Göngulag hjúkrunarfræðinga
Þegar ég er á stofu 6 í vinnunni og það er rólegt, get ég setið út í horni, við gluggann og fylgst með báðum sjúklingunum mínum, öllum tækjum og vélum OG ganginum fyrir utan stofuna. Þessi gangur er mesti umferðargangurinn á deildinni. Flestar leiðir liggja um hann; inn á skrifstofu, inn til deildarhjúkrunarfræðingins, inn á vinnustofu, inn á skólastofu, inn í eldhús, inn á læknaskrifstofurnar, á klósettið og yfir á vöknun, skurð og svæfingardeild og fleira og fleira. Þessi fólksumferð gefur kjörið tækifæri til vettfangsathugunar. Ég skoðaði göngulag hjúkrunarfræðinga þar sem þeir eru í meirihluta á mínum vinnustað. Þetta var megindleg vettfangsrannsókn í höfðinu á mér þar sem ég notaði aðeins augu og eyru. Get þessvegna ekki sýnt fram á neina niðurstöðu á pappír en niðurstaðan var slæm. Trúið mér bara.
Það er annað en vinir mínir í Mad Men þáttaseríunni, þessari sem ég er búin að vera að horfa á síðan í haust og er um það bil hálfnuð með. Stefni á að vera búin með hana fyrir afmælið í ágúst. Þá ætla ég að halda upp á að ég verði fertug og að mér hafi tekist að klára heila þáttaseríu.
Mad Men serían gerist í New York á sjöunda áratugnum í auglýsingafyrirtæki. Yfirmennirnir eru ríkir, konurnar undirborgaðar en ómissandi, þau reykja eins og skorsteinar og drekka eins og svampar, sögulegum staðreyndum er fylgt og það sést vel hvernig samfélagið endurtekur sig í sífellu. Stíllinn er æðislegur (hef alltaf verið veik fyrir sjötta og sjöundaáratuga tískunni) og ég tala nú ekki um göngulagið. Bæði hjá konunum og körlunum.
Fallega vaggandi göngulag Joans og töffaragangur Rogers ætti vel heima í hjúkrunarfræðingsstéttinni, sem og öllum öðrum stéttum.
Á ganginum á gjörgæslunni sjáumst við þramma, já eða arka með hausinn niður í bringu. Eins og við séum stanslaust að spá í eitthvað flókið; hvaða takka á öndunarvélinni ætti ég að snúa til að sjúklingurinn minn hætti að vera súr? Sumir hjúkrunarfræðingarnir taka alltof stutt skref, aðrir alltof stór. Hvortveggja er jafnslæmt.
Sumir labba með hávaða. T.d. ég. Ég trampa víst. Reyndar trampaði ég, held ég ekki þegar ég var nemi og seinna nýútskrifuð því þá mætti ég í HOLEY SOLES.
Vorið 2006 kom kona í skólann að selja þessa kanadísku skó. Stuttu seinna mætti ég í þeim í verknám á vökudeildina. Við nemarnir skárum okkur úr. Fljótlega fór að bera meira á Holey Soles og seinna ringdi Crocks yfir sjúkrahúsin í Danmörku. Það voru ekki smekklegir tímar. Ég læddist um á þessum í allavega tvö ár. Seinna fór ég m.a. í ecco sandala, síðan í tásusandala og þar næst í „frjálsa“ Nike. Það eru tískustraumar í skóm á sjúkrahúsunum en þeir straumar eru sjaldnast fallegir, trúið mér.
Þarna ákvað ég að sýnast „gáfulegri“ út frá skónum. Þetta eru þriðju ljótustu skór sem ég hef átt, Ecco og Holey soles voru ljótari. Þessir voru of þröngir yfir ristina, ég lagaði það með því að skera í þá með litlum sótthreinsuðum skurðarhníf. Í þessum trampa ég rosalega. Kannski hef ég alltaf trampað. Kannski er bara verið að benda mér á það fyrst núna, því fólk sér hversu breitt bakið mitt er orðið og ég þoli gagnrýnina betur.
Þegar ég sjálf geng eftir umferðarganginum, set ég hendurnar þungt í vasana, hausinn niður í bringu og trampa á hraða ljóssins. Ég er almennt ekkert stressuð né sérstaklega hugsandi. Þetta er ekki fallegt göngulag en ég vil bara frekar eyða tíma í kaffi, mat eða á klósettinu heldur en að eyða tíma í að komast í kaffi, mat eða á klósettið.
En nú að niðurstöðum megindlegu rannsóknarinnar:
Ein í vinnunni gengur eins og ísbrjótur. Það hefur víst eitthvað með brjóstastærð og hraða að gera. Maður víkur.
Þó nokkrir hjúkrunarfræðingar ganga eins og endur. Tveir ganga eins og endur sem eru alveg að fara að verpa.
Aðrir ganga eins og karlmenn með alltof mikið testosteron í blóðinu.
Einn gengur eins og kolkrabbi, ef kolkrabbi gæti gengið.
Sumir eru útskeifar, aðrir eru innskeifar.
Enn aðrir taka örsmá skref og skjótast á milli herbergja eins og silfurskottur.
Ég veit ekki hvort hægt sé að kenna skónum um miður fallegt göngulag hjúkrunarfræðinga eða því að við þurfum svo oft að vera snöggir; sæktu adrenalín!, sæktu bleyju!, sæktu svæfandi! sæktu hitt og sæktu þetta og það á stundinni, drífðu þig í mat og vertu ekki of lengi. Pissaðu hratt og ekki kúka. Nei annars, ekki drekka neitt því þá þarftu ekki að fara á klósettið.
Á páskadagskvöld vorum við Fúsi að labba heim og ég var á hraðferð. Hann segir: Dagný, þú gengur mjög ókvenlega!
Ég var á leið á fjórðu næturvaktina, sjöunda vinnudaginn þessa vikuna og ofur viðkvæm. Því spurði ég hann (með tárin í augunum) hvort hann vildi ekki bara finna sér aðra konu? T.d. snyrtifræðing… sem vinnur í Fríhöfninni í Leifstöð? Alltaf með meik þótt kl. sé bara sex núll núll! Og óaðfinnanlegan augnskugga? Jafnvel bláan. Ef þær væru ekki svona indælar og allar af vilja gerðar til að hjálpa mér við allt mögulegt, þegar ég mæti með kortið í svefnrofanum, myndi mér vera meinílla við þær. Full af öfund og afbrýðisemi yfir þessari kvenlegu fegurð fríhafnarinnar. Sérstaklega vegna þess að þegar ég er stödd í fríhöfninni á ég líklega einar mínar ljótustu stundir. Nýstaðin upp úr rúmi í Keflavík til þess eins að fara beint út í vél til að halda áfram að sofa. Eins og tuska dregin upp úr íslenskum skurði að vori til.
Mad Men -það ættu allir að horfa á þessa þætti, bæði af því að þeir eru góðir en líka til að temja sér fallegra göngulag. Það gengur engin eins og hobbiti eða önd í Mad Man.
Ég ætla að æfa og innleiða fallegt göngulag Joans, Dons, Peggy, Rogers og Megans á gjörgæsludeildina þótt við séum í Nike eða hvítum klossum, því allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi.