Hvernig kemur maður svo undan vetri í þetta skiptið?
Eftir grámyglulegan vetur kom vorið. Freknurnar spruttu fram og það kom strax far eftir hlýrana á bolnum.
Ég fór glöð í bragði nær speglinum til að virða fyrir mér freknurnar en það hefði ég betur látið ógert. Við mér blasti þessi langa rót af silfurlituðum hárum. En því er ég nú orðin vön, fyrir löngu. Hinsvegar var bólan á milli augnanna öllu verri. Þegar eitthvað truflar húðina á þessum stað, breytist útlitið svo mikið. Eins ef maður fær augnsýkingu og bólgan nær uppeftir nefhrygg og langleiðina upp á enni.
Það er einmitt um það bil svona augnsvipur sem kemur ef það er bóla á milli augnanna.
Auk þess voru augabrúnirnar á mér í samræmi við íllgresið í garðinum mínum. Eða í samræmi við brúnirnar hans Jóns dýra.
Í staðinn fyrir að slíta mig frá speglinum, hélt ég áfram að horfa. Rak þá augun í aðra bólu… á enn verri stað. Ofan á nefbroddinum. Það er versti staður. Þær bólur æpa á fólk! Þetta var reyndar á föstudagskvöldið og ég var að fara að vinna daginn eftir. Ég fór á fætur kl 5.45 með þá von í brjósti um að bólan hefði horfið um nóttina. En nei, þarna blasti hún við. Ekki stór en vel sýnileg og gerði myndarlegt nefið mitt að risavöxnu nefi beint upp úr bókinni Lord of the rings. Þeir sem hafa lent í svipuðu þekkja tilfinninguna. Maður er alveg við það að hringja í vinnuna og segjast vera með mígreni eða eitthvað álíka fljótlegt. En þar sem vinnan myndi líklega ekki trúa mér, drattaðist ég af stað. Rétt rúmlega sjö, stóð ég inn á stofu og var nýbúin að taka við sjúklingnum af næturvaktinni, þegar læknirinn sem var að klára vaktina sína kemur úfinn og svefndrukkinn inn á stofuna. Og hvað haldiði? Haldið þið ekki að doktorinn hafi líka verið með bólu á nebbanum. Alveg á nákvæmlega sama stað. Ég setti hendina á bringuna (mína) og hugsaði „en fallegt, við eigum eitthvað sameiginlegt og skiljum hvort annað“. Hann virtist samt ekkert vera miður sín yfir sinni bólu. Eiginlega virtist honum alveg nákvæmlega sama.
(Þetta er hann en ég valdi að setja grímu á hann á myndinni til að viðhalda nafnleyndinni sem ég legg mikið upp úr á blogginu mínu)
Ótrúlegt en satt, þá lifði ég daginn af.
Þegar ég kom heim fór ég beint að speglinum til að skoða ástand bólanna tveggja sem höfðu tekið sér bólfestu í andlitinu á mér. Segið mér, hvað er maður gamall þegar maður hættir að fá bólur? 80 ára?
Bólurnar voru á undanhaldi en ekki tók skárra við. Ég held svei mér þá að ég sé með heilbrigðari skeggvöxt en litli bróðir minn sem er þó orðinn kynþroska. (Maggi, nú ferðu ekkert að sanna skeggvöxt þinn vegna þessara ummæla minna og safna ljótu skeggi með matarleifum og allskyns kuski í).
Eftir að ég skoðaði mig í speglinum fór ég að blása á mér hárið í ermalausum bol. Það á maður aldrei að gera ef sjálfsmyndin er að brotna hratt og örugglega niður. Hvað þarf maður að lyfta mörgum járnum til þess að bíngóvöðvarnir hætti að blaka við allar mögulegar hreyfingar?
Ég gafst upp og fór út í sólina. Settist niður með bók og kaldan drykk en varð fljótlega heitt og bretti því upp á buxurnar. Fann að það hjálpaði ekki og fór því úr þeim. Þá, mér til skelfingar, sá ég að leggirnir mínir minntu á leggi jarps hests (nánar tiltekið 1.verðlauna kynbótahryssu). Kafloðnir en snögghærðir. Það var ekki nema von að mér væri heitt í þessum pels!
Ég hugsaði með mér að það væri aldeilis heppilegt að ég væri ekki að deita neitt. Að ég væri bara alltaf heima… En mundi þá að ég er að fara til Ítalíu næstu helgi. Hvernig gat ég gleymt því? Til Ítalíu þar sem hitinn er tíu stigum yfir hitanum í Danmörku. Þar sem ég get gengið um berleggjuð og drukkið flotta drykki og borðað ítalskan ís inn á milli drykkjanna.
Já ég kom eins og kalið tún undan vetrinum þetta árið en brátt verð ég eins og vel snyrtur verðlaunagarður… Bíðið bara.