Austurglugginn part 6

Hér á Möllegade er allt með kyrrum kjörum, ekkert sem er prentvænt gerist og því ekkert að blogga um. Ekki einu sinni um veðrið, þótt það hafi örugglega verið um 20 stiga hiti í skjóli og sól í dag. Nágranninn berháttaði sig og flatmagaði innan um hænurnar. En ég ætla nú ekki að nudda neinum upp úr því, né birta mynd, hvorki af mér í rósóttum vorkjól né kafloðnum nágrannanum.

Þessvegna er það bara lokaorð Austurgluggans frá því síðast í janúar með kvöldkaffinu í kvöld. 10529716_10152536671265682_416763900_n

Í hvert skipti sem ég kem heim til Íslands reyni ég að fara á nýja staði, helst úti í náttúrunni, en jólamarkaður Barra gengur líka alveg. Vinkona mín, Sigrún, er ötul við að finna upp á skemmtilegheitum með mér og þrátt fyrir sæmilega skipulagningu, góðar leiðbeiningar og ágætis skó, eru leiðirnar ekki alltaf beinar og greiðar. Fyrir nokkrum árum, fórum við á Snæfellsnesið og áður en við vissum af vorum við lagðar af stað upp á Kirkjufellið við Grundarfjörð seint um kvöld. Við rétt náðum að skipta um skó en fórum annars bara í pæjuklæðnaðinum enda átti þetta að vera létt og stutt ganga. Ég hunsaði lofthræðsluna mína og staulaðist skjálfandi upp fyrir annan kaðalinn af þremur. Sá þriðji er til að toga sig upp á sjálfan toppinn. En ég semsagt komst upp á síðasta hjallann fyrir toppinn ásamt kornungum Grundfirðingi. Þau hin fóru alla leiðina upp. Ég hélt að Danni væri bara svona indæll að bíða hjá mér, Sigrún hélt að ég hefði sett mig í hjúkku-og umhyggjugírinn og ákveðið að bíða hjá drengnum, en sannleikurinn var sá að við vorum bæði svona skelfingulostinn og sátum því grafkyrr, ríghaldandi í örsmáa grastoppa, á meðan hin nutu útsýnisins af toppnum. Ég var í hreinskilni sagt, búin að sætta mig við að eyða restinni af ævinni þarna á hjallanum, ásamt drengstaulanum, borðandi gras og drekkandi dögg, því ekki sá ég nokkra leið til að komast aftur niður og þyrla Landshelgisgæslunnar kom ekki til greina. En niður komumst við samt, öll.

2012-07-05 22.33.30 2012-07-05 23.04.57 2012-07-05 23.13.20 2012-07-06 00.31.03

(Þetta var áður en ég eignaðist almennilega myndavél og þarna erum við og „drengstaulinn“ að halda upp á að við værum á lífi).

Eitt sinn hentaði okkur Sigrúnu vel að fara í stutta göngu eftir morgunkaffi í Hafnarfirði. Því varð klukkutíma ganga upp á Helgafellið fyrir valinu. Við vorum með allt á hreinu, enda gerist þetta varla einfaldara. En eitthvað brást, mögulega höfum við talað of mikið, og áður en við vissum af, vorum við komnar upp á námuvegginn við Bláfellsveginn, sem sagt, langt út af leið. En það hafði lítil áhrif á okkur, við skiptumst á fleiri fréttum og því enduðum við á að ganga hringinn í kringum Helgafellið og síðan upp á það og niður aftur hinu meginn. Gangan varð þrír klukkutímar en alveg þess virði, eiginlega er Helgafellið bara mikið fallegra aftan frá séð.

IMG_6541 IMG_6549 IMG_6590

2014-04-29 16.12.30

(Við vorum sammála um að ef við hefðum mætt einhverjum, hefði sá hinn sami haldið að við værum að fara á gæs í þessum felulitum)

Í sumar vildum við sjá eitthvað nýtt fyrir austan og þar sem Hólmatindurinn virtist veðursælastur dag einn í fyrrihluta júlí, varð hann fyrir valinu, og átti það aðeins að taka um tvo tíma að skokka upp á tindinn og niður aftur, samkvæmt Reyðfirskum vörubílstjóra. Við bjuggum okkur vel og með bónda nokkurn á Eskifirði á símalínunni því engar voru stikurnar og ekkert kort með í för. Auk þess hafði bóndinn afskaplega traustvekjandi og karlmannlega rödd og því héldum við honum nánast uppteknum þann daginn við að lóðsa okkur upp á toppinn. Þótt við værum léttar í spori þá tók ferðin allt í allt tæpa sex tíma en ekki tvo eins og við héldum. Uppi á toppnum var útsýnið ólýsanlega fallegt og var því myndað í bak og fyrir. Er það ekki ofsögum sagt þegar ég segi „bak“ því við ákváðum að viðra okkur og mynda á okkur bökin með Reyðarfjörð í bakgrunni. Við vorum ansi ánægðar með okkur, þangað til við komum upp í Egilsstaði aftur og heyrðum í fréttunum að trilla hefði strandað á Eskifirði, beint fyrir neðan okkur, á sama tíma og við mynduðum á okkur ber bökin. Til allrar lukku varð ekki mannskaði en samviska okkar beið nokkurn hnekk og lofum við að gera þetta aldrei aftur.1-IMG_8286

1-IMG_83761-IMG_8399

(Trillan var þarna fyrir neðan til vinstri… væntanlega með kíki um borð og við Sigrún fyrir aftan myndavélina á þessari mynd) 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *