Eftir afmæli -þriðja færsla… (þetta ætlar engan endi að taka).
Ég þekki fáa eða engan sem hafa haft eigið afmæli á heilanum eins og ég… Bæði fyrir og eftir. Málið er að ég nýti bloggið sem skjalasafn. Með þessu er ég að skrásetja skemmtiatriðin. Þó ekki öll, bara brot. Bara frumsamda texta og myndbönd. Ræðurnar, uppistandið og önnur sprell verða að vistast sem minningar um aldur og ævi.
Þegar kom að því að skipuleggja afmælið mitt fyrir alvöru kom ekkert annað til greina en að velja Beggu K og Stínu K sem veislustjóra. Sú ákvörðun var hvorki skyndihugdetta, þvingun né óígrunduð. Jú reyndar óígrunduð. Ég þurfti ekki að spá neitt í því. Það kom bara ekkert annað til greina.
Kannski hugsið þið með ykkur -afhverju tvo veislustjóra? Var þetta það merkileg veisla?
Já það mátti ekki vera minna. Það er stórmerkilegt að verða fertug. Fyrir utan það var ég veislustjóri í þeirra fertugsafmæli fyrir þremur árum og nú var komið að skuldadögum.
Begga og Stína sem eru góðar vinkonur mínar, tóku hlutverkinu með stóískri ró og tilheyrandi alvarlegheitum. Þær stjórnuðu dagskránni af nákvæmni og góðu skipulagi, auk þess að sjá til þess að allir væru með á nótunum, bæði Íslendingar og útlendingar.
Að mínu mati stóðu þær sig frábærlega, ég varð barasta meyr undir það síðasta. Guð minn góður. Þegar dagskránni lauk, laust eftir miðnætti, þurfti ég að bregða mér á snyrtinguna og púðra á mér nefið. Þær komu mér svo sannarlega á óvart. Afmælið byrjaði kl. 17 og þegar þær tóku við, kannski um 18.30, tilkynntu þær að það væri heldur betur pláss fyrir fleiri atriði. Ég varð bara vandræðaleg og var viss um að engin héldi tárvota ræðu nema mamma. Eins og ég greindi frá hérna. Þar sem ég segi frá skemmtiatriðinu sem ég pantaði í mína eigin veislu. Já, dagskráin kom mér heldur betur í opna skjöldu. Ég hef alltaf vitað að ég ætti góða vini og fjölskyldu en að allt fólkið mitt væri svona frjótt og frábært… Vá! Ef það hefði verið tekin röntgenmynd af brjóstkassanum á mér þetta kvöld, hefði komið í ljós að hjartað hefði verið fjórum númerum of stórt. Það næstum sprakk. Þetta var bara einum of. Þetta kvöld var eitt af þremur bestu kvöldum lífs míns.
Og það er að miklu leyti veislustjórunum tveimur að þakka. Og ekki orð um það meir.
Jú eitt orð í viðbót. Þær sömdu lag um mig sem mér fannst óhemju skemmtilegt. Þær bjuggu líka til myndband. Þið verðið að horfa til enda… Þetta eru karlarnir sem búa í blogginu (og snappinu) mínu (það vantar bara Leonard Cohen).
Fertugsafmæli Dagnýjar ágúst 2015
Lag: SS sól (Halló ég elska þig).
Það var um ágústkvöld að Dagný kom í heiminn
Þú varst svo guðdómleg að þú lýstir himingeiminn.
Og tíminn, hann flaug og þú gekkst um eins og hálfviti
En það er svo yndislegt hvað það rættist nú úr þér.
Halló, svo skemmtileg þú ert (í staðinn fyrir oh oh oh)
Halló, þú dálkahöfundur
Halló, frumkvöðlafræðingur (í staðinn fyrir oh oh oh)
Gamli gaur og þú, þið byggðuð ykkur bú.
Dætur ykkar döfnuðu og þær léttu ykkar lund
En það var ekki nóg svo að þið fenguð ykkur hund.
Úhúh.. hvað lífið getur verið svo yndislegt með þér.
Halló, eldfjallafræðingur (í staðinn fyrir oh oh oh)
Halló, þú líkamsræktarfrík
Halló, víkingasundgarpur (í staðinn fyrir oh oh oh)
Halló, hjúkrunarfræðingur (í staðinn fyrir oh oh oh)
Halló, þú elskar ljósmyndir
Halló, menningarfrömuður (í staðinn fyrir oh oh oh)
Halló, bleika bjútí dís
Halló, þú hlaupadrottningin
Halló, við elskum þig oh oh oh.
Lag: SS sól (Halló ég elska þig).
Teksti: Kristín (aðstoðarmaður Oddný)
Leiðrétting og villuleit: Páll Birgis, Berglind, Stefán, Þórey og Lói.
————————————————————————————
Eiginlega vona ég að gömlu kennararnir mínir lesi fyrsta erindið…
Síðan er það myndbandið þar sem fyrrum fjármálaráðherra Danmerkur ásamt Boga og Stephan settu rúsínuna í pusluendann. Risastóra rúsínu!