Hystera – Hystería – Hysterísk – Hysterískur
Fyrir fimm dögum síðan sagði ég ykkur í trúnaði frá raunum mínum varðandi vesenið með getnaðarvörnina. Svona mér til varnar, þá varð lítil bylting á Íslandi í apríl þar sem túrvæðingunni voru gerð skil. Þessvegna er ósköp eðlilegt að blogga um þetta. Mér semsagt blæddi eins og… já eins og hvað… eins og opinni slagæð í stóru spendýri. Einn daginn hvarflaði að mér að biðja vinnufélagana um að taka blóðgas úr mér og athuga blóðprósentuna á augabragði. Hélt hreinlega að ég væri orðin blóðtóm. En hætti við, treysti þeim ílla til að stinga mig.
Í dag eftir næturvakt, fór ég semsagt til kvensjúkdómalæknis. Það er í síðasta skiptið í mínu lífi sem ég fer í þessslags læknisskoðun eftir næturvakt. Síðast var það haustið 2012, líka eftir næturvakt, þá fjórtándu á fjórum vikum. Alveg orðin kexrugluð. Stórfjölskyldan meira og minna í lamasessi með hina og þessa krankleika. Auk þess búin að bóka ég mig í vinnuferð til Noregs sem mig langaði ekki í. Ég mætti útauguð til læknis og þar sem henni fannst móðurlífið mitt eitthvað undarlegt ákvað hún að senda mig í nánari skoðun upp á sjúkrahús. Sendi beiðni og ég myndi heyra frá þeim. Hún útskýrði fyrir mér á hraða ljóssins hvað fyrir augu hennar bæri og notaði eingöngu latínu og grísku… af því að ég er hjúkrunarfræðingur. Ég náði u.þ.b. einum tíunda. Á leiðinni heim tókst mér að leggja saman tvo og tvo og finna út að ég væri mjög líklega komin með krabbamein. Ég hringdi í móðursýkiskasti í vinkonu mína úr sama geira og tilkynnti henni fyrstri allra að ég væri væntanlega á leiðinni í legnám, geisla og lyfjameðferð. Að ég ætlaði að berjast fyrir lífi mínu. Hún gaf mér kjaftshögg í gegnum símann, sagði að ég ætti að vita betur, að læknirinn hefði sett mig í 48 tíma krabbameinspakkaferli með det samme, ef minnsti grunur væri um þessháttar. Ég áttaði mig. Seinna kom í ljós að það var ekki baun í bala að mér.
Í dag var ég líka ósofin og snúin þegar ég mætti til læknis. Hún taldi mig ekki dauðvona en fann sig knúna til að hringla í leginu mínu og taka hin og þessi vefsýni. Jesús minn. Það verður aldrei aldrei aftur gert án svæfingar.
Eftir þetta hræðilega leghringl, steig ég á hjólið með svitaperlur á enninu og alltof hraðann hjartslátt. Auðvitað fór ég beint í búðina til að verðlauna mig með mat. Fór síðan heim, borðaði samloku og drakk úr hálfri 1/2 L kókflösku. Það er mánudagur! Og samlokan maður lifandi… við erum ekki að tala um hollustulokur a la Vaffelboden eða samlokustaðanna niður á Jernbanegade. Nei, ég keypti brauð (heilhveitibrauð úr super markeðet) sem ég banna stelpunum iðulega að kaupa og skellti því í samlokugrillið með tilheyrandi stöffi sem löngu er komið úr tísku. Og snakk. Síðan horfði ég á 2 heila þætti af Mad Men, liggandi í fósturstellingu, snöktandi í móðursýkiskasti.
Fúsi kom heim úr vinnunni, vorkenndi mér í hálfa mínútu og fór svo að siða mig til. Hafði haft veður að því að ég væri að reyna redda kostningarspjöldum handa honum af sætum stjórnmálakonum, óháð flokkum og skoðunum. Hann sagðist ekki vilja sjá fleiri spjöld á sínu heimili. En Fúsi minn, heldurðu það yrði ekki mikil prýði af hægri stúllkunni henni Ellen eða hægri öfgakonunni henni Mette úti í garði? Í kaffiboði með Benna Rauða Englabretti? Mette er nú svo fallega eygð? Nei, svaraði hann. Hann sagði að sætasta hægrikona sem hann hefði séð, væri fyrrverandi kærastan sín.
??? !!! !?!
Ókei??!!??
Þetta hafði sömu áhrif og að skvetta bensíni á eld. Ástandið snarversnaði og ég át fiskibollur, marineraðar í söltum tárum.
Og þá rann upp fyrir mér ljós. Hann Hippocrates var ekki svo galinn þegar hann tengdi Móðursýki / Hysteríu við Móðurlífið / Hystera (gríska). Hann vildi meina að hystera (móðurlífið) ætti það til að rífa sig lausa og fara á flakk í líkamanum sem ylli því að konur yrðu móðursjúkar. Þessvegna, enn þann dag í dag er oft talað um ósæmileg hegðum hjá fólki og hænum sem hysteríu. Þessu hélt hann fram árið 400 fyrir Krist. Hippocrates vissi sínu viti. 2414 árum seinna heldur þetta heldur betur vatni. Það fer allt í bál og brand þegar það er hringlað svona í leginu manns!