Les temps de l’amour, staubsauger og the sun
Frumburðurinn hún Aldís er með breiðari, dýpri og þroskaðri kvikmyndasmekk en restin af fjölskyldunni. Hún veit upp á hár hvað hún getur látið mig horfa á, segir mér hverju ég á að horfa eftir og kann helling af hugtökum í sambandi við tökur, klippingar, tónlistina osfrv.
Aldís er því algjer gullmoli á heimilinu til að koma í veg fyrir að ég eyði dýrmætum tíma mínum í myndir sem mér finnst ekki skemmtilegar. Hún var t.d. búin að vara mig við myndinni Mamma Mia en ég hlustaði ekki. Vissi að hún væri leiðinleg en hélt hún væri kannski svona eins og laus tönn, gott/vont. En nei, Aldís hafði rétt fyrir sér. Myndin Mamma Mia var gjörsamlega óáhorfandi. Ég braut sjónvarpið þegar hún var tæplega hálfnuð.
Eftir þetta hef ég alltaf tekið mark á Aldísi, hún hefur ekki brugðist hingað til. Um daginn lét hún mig horfa á mynd sem heitir Moonrise Kingdom sem Wes Anderson leikstýrir. Hann Wes var nú aldeilis að slá í gegn á Óskarnum hérna á dögunum.
Moonrise Kingdom er yndisleg mynd um 12 ára stelpu og strák sem verða skotin og ákveða að hefja sitt eigið líf, fjarri skátunum og fjölskyldunni. Hann er alltaf í kakílituðum skátabúningi og hún í bleikum kjól með dimmbláan augnskugga. Það er hellingur af góðum leikurum í myndinni, t.d. Edward Norton og Bill Murray. Litirnir eru skemmtilegir og tónlistin frábær. Það var einmitt tónlistin sem ég ætlaði að skrifa um. Ég er búin að hlusta á lagið Les temps de l’amour með Francoise Hardy síðan ég sá myndina. Aftur og aftur.
Tvö myndbönd. Gat ekki valið á milli. Það fyrra er bara lagið með henni undurfögru Francoise Hardy, hitt er uppáhalds atriðið mitt úr myndinni.
Í gær víkkaði ég tónlistina og fór að hlusta á fleiri lög með Francoise.
En fyrst fór ég í sturtu, svo út með hundinn og í bakaríið. Þegar heim var komið, kveikti ég á franskri tónlistinni. Þvínæst útbjó ég morgunmat en dró að vekja Aldísi þangað til klukkan var að verða 10. Hún þarf að sofa lengi eftir erfiðar 14 tíma vaktir blessunin.
Þegar Aldís var vöknuð bauð ég henni út að borða. Hún þáði það og klæddum við okkur í peysur og fórum út í garð með nýbakað brauð, könnu af kaffi og Francoise.
Seinna fór Aldís að heiman og ég ákvað að senda snapmyndir á alla þá sem gengu um í úlpum í gær. Ef fleirum langar í sólarsnap (því sólin er jafn stór og sterk í dag), þá er snappið mitt Alrún. Og alveg róleg, ég er löngu hætt að senda myndir af Fúsa með kynferðislegum undirtón í formi lélegra teikninga.
Síðan fór ég bara að lesa bók, Sandmanden e. Lars Kepler. Það var eitthvað óþol í mér á sunnudaginn og greinilegt að ég þurfti stærri glæpaskamt, þar sem ég fann aldrei til neinnar spennu þegar ég las DNA eftir Yrsu um helgina. Því fór ég niður í Kaupfélag í fyrrakvöld rétt fyrir lokun og sótti eina bók.
Eftir nokkra kafla var mér orðið svo heitt, sólin bakaði mig gjörsamlega.
Ég þurfti að fara inn og sækja blautan og kaldan klút til að setja á ennið á mér. Get svo svarið það.
Og alltaf hljómaði sú franska.
Því næst bakaði ég mánudagsköku með miklu smjöri og þá var best að hlusta á þetta lag.
http://youtu.be/hXU616qnnCQ
Þetta er svo gott eldhúsdanslag.
En ég gerði ekki bara skemmtilega hluti í gær, ég ryksugaði líka á meðan tónarnir ómuðu. Við eigum nefnilega nýja ryksugu (staubsauger á þýsku). Þannig er nefnilega mál með vexti að Fúsi keypti nýja ryksugu um daginn og taldi pokalausa vera málið.
Nema hvað, kannan sem tekur á móti draslinu af gólfinu er glær og Vaskur trylltist úr hræðslu þegar hann sá stóran hluta af sjálfum sér inn í könnunni, hringsnúast þar eins og hvirfilbylur. Auk þess var hún vitakraftlaus og hávaðinn var á við þegar verið er að skera flísar.
Fúsi tæmdi hana, þurrkaði af henni, skilaði henni, fékk peninginn til baka og fór og keypti aðra ryksugu. Alveg eins og þá gömlu. Þegar ég opnaði kassann sá ég að hún var blá.
Ragna rauða ryksuga varð yfir sig ánægð með félagsskapinn og stökk upp á Bríeti bláu ryksugu.
Þarna hafa þær verið í faðmlögum síðan, vaggandi sér við frönsku tónlistina hennar Francoise.
Svona geta ryksugur lífgað upp á annars hversdagslega tilveruna.
P.s. Muniði að horfa á Moonrise Kingdom við fyrsta tækifæri.
P.s.s. Ekki erfa þessar sólarmyndir við mig of lengi…