Þegar löggan sem borðar ekki rúnstykki, fór í bakaríið og keypti tólf rúnstykki.
Ég lofaði ykkur um daginn að segja frá þegar löggan fór í bakaríið og keypti rúnstykkin. Það byrjaði þannig að á fimmtudaginn var ég í fríi og fór á fætur um leið og Fúsi fór í vinnuna. Rúmlega átta, röltum við Vaskur í bakaríið. Þar sem Vaskur er ekki mikið fyrir að bíða lengi fyrir utan búðir (týpískur karlkyns, bíður í mesta lagi 3 mínútur), teygi ég mig í miða og bíð svo fyrir utan og fylgist með í gegnum gluggann eftir að röðin komi að mér. Ég var númmer 52. Númmer 51 var lögga í búning. Ég veitti honum enga sérstaka eftirtekt þar sem hann var um það bil átján árum yngri en ég.
Þegar röðin kom að löggunni fór ég inn. Hélt að hann yrði snöggur og ég líka, þá kæmist ég hjá því að hundurinn hæfi upp raust sína og vekti allar B-manneskjurnar í hverfinu. En nei nei, þótt ég tæki ekki eftir honum, gerði bakarísstúlkan það. Og svona heldur betur. Hann bauð góðan daginn. Hún svaraði: „dóðan gæinn… hí hí hí… nei ég meina óðan sæinn… hí hí hí góða nótt bara“ og flissaði þessi heil ósköp. Hann veðraðist allur, skaut út brjóstvöðvunum og bað um tólf rúnstykki. Ha, tvö? Hí hí hí… eða sagðirðu tíu? Og áfram hélt flissið. O MY GOD, hugsaði ég! Þetta á aldrei eftir að enda. Afhverju gat sá sem var á undan mér ekki bara verið í gallabuxum og pólóbol? Eða í flíspeysu? Nei annars ekki í flíspeysu, þær eru ólöglegar í birtu.
Hvað er þetta með einkennisbúninga og fólk? Til dæmis fólk eins og mig. Ég á það til að þykjast brjóta af mér svo að löggan stoppi mig (ef þeir eru ekki 18 árum yngri). Einu sinni lét ég öllum íllum látum inn í mátunarklefa í Kaupfélaginu til að öryggisvörðurinn kæmi að athuga um mig. Hann fer nú alveg með mig þegar hann sveiflar kylfunni inn í miðri búð. Á flugvöllunum í öryggistékkinu læt ég alltaf pípa á mig og fylli veskið mitt með bönnuðu en sakleysis drasli… bara til að ná betra sambandi við þá.
Einmitt þessi týpa á flugvöllunum heillar mig alveg upp úr skónum.
Gaurarnir í bláa gallanum á dekkjaverkstæðunum slá samt öllum við. Og þeir verða ekkert pirraðir þótt ég komi aftur og aftur: Strákar, mig grunar að það sé sprungið hjá mér…“
Eiginmaðurinn er ekki hótinu skárri. Ef hann flýgur einn, fer hann iðulega að spyrja flugfreyjuna út í útsýnið eða hinar ýmsu skýjatýpur. Hann er búin að horfa á geimmyndina Gravity seytján sinnum… bara útaf geimfarabúningjum hennar Sandra Bullock. Hann verður pirrraður þegar Sandra fer úr búningnum. Rétt afbar þegar hún lenti í vatninu og VARÐ að fara úr honum því annars hefði hún drukknað. Ég má ekki horfa með honum.
Nei löggan vildi hvorki tvö né tíu rúnstykki heldur tólf. Það tók um tólf sekúndur að fá það á hreint. Honum leiddist ekki flissið í bakarísstúlkunni. Brosti kumpánlegur út í annað og bað síðan um tvær kanilstangir. Aftur fór hún í flækju; ha, tólf? hí hí hí…
Kræst, þarna fannst mér hún nú alveg fara yfir strikið. Þegar ég læt lögguna stoppa mig, þá sýni ég bara ökuskírteinið (og annað brjóstið ef þeir eru með einhvern móral út í skírteinið sem er síðan 1993). Ég missi mig ekkert í stelpulátum.
„Nei, bara tvær kanilstangir, maður verður nú að passað formið“ sagði hann, hnyklaði byssurnar og blikkaði hana.
Álíka uppistand varð þegar hann fór loksins að borga. Bæði orðin eldrauð og funheit í framan, Vaskur byrjaður að spanggóla fyrir utan og ég orðin sótsvört af óþolinmæði.
En síðan sló það mig að kannski eru þau að deita. Kannski var hann einungis að gera sér ferð í bakaríið bara til að sjá hana. Kannski borðar hann hvorki rúnstykki né kanilstöng. Maður hefur nú heyrt því um líkt, að fólk geri sér ferðir í búðir til að deita staffið. Jafnvel margar ferðir á dag. Já maður hefur nú heyrt um það…
Ég sjálf fór oft í Trésmiðju Fljótsdalshéraðs þegar ég var 17 ára. Vantaði skrúfur, planka, einingu eða glugga án glers. En í rauninni vantaði mig ekkert af þessu, að sjálfsögðu ekki. Herbergið mitt í Stekkjartröðinni var orðið yfirfullt af drasli sem ég vissi ekkert hvað ég átti að gera við. Ekki gat ég skilað, það hefði verið of vandræðalegt. Þetta var allt saman bara (rándýrt) yfirskyn, eins og hjá öðrum sem venja komur sínar í búðir vegna starfsfólksins og hjá löggunni sem borðaði ekki rúnstykki og alls ekki tólf.
Hahahahaha ????