Frá Eskifirði, í gegnum Oddskarðsgöngin og yfir í Valaskjálf.

Í kvöld voru ég og ónefndur frumburður að dunda okkur á baðherberginu í stelpudundri og ég lagði til landafræðispurningarleik. Því ég hef gaman af landafræði en frumburðurinn ekki. Hún segir að landafræði sé hennar slakasta hlið en vill verða betri og því samþykkir hún að fara í þennan spurningarleik aftur og aftur.

mini-DSCN0488_JPG

(Á þessari mynd er hún óþekkjanleg sem er gott vegna nafnleyndarinnar, en hún er 9 árum þarna og með hárið fyrir andlitinu)

Frumburður, nefndu þrjá bæi í Noregi: Oslo, Túbbuborg og… Þarna dó ég strax úr hlátri.

Okei, nefndu fjóra bæi á Ítalíu, fimm í Svíþjóð, sjö í Þýskalandi, þrjá í Hollandi og Póllandi. Nefndu höfuðborgina í Chile, Úkraínu og Nígeríu. Hvort tilheyrir Sakhalin Rússlandi eða Japan?

Svörin voru upp og ofan og ákvað ég svo að binda lokahnykkinn á leikinn með því að koma henni í algjörlega opna skjöldu.

Frumburður, nefndu fimm bæi á Íslandi… he he (þarna ætlaði ég að ná henni)

Svar: Seyðisfjörður, Egilsstaðir, Borgarfjörður, Djúpivogur og Akureyri (hvaðan í ósköpunum kom Djúpivogur?)

Ókei, nefndu fimm í viðbót.

Svar: Kópavogur, Keflavík, Eskifjörður, Norðfjörður og Ísafjörður (Ísafjörður???)

Andskotinn, fimm í viðbót…

Svar: Árskógssandur, Grundarfjörður, Skagafjörður, Vopnafjörður, Hafnarfjörður, Reykjavík og Húsavík. Þetta rann bara upp úr henni. Þrátt fyrir að hafa ekki búið á Íslandi í fjórtán ár. Og leiðst landafræði.

Fúsi hafði eitthvert veður af þessari upptalningu og varð alveg galinn þegar Fellabær kom ekki sjálfkrafa.  Hann reyndi að gefa henni hint. Aldís, hvað byrjar á F???

Frumburður: Fáskrúðsfjörður.

Fúsi: nei.

Frumburður: Flateyri?

Fúsi: Nei, FE…

Frumburður: Fellaheiði?

Frumburðurinn stóð sig langbest í bæjarnöfnunum á Íslandi af öllum löndum. Aðspurð sagði hún að þau íslensku væru bara svo falleg.

IMG_7389

(Hér er mynd af henni þar sem hún er óþekkjanleg til að viðhalda nafnleyndinni)

Ég ákvað að gera þetta erfiðara og spurði:

Ef þú keyrir frá Egilsstöðum og yfir Fagradalinn kemurðu í…

Frumburður: Reyðarfjörð.

Ef þú heldur áfram í ca korter kemurðu í…

Frumburður: Eskifjörð.

Og ef þú keyrir upp fjallið og í gegnum göngin kemurðu í…

Frumburður: Valaskjálf….

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *