Eftir afmæli – fyrsta færsla.
Ég er bókstaflega enn í skýjunum eftir velheppnaða afmælisveislu um síðustu helgi. Vissuð þið ekki annars örugglega að ég væri að fara að halda afmæli? Einhvern veginn stórefast ég um að það hafi farið framhjá nokkrum manni…
Já ég er í skýjunum og kem líklegast ekkert niður aftur fyrr en fer að vora.
Ég hreinlega elskaði allt við þetta kvöld og þessa nótt. Og grét krókódílatárum þegar strákarnar tóku tjaldið niður daginn eftir ásamt öllum skreytingunum og ljósaseríum. Tilfinningin var svipuð og ef þeir hefðu slitið úr mér hjartað. Það er svona þegar talsverð vinna er lögð í heildina og allt gengur upp.
Ég tók enga einustu mynd og treysti því á aðra. Ég bíð afskaplega spennt eftir annarra manna myndum. Reyndar er ég búin að fá um 300 frá vini okkar Palla sem byrjaði að taka rétt fyrir miðnætti og fram undir morgun en hef ekki enn birt þær því það tekur tíma að ritskoða svona tökur almennilega. Það myndi henta best að setja þær út kl. 4 að nóttu til. Þegar ég væri vel í því. Þær eru svoldið hressilegar margar hverjar.
Annars óttaðist ég mikið að þetta yrði rólegheitar partý og að enginn myndi grínast neitt í mér, nema kannski mamma með ræðu um hversu mikill ormur ég væri. Sem og hún gerði.
Því pantaði ég bara skemmtiatriði. Hvað annað. Ég pantaði heilan karlakór. Uppáhalds karlakórinn minn. Alltaf þegar þeir troða upp, verð ég eins og rifsberjagel. Ég bað þá um að taka það sem þeir eru bestir í en það eru hin ýmsu krummalög. Uppáhaldið mitt eru Krummavísurnar sjálfar.
En þessir gaurar komu mér heldur betur á óvart! Þeir bættu við prógrammið.
Textinn er eftir Einar Rúnars góðan vin og Keflvíking. Lagið er Krummavísur.
Dagný bloggar neti á
Kaldri vetrarnóttu á
Gerir grín að mér og þér
Og aðallega Fúsa
Fúsa sínum ekki góð
Háð og spott af miklum móð
Hvað er karl að smíííða
Fær ekki að – XXX
Sjúddirarírei, sjúddírarírei
Fær ekki að ríða fagri mey.
Austfirðingur Dagný er
Á sumrin gjarnan þangað fer
Gengur upp að hnjánum
Leitar hún að ánum
Meeeee. Meeee.
Lömbin austra læris laus
Aumingjarnir eru á haus
Pöntuð voru í veislu hennar
Ásamt miklu víni
Skál, Skál
Í skógi hleypur meðal kvenna
samt þær ekki alltaf nenna
Hlaupa drottning hlaupa
Hlaupa drottning hlaupa
Fatapóker
Pussi Riot
Kinky Ladies
Free the Nipples.
Hlaupa Dagný hlaupa.
———————————————————-
Já ég hafði mikið gaman af og þótti óskaplega vænt um þetta. Svona er að búa í Sönderborg!