Íslandsferðin – 1. hluti.
Síðastliðin Íslandsferð var um margt öðruvísi en ég er vön. Hún var hreinlega hraunuð. Og það vegna þess að ég sá svo mikið hraun á fáum dögum.
Þetta byrjaði í Keflavík við lendingu. Við pabbi vorum sótt af lillanum (Magga litla bróðir), sameinuðumst svo mömmu og fékk ég flatbrauð með hangikjöti. Síðan var lagt í´ann austur. Á húsbíl. Það var nú ekkert sem ég hafði nauðað um í langan tíma og allra síst þegar ég sá að þetta var Fíat. Ég er nefnilega alls engin Fíat aðdáendi. Síður en svo.
En ég gegndi, raðaði öllu dótinu mínu í hillurnar og skápana og bjó um rúmið. Settist þar næst undir stýri því ekkert leist mér á að láta ellismellina vera fikta of mikið í vökvalausu stýrinu. Ég komst í gegnum göngin, þá varð að skipta.
Síðan komumst við í Borganes, þar varð aftur að skipta.
Þarnæst í Staðarskála, þar sem pabbi tók við.
Ég sofnaði afturí áður en pabbi setti bílinn í þriðja gír.
Mamma keyrði frá Blönduósi í Varmahlíð.
Pabbi tók aftur við í Varmahlíð og keyrði til Akureyrar.
Þetta fullorðna fólk er svo skrítið… það þarf alltaf að vera rétta úr sér.
Á Akureyri þótti pabba hann hafa lagt sitt af mörkum, kvaddi og steig út.
Það var nú ekki laust við söknuð þegar hann fór. Það var nefnilega svo mikill fjölskyldufílingur í húsbílnum. Pabbinn, mamman og sameiginlega einkadóttir þeirra.
Það voru engar myndir teknar því ég gat alls ekki munað í hvaða húsbílshillu ég hafði sett myndavélina. Þessvegna bara tvö til þrjú snöpp (snapchat eða spjattpjatt). Eða urðu þau þrjúhundruð? Æ ég man það ekki, en geymdi hvort eð er bara eitt. Sem þið sjáið ef þið smellið á vídeóið.
Mamma vildi síðan sýna mér helsta stolt Akureyrarbæjar sem að ég hélt að væri kirkjan eða Gránufélagsgatan en nei, þá var það Rúmfatalagerinn. Og Guð minn Almáttugur! Ég hef aldrei á ævi minni komið inn í svona stóran Rúmfatalager. Á tveimur hæðum og allt. Rúmfatalagerinn okkar hér í Sönderborg er álíka stór og handklæðadeildin á Akureyri og þetta eru ekki ýkjur. Samt þjónustar litla krubban hérna um 80.000 manns, auk annarra sem slysast framhjá. Á Akureyri þurfti ég á gps-inum í símanum að halda. Því ekki hafði móðir mín neina einustu hugmynd um hvernig maður kæmist út úr þessari bútík. Það var þarna sem ég komst að því að það hefði verið frekar óheppilegt ef maðurinn minn hefði verið sonur móður minnar. Þau eru nefnilega álíka áttavilt bæði tvö.
Við réttum aðeins úr okkur í Bárðardal…
Og þessi þarna fremsti með gula trefilinn fór að gefa mömmu auga og meira að segja blikka hana. Ég greip inn í og stöðvaði yfirvofandi atburðarrás.
En nóg um það. Við mamma stungum okkur á bláum speedo sundskýlum í Jarðböðin við Mývatn eftir að hafa kríað út öryrkjaafslátt. Þau trúðu nefnilega að ég væri einfætt. Ótrúlega indælt starfsfólk þarna. Eftir þetta fína og hræbillega bað keyrðum við í gegnum hnausþykkt myrkrið á Fjöllunum á laugardagskvöldi heim í Eiða.
Daginn eftir buðu Sessa og Maggi mér á menningarrúnt inn í Hérað. Þau eru svolítið uppáhalds þessa dagana. Við fórum á menningarlega tónleika.
Og á menningarlegan sveitabæ lengst inn í dal.
Þetta var á sunnudeginum.
Á mánudeginum settum við mamma bensín á torfærujeppann hennar og héldum í tveggja daga ferð upp á hálendið ásamt hundinum Snotru. Mamma sem alltaf er svo fyrirhyggjusöm, hringdi upp í Sigurðarskála í Kverkfjöllum til að athuga hvort ekki væri bongó blíða þarna upp frá svona almennt.
„Já sæll, Anna hérna. Ég er að fara í Holuhraun með dóttur minni, við erum á Toyoyta Yaris…“. Þetta fannst mér náttúrulega mjög fyndið. Mamma er nefnilega ekkert að hengja sig í smáatriðin. En nóg um það, hún verður eflaust stórhrifin þegar hún les þetta og sér að ég geri grín að henni, en það er líklegast bara fínt, þá er hún komin í harða samkeppni við tengdasoninn um athyglina í blogginu mínu.
Ferðin upp á hálendið var alveg yndisleg. Alveg eftir mínu höfði. Lítið um fólk og annan hávaða. Ef ég þarf nauðsynlega að gera upp á milli staða, þá bera Hvannalindir sigur úr bítum. Einmitt vegna þagnarinnar, fólksleysisins og ekki síst sögunnar. Magnþrunginn staður í lágskýjuðu veðri sem fer vel að fá að vera svona mikið í friði.
Annars eru myndir úr ferðalaginu hérna. Linkurinn krefst að þú sért á facebook.
Eftir þetta ferðalag kom miðvikudagur og þá gerðist fleira skemmtilegt. Meira um það síðar.