Í grifflum með þvottavél upp á aðra hæð
Ónefndri (vegna nafnleyndar í blogginu) vinkonu vantaði þvottavél. Hún spurði mig, kerrueigandann, hvort ég gæti hjálpað sér að sækja vélina og bera hana upp á aðra hæð. Heila þvottavél? Já auðvitað ekkert mál, sagði ég. En hugsaði: „kræst, ég að bera þvottavél? Guð minn almáttugur“.
Ég spurði Fúsa hvort þvottavélar væru þungar? Já þær eru það nú. Þyngri en ísskápar, svefnsófar, uppþvottavélar og ýmisleg rúm? Já, þvottavélar eru þyngri en flest annað. Á ég ekki að hjálpa ykkur? Nei nei, Ágústa segir að við getum þetta sjálfar…
Já við hlutum að geta þetta sjálfar. Þvottavél væri varla þyngri en Shetlands ponýhestur.
Við fórum í búðina, létum að sjálfsögðu ekki plata okkur á neinn hátt, hreinsuðum tryggingar og annað óþarfa í burtu og kríuðum út enn meiri afslátt af þessari ótrúlegu amerísku vél sem fjarlægir bletti og straujar þvottinn. Fengum síðan hjálp við að setja vélina upp á kerruna. Afgreislumaðurinn mælti ekki með því að við bærum hana sjálfar upp á aðra hæð.
En við vorum búnar að bíta þetta í okkur. Kristjana frænka var með og ráðin á staðnum sem ljósmyndari.
Þetta var minnsta mál. Enda vorum við vel búnar – í grifflum.
Við tókum okkur góðan tíma í myndatöku eða ca. hálfa mínútu. Myndarlegi nágranninn úr garðinum á móti sem var í óða önn að slá grasið, fylgdist með okkur og hefur kannski blöskrað slórið því hann kallaði yfir og bauðst til að hjálpa. Nei takk, svöruðum við í kór og héldum áfram að pósa.
Síðan var lagt af stað.
Þetta var alveg auðvelt… enda með fjórar hendur og tvö læri til að halda undir vélina.
Þá kom að tröppunum sem ég hafði hræðst síðan Ágústa bað mig um að hjálpa sér. Það gekk vel upp fyrstu tvær. Mjög vel.
En svo fór aðeins að síga í. Ekki afþví að við gátum þetta ekki fræðilega séð, heldur snérum við vélinni óvart á hvolf. Auk þess var hún svo sleip. Hefðum átt að halda undir hana að aftan, þar sem spýtan er. Þar hefðum við haft mikið betra grip. Og kannski hefðum við átt að eyða minni tíma í myndatöku? Það er svo auðvelt að vera vitur eftir á.
Kristjana: „á ég að hjálpa ykkur?“
Nei nei taktu bara mynd!
Kristjana tók vídeó. Það hafa líklega einhverjir verið að fylgjast með okkur og verið meira en tilbúnir að grípa inn í!
Því að líkurnar á að detta aftur fyrir mig og fá bæði þvottavél og vinkonu ofan á mig, voru orðnar langt yfir fimmtíuprósent. Það sá enn einn nágranninn. Það hefur líklegast ekki farið fram hjá nokkrum manni. En þrátt fyrir þennan líkindareikning minn, hefðum við getað þetta sjálfar. Það hefði bara tekið lengri tíma. Kannski kostað okkur handleggina og kannski hefði þvottavélin ekki þvegið almennilega og ekki fjarlægt alla bletti eins og sölumaðurinn hafði lofað.
Þetta minnti mig óneitanlega á þegar pabbi tók einn undir frampartinn á hreindýrunum og við mamma tókum afturpartinn saman… Svona á burðarverkaskiptingin líklega að vera. Héreftir er það viðurkennt á mínu heimili.