Líkamsvessi (uppeldisfærsla)

Líkamsvessinn sem verður til umfjöllunar í dag er hor. Og ekki að ástæðulausu. Kem að því síðar. Fyrst að fræðilegum staðreyndum um hor.

Hor er óumflýjanlegur hluti af okkur öllum (ekki mér samt). Hor er einn af líkamsvessunum níu og klárlega einn af fjórum verstu. Hor sem orsakast af sýklum er fullt af sýklum og því hættulegt umhverfinu. Það er gult, grænt eða út í brúnt. Hor vegna ofnæmis er oftast vegna pirrings og því bara glært og „saklaust“. Kulda og rokhor er mjög þunnt og sárasaklaust. Hor getur verið þurrt og í kögglaformi. Hor getur verið mjög þykkt og tyggjókennt. Svo klístrað að það límist við allt og engin leið að losna við það. Einnig er til sandhor sem finnst oftast á/í börnum, fólki sem býr við Mýrdals og Skeiðarársand og erlendu eyðimerkurfólki.

Hor er stjórnlaust og vandræðalegt. Það kemur bara og rennur.

Reyndar hef ég nú lent í mjög rómantísku atviki þar sem hor kom við sögu. Auðvitað opna ég mig og segi ykkur frá.

Það var þannig að ég var 14 ára og nemandi í Barnaskólanum á Eiðum. Ég var voðalega skotin í fjarðarstrák í Alþýðuskólanum. Einhver kom á stefnumóti á jökulköldu desemberkvöldi með fullu tungli og harðfenni. Getið rétt ímyndað ykkur hversu allt var uppljómað á Eiðum það kvöldið. Hann sótti mig og við gengum hönd í hönd frá Barnaskólanum, eftir stígnum í móanum og upp á veg. Þaðan héldum við í átt að Egilsstöðum og þegar við vorum komin að Litlaskógi leit hann á mig, baðaða í tunglsljósinu og sagði við mig: „þú ert með svona sultardropa…“. Því næst strauk hann sultardropann minn af með leðurklæddum vísifingri og þurrkaði hann í gallabuxurnar. Þetta var árið 1989 og ég með permanent í hárinu.

Þetta er án efa mína stærsta og eina horrómantík.

En hver var nú ástæðan fyrir því að ég leyfi mér að blogga um hor? Jú, hor er vandmeðfarinn líkamvessi og eins og ég nefndi áðan, stjórnlaus. Maður getur haldið í sér suðurfrá en horið fyrir norðan rennur bara. Og hvað gerir fólk? Snýtir sér. Hvað gera Íslendingar? Sjúga upp í nefið.

Byrjum á löndum mínum. Það þykir ekki sóðalegt né dónalegt að sjúga upp í nefið á Íslandi. Hvorki í biðröð, í útvarpsviðtölum né við matarborðið. Þegar ég bjó á Íslandi var ég með sítt hár. Ég lennti stundum í því að þegar einhver sem stóð í röð, klíndur við bakið á mér, saug upp í nefið, að hárið á mér festist upp í nasaborum viðkomandi.

Ég hef aldrei farið í útvarpsviðtal (afhverju í ósköpunum ekki?) en ég held að maður tali í míkrafón sem hangir niður úr loftinu. Beint fyrir framan nefið. Þessvegna er betra að láta leka en að sjúga upp í nefið. Ég sem hlustandi sé ekki lekann en heyri afar vel.

Við matarborðið er líka sogið upp í nefið. Við vitum öll hvert horið getur farið ef sogið er hraustlega… 670px-Clear-the-Throat-of-Mucus-Step-14Svo er bara kyngt ef einhverjir dropar rata í munninn. Við matarborðið.

Eftir 14 ára búsetu á meginlandinu, í annarri hormenningu hef ég orðið meðvitaðri um kosti snýtingar.

Já það er mun betra að snýta sér. En er sama hvernig snýtunin fer fram? Nei, alls ekki.

Fyrst ætla ég að taka fyrir náttúrusnýtið. Það er ef maður er úti í náttúrunni og kulda/rok horið rennur. Þá er best að fara afsíðis (þarf ekki ef maður er aleinn), loka annarri nös með vísifingri, draga andann djúpt inn og þrykkja síðan horinu út í útdrættinum. Af öllum lífsins sálarkröftum.

Það eru nokkur atriði sem þarf að varast í náttúrusnýti:

  1. Ekki nota náttúrusnýt á göngugötum, á útitónleikum né á höfninni fyrir framan ísbúðina. Þessháttar staðir flokkast ekki undir náttúru.
  2. Þótt maður sé afsíðis, verður að passa upp á vindáttina svo að slettan fjúki ekki á samferðarfólkið. Og það VERÐUR að fara afsíðis. Því annars lendir slettan pottþétt á manneskjunni fyrir aftan.
  3. Ef maður er uppi á húsþaki í sveit, verður að athuga vel hvort einhver sé fyrir neðan og hvaðan vindurinn blæs.
  4. Ef maður er á hjóli, að passa að slettan lendi ekki á öxlinni á sjálfum sér, né á bögglaberanum. Því þar dinglar hún bara langleiðina.
  5. Ef maður er ríðandi, að miða sem lengst svo að slettan lendi ekki á lendinni á hrossinu. Það vita allir hvaðan hún kom. Hrossið líka og því hendir það þér af baki.

Þessvegna er best að endurtaka að náttúrusnýt verður að framkvæma af öllum lífsins sálarkröftum.

Síðan að því þegar aðrir snýta sér.

Ég get ekki á engan einasta hátt þolað þegar einhver snýtir sér:

  • í hárið á mér
  • í hálsakotið mitt
  • á hvoruga öxlina mína
  • á bakið mitt

Aftur að biðröðinni og það er einhver með stjórnlaust hor. Hvað er til ráða?

  1. að snýta sér vel í einrúmi áður en maður fer í röðina
  2. að beygja sig niður í gólf og snúa andlitinu á hlið
  3. troða bómull upp í nasirnar

Eða matarborðið… ef horið fer að leka? Hvað þá?

  1. Fara frá borðinu og snýta sér í einrúmi
  2. Fara frá borðinu og snýta sér í einrúmi
  3. Fara frá borðinu og snýta sér í einrúmi

Önnur aðstæða þar sem ég hræðist mjög að fá hor á mig er þegar ég er að vinna við tölvuna og einhver er að fylgjast með yfir öxlina á mér… og snýtir sér. Beint í hálskotið mitt. Þá klikkast ég, rík upp, tek tölvuskjáinn og kasta honum ofan á alla hina skjáina í kring. Rústa öllu í kringum mig. Lyklaborðin fljúga sem og kaffibollar með kaffi í.

Það vita allir að þegar snýtt er í pappír, þá er ekki hundrað prócent þétting. Það er ALLTAF einhver leki, oftast loftleki sem inniheldur míkróhor en það getur líka orðið lekaslys.

Þessvegna má aldrei aldrei aldrei snýta sér svona rosalega nálægt annarri manneskju. Aldrei.

Í rauninni er reglan einföld. -Einungis er leyfilegt að snýta sér afsíðis eða í einrúmi. Auk þess skal þvo eða spritta hendur ef möguleikinn er fyrir hendi-

Ég er strax farin að sjá eftir að hafa bloggað um hor. Hvernig datt mér þetta í hug… Jú ég fann mig knúna. Tímasetningin er einnig sú besta þar sem ég flý land strax í fyrramálið og fer í felur í heiðunum í norðri, þar sem ekki nein einasta sála hefur lesið bloggið mitt og mun ekki gera. Þegar ég kem heim verðið þið búin að jafna ykkur. Sanniði til.

Þar til næst „ha det“.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *