Veturinn ógurlegi og vorið
Það eru nú búnar að vera meiri sviftingarnar í veðrinu á Íslandi í vetur. Bylir, hálka, hríð, rok, frosthörkur og fannfergi. Fluginu frestað, Dalurinn ófær, sem og Skarðið og Heiðin. Í fyrradag fjallaði RÚV um veturinn í ár og gerði skemmtilegt myndband þar sem Bogi facebookvinur minn skartaði hinu fegursta doppótta bindi (ekki síðra en það gula) fyrstu 10 sekúndurnar og sagði frá því að 37 lægðir hefðu farið yfir landið frá því 1. nóvember og að sjaldan hefðu liðið meira en þrír dagar á milli storma með tilheyrandi viðvörunum og samgöngutruflunum. Myndbandið er hér. Segið mér, sér Bogi um að stílisera sig sjálfur? Margir jakkafataskyrtubindisplebbar ættu að taka hann til fyrirmyndar. Það er algjör óþarfi að uppgötva hjólið eða djúpa diskinn aftur og aftur.
Hér í Danmörkinni er búin að vera dæmigerður danskur vetur. Grasið grænt og himininn grár. Ef einhver spurði mig hvernig veðrið var í gær þá mundi ég það ekki. Því oftast var ekkert veður. Hvernig sem það er nú hægt. Klæðnaðurinn var aukaatriði, maður fór bara í einhvern jakka og setti á sig húfu ef tími gafst til. Því það skipti eiginlega ekki máli, hvort maður hjólar húfu og vettlingalaus í vinnuna í engu veðri.
Í byrjun febrúar kom reyndar vetur með skelli, það snjóaði loksins og hrifning heimilisfólksins og hundsins ætlaði engan endi að taka, þrátt fyrir að þetta hefði verið í mesta lagi 5 cm snjóalag þar sem það var mest.
Ég þurfti að fara til Odense (150km) og höfðu vinnufélagarnir alveg voðalegar áhyggjur af mér útaf snjónum, en það þarf ekki mikið til að setja þunga umferðina á hraðbrautinni úr skorðum. Í þessu tilfelli var bara ekki snjór á hraðbrautinni, heldur á túnunum við hliðina á. Samt voru áhyggjurnar miklar. Ég þyrfti nú að vera ansi klaufsk til að festa bílinn þar. Fyrir utan að ég myndi seint láta 5 cm snjóalag stoppa mig, alin upp í Eiðaþinghánni, upp við fjall. Það var alltaf ófært, alla mína barnæsku. Í ágúst líka ef ég man rétt.
Snjórinn í Danmörku í febrúar entist yfir rúmlega helgi. Maður vissi ekkert í hvorn fótinn maður átti að stíga. Slá grasið eða búa til snjókarl?
Viku seinna kom vorið. Sólin skein skært og Vetrargosin, ásamt öðrum vetrarblómum spruttu fram. Hundurinn teppalagði gólfin á svipstundu og hitinn í húsinu var lækkaður.
En viti menn, þá kom slydda. Hundurinn hætti við að fara úr hárum, hitinn í húsinu var hækkaður og vetrarblómin þraukuðu.
Þetta er einhver jurt í garðinum mínum er að blómstra núna.
Já, það hafa líka verið heilmiklar umsviftingar í veðrinu í febrúar í Danmörku.
En nú virðist vorið vera komið, vorverkin eru hafin og inflúensan á undanhaldi.
Í almenningsgarðinum okkar hinum megin við götuna hafa þeir fellt tré síðustu þrjá daga.
Eitt af þeim er bogni Cederen til vinstri sem fór ílla út úr einum hauststorminum. Nú er hann allur. Blóðbeykið til hægri var ægifagurt og tilkomumikið á sumrin. Vaskur elskaði að pissa utan í það.
Núna er Blóðbeykið bara nakið og bíður rólegt örlaga sinna. Það sem við eigum eftir að sakna þess. En lífið heldur áfram og við Vaskur verðum að aðlagast breyttum aðstæðum 🙂