Aldís á stefnumóti

IMG_1531Aldís er að fara á stefnumót í kvöld. Ég má alveg örugglega alls ekki segja ykkur frá því, hvað þá blogga um það, svo endilega hafið ekki hátt um þetta. romantic-date-on-the-beach

Ég ímynda mér að stefnumótið sé eitthvað í líkingu við þetta…

Ég hef mínar skoðanir og jafnframt afar skynsömu plön varðandi tengdasyni framtíðarinnar. Ég er líklegast alveg ósköp venjuleg móðir. Vil dætrum mínum það allra besta og veit einnig hvað þeim er fyrir bestu.

Ég held fast í að Íslenskir tengdasynir séu besti kosturinn. T.d. týpan í gönguskóm og með vind í hárinu. Ég bjó til uppskrift síðastliðið sumar sem er enn í fullu gildi. Hún er hér.  

Aldís er frekar róleg í tíðinni og fer ekki á stefnumót á hverjum degi né heldur í hverri viku. En er með augun opin og segir mér frá því sem fyrir þau ber. Ég held dauðahaldi í vonina um að Ísland komi á einhvern hátt við sögu þegar hún nefnir einhvern mögulegan. Eins og t.d. þegar hún hitti Balder á Tinder… Balder bjó 150km í burtu frá Sönderborg og átti íslenska hesta og heillaðist af Íslandi. Ég sagði: „gríptu hann!!! Ég skal skutla þér! Þú mátt fá bílinn lánaðan! Ég skal flétta faxið á hestunum hans! Ég skal hjálpa honum að járna! Ég skal gefa honum hest! 17 vetra jarpan klár sem töltir upp á 10!“ En Aldís var ekki nógu hrifin og harðneitaði að gefa honum séns.

14719

Seinna rakst hún á hálfan Færeying og hálfan Dana. Jááá það gæti nú verið eitthvað. Færeyingar eru yndislegir eins og eyjarnar þeirra. Auk þess hefði hann skilning á að vera ekki alveg Dani í Danmörku. Auk skilnings á tvítyngdi og heimsóknum til föðurlandsins í stað Mallorka. Börnin yrðu 1/4 Danir, 1/4 Færeyjingar og 1/2 Íslendingar sem væri náttúrlega bara stórfínt. En nei, Aldís fór ekki einu sinni á stefnumót með honum! Ég hefði getað grátið.

Síðan, ekki alls fyrir löngu sagði hún mér frá voðalega skemmtilegum strák í vinnunni sem væri hálfur Íri og hálfur Þjóðverji en byggi í Danmörku. Ég sá strax að hann væri nú eitthvað fyrir Gamla Gaur. Írland og Þýskaland! Uppáhaldslöndin hans. Aftur, viss skilningur á að vera útlendingur í Danmörku og hversvegna ekki allir borða Ris ala mande í eftirrétt á jólunum.

En nei, Aldís varð ekki að ósk minni. Hún hefði átt að heita Baldís því hún er oft svo baldin. Gegnir engu af því sem ég segi og ráðlegg henni.

Sem er alveg merkilegur andskoti því hún ætti að vita að ég með mín næstum 40 ár á bakinu, er gangandi ráðabanki þar sem kostar ekkert að taka út. Þetta unga fólk í dag!

Og afþví að hún hefur ekki hlustað á mig, situr hún núna niður á höfn og deitar Dana! original

(nei, myndin er ekki af þeim, mér sýnist þetta vera Kínverjar. Ég tók allar myndirnar af netinu þar sem ég nennti ómögulega að elta þau með myndavélina…) 

En bót í máli er, að þrátt fyrir að þetta sé Dani, heitir hann Þór. Sem er mjög fínt því mér svíður í tunguna ef ég þarf að segja Børge eða Rasmus (borið fram Grgrasssmússs með mjúku géi). Rasmus Kirkegaard. Rasmus Kirkjugarður! Eða Melgaard. Hveitigarður! Aldís Anna Sigfúsardóttir Kirkjugarður??!?? (Fyrir utan að hún myndi að sjálfsögðu aldrei taka upp fjölskyldunafn makans því það er ekki í tísku lengur. Nema… hann myndi einnig taka upp hennar föðurnafn).

Annars gengur þetta bara ekki! Þó svo að hann heiti Þór. Það er ekki nóg.

Ég fer í málið strax á morgun. Aldís mín er heppin að eiga móður sem veit hvað henni er fyrir bestu!

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *