39 og svo…
Það sem þessi tími líður. Og nú er fyrri afmælisdagurinn minn að renna sitt skeið. Ekki það að honum hafi verið hleypt mikið á skeið. Ég fann afskaplega lítið fyrir honum. Ég fór á fætur um klukkutíma á undan og var var búin að útbúa morgunmat þegar hann loksins byrjaði að anda eðlilega. Hann minntist ekki orði á afmælið mitt. Á öðrum kaffibolla benti ég honum á að ég ætti mögulega afmæli í dag. Hann sagði: „ha ha“ án þess að brosa og hélt áfram að lesa fréttirnar á símanum sínum. Um það bil 15 mínútum seinna kom ég þessu aftur að. Hann sagði hmm og bað mig um að hella meira kaffi í bollann sinn.
Klukkutíma seinna spurði ég hann með tárin í augunum hvort hann ætlaði virkilega ekki að óska mér til hamingju með afmælið?
-En þú átt ekki afmæli í dag.
-Jú það eru fimmtíu prósent líkur, svaraði ég.
Hann sagðist ekki þekkja neina aðra sem krefðist þess að eiga tvo afmælisdaga. Hann sagði að þetta jaðraði við frekju.
Ég er þannig séð ekkert að krefjast tveggja afmælisdaga en fræðilega séð þá á ég tvo. Hvað sem tautar og raular. Það er á engan hátt mér að kenna. En það er lágmarkið að manni sé óskað til hamingju á báðum. Í það minnsta af eiginmanni og móður. Eiginmaðurinn gaf sig á endanum og óskaði mér til hamingju hlaupandi niður stigann. Mamma minntist ekki orði á daginn. Ég ákvað að vera ekkert að bora í það. Það var jú hún sem var ekki alveg með á nótunum og gleymdi að fylgjast með tímanum þegar hún fæddi mig.
Þetta er dagsatt og hef ég á tilfinningunni að ég hafi bloggað um þetta cirka 18 sinnum áður. Sama sagan ár eftir ár.
Fæddist í fylleríinu á Seyðisfirði á miðnætti aðfaranótt laugardags um Verslunarmannahelgi. Allir í fæðingarherberginu voru í svo miklu stuði að það spáði engin í klukkunni. Bara endalaus glens og gaman, ef ekki glaumur líka. Mamma fékk að velja afmælisdaginn minn. Það voru verðlaunin fyrir að hafa fætt mig frekar heilbrigða, allavega með tíu fingur, tíu tær og einn haus og allt rétt staðsett.
Þessvegna er afmælisdagurinn minn annar ágúst.
Annar ágúst. Prófið að segja þetta upphátt. Eða annan ágúst. Flott? Já ég veit það. 2. ágúst er hljómfagrasti afmælisdagur ársins. Líka á dönsku og það er ekki sjálfgefið. Og einni sá skriffagrasti. Það er óþarft að ræða það frekar.
Í dag er síðasti dagurinn þar sem ég er á fertugsaldrinum. Eða í tredverne á dönsku.
Ég er búin að bíða eftir morgundeginum í 18 mánuði.
Ein í vinnuni segir að það sé ekkert merkilegt að verða fertug. Að maður finni ekki neitt. Engin breyting. Engin þroskaaukning. Ekki neitt. Bara afmæli og svo er allt við sama heygarðshornið.
Öll hin segja að það sé meiriháttar að verða fertug. Alla vikuna hef ég verið að fá fyrirfram afmælisfaðmlög og í gær fór ég heim með gullgjöf. Því þeim fannst það fullorðins og hæfa mér vel. Muniði, ég var að rembast við að greiða skuldina mína í gjafakassann til að ég fengi gjöf fyrir 500kall með góðri samvisku. Það tókst.
En svona er nú tilveran undarleg. Síðasti dagurinn sem þrjátíu og eitthvað. Eða bara einn klukkutími. Ekki það einu sinni. Síðastliðinn mánuð hef ég verið að undirbúa mig andlega. Setið í lótusstellingu kvölds og morgna, andað reglulega og reynt að horfa inn í framtíðina ásamt því að hvíla betur í sjálfri mér. Grín… ég hef ekki haft neinn einasta tíma til að sitja í lótus og get það örugglega ekki því ég er stirðari en girðingarstaur.
Ég hef bara verið að chilla heima í málningarlykt, stillassadansi, afmælisveisluundirbúningi og endalausri vinnu. Húsið er gjörbreytt og gjörgæsluvinnustundirnar orðnar um það bil 220 síðustu fjórar vikur. 220 eru reyndar ýkjur en mér finnst samt eins og þær séu um 220.
Á milli stríða eyði ég alveg heilum helling af sekúndum á snapchat við að fylgjast með landbúnaðarstörfum á Íslandi. Ég hef áður auglýst eftirfarandi en ungu bændurnir eru alveg stórskemmtilegir. Fúsi spyr hvernig ég nenni að fylgjast með heyrúllukeyrslu og kúm á beit. Hann skilur þetta ekki, enda uppalin á breiðgötu Fellabæjar. Með sjoppu í nágrenninu.
Hann skilur ekki þegar ég kem með símann og vill sýna honum Kistu en það er afbragðs mjólkurkýr ekki langt frá Skjálfanda. Þar sem ég hef ekki tengst neinni kú síðan Rjúpa heitin var og hét, þá er ég farin að halda upp á Kistu á snapchattinu. Merkilegur andskoti. Eða ekki. Kannski bara aldurinn.
Ef ég ætla ekki að blogga inn í raunverulegt afmælið mitt, verð ég að hætta núna, fara að sofa og vera hress á morgun því ég ætla að vera að heiman. Ef það er ekki þroskað þá veit ég ekki hvað.
Góða nótt og njótið góða veðursins á morgun með mér því ég pantaði það spes fyrir ykkur.
P.s. Svona litum við vnkonurnar út fyrir ári síðan.
Núna er ég með örlítið síðara hár, ekki þær.