeir „hvad?“ og það er borið fram sem „va“. Þannig að ef maður hittir konu sem heitir Gina og hún kynnir sig, er upplagt að þykjast ekki heyra og segja: Va? Gina. Þetta er kannski ekki beint brandari, heldur bara sniðugt ráð. Sem er óhemju fyndið. Finnst mér. Vagina.
-Klessan. Hann er einn af mínum uppáhalds. Hann er þýskur, keyrir mótorhjól, er yfir tveir metrar á hæð og um hundrað kíló. Það fer honum vel. Nema þegar hann brýtur heilann, þá iðar hann í klossunum sínum og stundum er ég hrædd um að hann detti úr þeim og þar með detti á mig. Þótt það væri í sjálfu sér í góðu lagi, er ég hrædd um að ég lifði það ekki af ef að ég væri ekki tilbúin.
Þegar ég byrjaði á Gjörinu var hann tiltölulega nýr í Danmörku og því í óða önn að læra dönsku. Ég stóð og talaði við tvítyngda hjúkku og Klessan hlustaði á. Ég sagði við þessa tvítyngdu: „já þú ert þá tvítyngd (tosproget)…“ Þá hvíslar Klessan að hjúkkunni á þýsku: „afhverju segir hún að þú sért ristað brauð (toast brot)?“
-Doktor typpalingur. (Já maður getur undrað sig á uppnefninu, en það er löng saga á bak við það, þó ekki kynferðisleg). Hann er líka svolítið uppáhalds. Líklega afþví að hann hlær að öllu sem ég segi og geri. Það líkar mér vel.
-PólskiDoksi. Hann hætti. Ég gæti grátið. Sem betur fer erum við með annan pólskan. En það hefði verið betra með tvo. Einn Pólverji er ekki nóg.
Það eru líka mikið af kvenkynssvæfingarlæknum hjá okkur. Þær eru meira og minna svo fallegar að ég er bullandi afbrýðissöm. Eldgamlar sumar (langt yfir 60tugu) og algjörar bombur. Tala helst ekki við þær.
Já, svona er nú það.