Sólarhringurinn minn.

Ég er nú meiri trassinn. Kem fæstu í verk af því sem mig langar til að koma í verk. Bara því sem ég þarf að koma í verk. Það er yfirleitt ekki eins skemmtilegt. Sólarhringurinn er eitthvað svo öfugsnúinn og alltof stuttur. Áður en ég sný mér við, er kominn háttatími og það iðulega alltof seint. Ég hef margoft látið Fúsa skrifa kvörtunarbréf til sjálfvirku klukkunnar í Mainflingen í Frankfurt og beðið Þjóðverjana, með tilheyrandi rökstuðningi, um að lengja sólarhringinn.

Sólarhringurinn minn byrjar, á dæmigerðum degi, um miðja nótt. Fimm eitthvað hringir vekjaraklukkan. Ég fæ strax verki, t.d. í gallblöðruna en fer samt í vinnuna. Í rúmlega átta klukkutíma er ég innilokuð í litlu rými, umkringd fólki sem stundar tal-maraþon og ætlast til að ég taki þátt. Sem og ég geri að sjálfsögðu. Síðan fer ég heim og ætla að koma helling í verk, en nei, þá er ég plötuð í íþróttirnar af vinkonunum… ó nei, ekki í dag, ég nenni ómögulega, er komin með nýjan verk, nú í miltað. Þá heyrist í vinkonunum: „ætlarðu að verða bakveikur flatrassingi???“. Nei það ætla ég ekki að verða og hengslast því af stað.

Í staðinn fyrir að fara beint heim eftir sportið, förum við í Víkingaklúbbinn og sjóböðum allsberar með öllum hinum. Það er stranglega bannað að vera í sundfötum. Þeir segja að þau límist við mann að eilífu og hver vill vera kistulagður í Speedo sundbol?

Loks kemst ég heim en þá tekur við þetta dagsdaglega. Að fjarlægja hundahárateppið af öllu húsinu, þvottastúss, elda andskotans matinn, já og fara út með hundinn. Að sjálfsögðu næ ég þessu ekki fyrir kvöldmatartíma nema húsbóndinn taki að sér svo sem eitt verkefni, jafnvel tvö. Þegar kvöldmaturinn er yfirstaðinn, er reynt að ná kvöldfréttunum á TV2 og spæla sig meira og meira með hverjum deginum sem líður á því að mega ekki kjósa!

Talandi um kosningarétt.

Ein í vinnunni minni hefur verið gift Íra í 21 ár. Já, vitiði hvað?! Þau voru að selja húsið sitt og kaupa annað í sama sveitafélagi. Þeim langar að búa í friði með hestinn sinn og hund og keyptu því nágrannalaust hús við sjóinn. Ég skil það vel og langar að heimsækja hana, held að þetta sé flottur staður. Nema hvað, mörgum finnst þetta ansi mikið glapræði. Þetta er afar afskekktur staður. Nálægt því að geta kallast einangraður. Og hvað ætlar hún að gera á veturna? Hvernig ætlar hún að komast í vinnuna? Ég sat við matarborðið í vinnunni og hlustaði á. Þekkti landsvæðið en ekki sjálfan staðinn sem um var rætt. En gat engan veginn fengið orðin afskekkt og einangrun til að passa við umhverfið eins og ég þekki það. Þegar heim var komið, googlaði ég. Það er 11 mínútna keyrsla frá nýja húsinu í næsta þorp sem reyndar inniheldur ekkert nema hús með manneskjum í. Engin búð, engin kirkja, ekkert bakarí. Gárungarnir segja að þetta sé hola í jörðinni og líkja þorpinu við Bermudaþríhyrninginn. Maður fer víst bara til þessa þorps ef maður vill láta sig hverfa af yfirborði jarðar. En hversu langt er þá frá þessu einangraða húsi í næsta þorp með einhverja þjónustu? Það eru 15 mínútur samkvæmt google maps. 15 mínútur í kirkju, matvörubúðir, banka, pósthús, bókasafn, skóla, leikskóla, elliheimili, hin ýmsu verkstæði og svona mætti lengi upp telja. Svona til viðmiðunar er einn og hálfan tíma verið að keyra frá Möðrudal til Egillstaða (eins og Flugfélag Íslands kallar Egilsstaði).11406948_10153869429933362_5856136244573556921_n

Ljósmyndari: Maggi bróðir

Aðeins styttra í Reykjahlíð en það er bara sjoppa og sundlaug þar.

En það var ekki það sem ég ætlaði að skrifa um… einangrun upp á 15 mínútur… heldur kosningarnar og Írann. Hann hefur semsagt búið í Danmörku í yfir 20 ár og má ekki kjósa. Honum finnst það niðurlægjandi. Konan hans er reið fyrir hans hönd en getur lítið gert í því. Hún sagði mér: ég segi bara við hann Jón minn, „komdu Jón minn, við skulum deila mínu atkvæði og kjósa saman“. Mér finnst þetta afar fallegt. Við erum fjögur á mínu heimili með aldur til að kjósa. Höfum búið hérna í fjórtán ár, borgum heilan helling í skatt og teljum okkur leggja okkar af mörkum til þjóðfélagsins. En samt höfum við ekkert að segja þegar kemur að því að kjósa ráðamenn þjóðarinnar sem hafa áhrif á okkar daglega líf. En við megum kjósa á Íslandi. Þrátt fyrir að borga ekki krónu í skatt, gera ekkert fyrir þjóðfélagið og þiggja ekkert. Samt má ég hafa áhrif á hver ræður yfir ykkur? Spes þetta fyrirkomulag.

En það var heldur ekki það sem ég ætlaði að tala um, heldur hvernig sólarhringnum er háttað. Ég var búin með kvöldfréttirnar á TV2 þarna áðan og þá kemur eyða hjá mér sem nýtist ekki neitt. Því ég er svo spennt. Hef enga eyrð í mér til að gera neitt að viti. Óþreyjan eftir kvöldfréttunum á RUV er gífurleg. Hápunktur hvers kvölds. Nú haldið þið að ég sé kaldhæðin, en nei ég meina þetta. Þær byrja kl. níu hjá mér á sumartímanum. Og það er alveg glatað. Því klukkan er að verða ellefu þegar Fréttir, Veður og Kastljósið er yfirstaðið. Eða Ferðastiklur! Vá hvað það er lang lang uppáhaldsþátturinn minn. Sérstaklega þrír síðustu. Eftir Kastljós og Ferðastiklur fer maður í tölvuna og ætlar að gera eitthvað vitiborið en kemur engu í verk nema læka og læka á allskonar þarfa statusa. Og endar svo með að fara að sofa alltof seint og fá á milli fimm og sex tíma svefn sem er alltof lítið til lengdar fyrir fólk á mínum aldri.

Og hverju veldur of lítill svefn? Svona fyrir utan áhættuna á hinum ýmsu sjúkdómum og kvillum. Jú, of lítill svefn veldur pokum undir augum. Maður vaknar hreinlega við að húðin undir augunum liggur á öxlunum.

Við því er verið að selja sérstakt krem sem lyftir þeim aftur upp á sinn stað. Það virkar í átta tíma eða yfir eina vakt. Augnabliks tímaleysi. Tíminn stendur sem sagt í stað ásamt öldruninni. En látið ekki glepjast… því margfalt ódýrara er að kaupa gyllinæðarkrem sem virkar á nákvæmlega sama hátt og bera það undir augun. 800kr íslenskar fyrir 60ml. Já þið heyrðuð rétt. Best er bara að kaupa 10L fötu og smyrja gyllinæðarkreminu á allan líkamann. Og hvernig veit ég þetta svo? Þetta er vísindalega sannað á gjörgæslunni í Sönderborg. Á staffinu.

Þetta var semsagt bloggið um það að ég hafi ekki tíma til að blogga og því ekki um neitt.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *